Skip to main content
15. maí 2020

COVID-19 með augum félagsfræðinnar í fjarfyrirlestraröð á Zoom

Félagsfræðin í HÍ og Félagsfræðingafélag Íslands stendur fyrir metnaðarfulli fyrirlestraröð á netinu næstu vikurnar þar sem fjallað verður um COVID-19-faraldurinn út frá ýmsum hliðum félagsfræðinnar.

Hvaða áhrif hefur faraldurinn á mismunandi stéttir? Hvað með íþróttirnar í þessu ástandi? Aukast afbrot vegna snöggra samfélagsbreytinga eins og faraldurs? Hvaða áhrif hefur faraldurinn á tónlist og dægurmenningu? Og hver eru áhrifin á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á þessum fordæmalausu tímum? Þessum og ótal fleiri spurningum mun fræðafólk í félagsfræði við Háskóla Íslands svara í stuttum erindum á Zoom og í framhaldinu verða svo spurningar „úr sal“ og vonandi líflegar umræður. Alls verða fyrirlestrarnir tíu á tímabilinu 18. maí til 8. júní og vinklarnir á þetta fordæmalausa samfélagsástand jafn margir.  

„Þó að kórónaveiran og COVID-19 séu óneitanlega af líffræðilegum toga er allt sem tengist heimsfaraldrinum og sjúkdómnum félagslegt. Við getum skoðað allt frá skilgreiningum á veirunni og hvernig hægt er að nota þær í pólitískum tilgangi, samanber áherslu Donalds Trump á Kínaveiruna, yfir í afleiðingar aðgerða og sjúkdómsins fyrir mismunandi hópa, t.d. eftir efnahag, kyni eða kynþætti, og þaðan yfir í það hve vel kerfin okkar geta tekið á sjúkdómnum og félagslegum afleiðingum hans. Við töldum því afar mikilvægt að koma hinu félagsfræðilega sjónarhorni að á þessum tímum þar sem hið víða sjónarhorn hennar ásamt þeirri sterku kenningarlegu og aðferðarfræðilegu undirstöðu sem greinin hefur býður upp á mikilvæga möguleika á að greina áhrif COVID-19 á mismunandi svið samfélagins,“ segir Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, um aðdraganda fyrirlestraraðarinnar. 

sigrunol

Sigrún Ólafsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson

Líkur á veikindum tengjast samfélagsstöðu

Sigrún ríður á vaðið í fundaröðinni með erindinu „Ræðst COVID-19 jafnt á okkur öll?“ mánudaginn 18. maí. Þar fjallar hún sérstaklega um hvernig ójöfnuður í heilsu verður til, hvernig honum er viðhaldið og hverjar afleiðingar hans eru. „Líkur okkar á að verða veik af flestum sjúkdómum tengjast stöðu okkar í samfélaginu og hversu alvarlegar afleiðingar af sjúkdómum verða gera það líka. Hér er kórónaveiran og COVID-19 engin undantekning en við vitum að sumir einstaklingar þurfa frekar að vera út í samfélaginu en aðrir og eiga því á meiri hættu að smitast. Við vitum líka að við upplifum ekki öll sömu hlutina í því samkomubanni sem hefur verið í gildi,“ segir Sigrún og bætir við: „Það sem heimsfaraldur eins og COVID-19 gerir er að afhjúpa djúpstæðan ójöfnuð sem hefur alltaf verið í samfélaginu sem og hversu sterk grunnkerfin okkar eru þegar á reynir. Ég mun fjalla um hvernig það birtist á Íslandi og í öðrum samfélögum í kringum okkur,“ segir Sigrún.

Hún nefnir sem dæmi þann grundvallarmun sem er á íslenska heilbrigðiskerfinu og því bandaríska. „Það hefur meiriháttar afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem að búa í þessum tveimur löndum og þá kannski sérstaklega þá sem búa við lakari kjör innan hvors samfélag. Við verðum óneitanlega vör við það hversu mikið samfélagið og þær stofnanir sem við tökum sem sjálfsögðum hlut skipta máli varðandi hvað kemur fyrir okkur. Við sjáum líka að allt sem við héldum að væri varanlegt og óbreytanlegt í janúar er það svo sannarlega ekki. Samfélag okkar, samskipti og allt það sem við höfum tekið sem sjálfsögðum hlut hefur umturnast á nokkrum vikum og enn er algjörlega óljóst hver áhrif þess munu vera á framtíð okkar sem samfélags og í raun á framtíð heimsins alls.“ 

Þörf okkar fyrir menningarneyslu aldrei verið ljósari

Faraldurinn hefur ekki eingöngu áhrif á heilsu og efnahag, þá þætti sem hafa verið mest áberandi í fjölmiðlum undanfarnar vikur, heldur líka líka menningar- og íþróttastarf, svo dæmi sé tekið. „Félagsfræðin er fjölsnært fræðasvið sem er vel til þess fallið að greina virkni samfélagsins. Hún sýnir okkur vel hvaða hvaða grunngildi stýra mannskepnunni og um leið hvernig umhverfisþættir móta okkur," segir Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt í félagsfræði, sem ætlar að fjalla um tónlist og dægurmenning á tímum COVID-19 í hádeginu föstudaginn 22. maí.

„Kreppur eða krísur sýna jafnan mjög skýrt hvað það er sem skiptir okkur máli og heilsufarsþættir, afbrotavirkni og samskiptaþörf eru á meðal þess sem hefur flotið mjög greinilega upp á yfirborðið. Ég ætla að beita fyrir mig menningarfélagsfræði og rýna í hvernig dægurtónlistarsviðinu hefur reitt af á COVID-19-tímum. Fyrir það fyrsta hefur þörf okkar fyrir menningarneyslu aldrei verið ljósari en um leið sést líka - því miður mætti segja - hversu mikið listsneysla hangir á því að fólk hittist, komi saman og njóti samvista. Vegna brottnáms þessa þátta riðar þessi geiri bókstaflega til falls. En um leið er dulbúin gæfa falin í því að mikilvægi lista fyrir heill samfélagsins hefur sennilega aldrei verið skýrara," segir Arnar enn fremur.

  „Fyrir það fyrsta hefur þörf okkar fyrir menningarneyslu aldrei verið ljósari en um leið sést líka - því miður mætti segja - hversu mikið listsneysla hangir á því að fólk hittist, komi saman og njóti samvista. Vegna brottnáms þessa þátta riðar þessi geiri bókstaflega til falls. En um leið er dulbúin gæfa falin í því að mikilvægi lista fyrir heill samfélagsins hefur sennilega aldrei verið skýrara," segir Arnar Eggert Thoroddsen, aðjunkt í félagsfræði. MYND/Kristinn Ingvarsson

  Tækifæri til að endurhugsa vinnufyrirkomulag

  Stór hluti samfélagsins hefur enn fremur tekist á við miklar og skyndilegar breytingar á vinnufyrirkomulagi. Fjöldi starfa sem áður var jafnvel talið að einungis væri hægt að sinna á vinnustöðum færðust heim og þeim sinnt í fjarvinnu. Til viðbótar hafa margar fjölskyldur þurft að vera heima saman í langan tíma og foreldrar því að sinna vinnu ásamt því að hugsa um börnin á sama tíma, hjálpa þeim með heimanámið og við tómstundir, eins og tónlist og íþróttir.

  „Vafalaust hefur þetta vinnufyrirkomulag verið íþyngjandi fyrir sumar barnafjölskyldur á meðan aðrar hafa jafnvel fundið fyrir létti. Það getur hentað barnafjölskyldum ef foreldri getur byrjað vinnudaginn heima, svarað tölvupóstum eða jafnvel mætt á fund í Zoom, og komið seinna á vinnustaðinn og sloppið þannig við morgunumferðina og streituna sem henni getur fylgt,“ bendir Ólöf Júlíusdóttir, doktor í félagsfræði, á. Hún mun fjalla um fjarvinnslu og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á fordæmalausum tímum í sínu erindi mánudaginn 1. júní. 

  olofjul

  Ólöf Júlíusdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson

  Ólöf hefur í rannsóknum sínum m.a. lagt áherslu á valdaójafnvægi kvenna og karla í atvinnulífinu sem m.a. má rekja til mismunandi ábyrgðar á heimilinu. Hún bendir á að þessir óvenjulegu tímar sýni að fólk ætti að geta haft meira val um hvar það vinnur. „Það að vinna mikið að heiman getur haft neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir fólk á vinnumarkaði þar sem sýnileiki er einn mælikvarði á framgang í starfi. Hættan við aukna fjarvinnu getur líka verið sú að þá færist enn fleiri verkefni yfir á hendur kvenna því þær sinna í meira mæli en karlar heimilisstörfum og taka meiri fjölskylduábyrgð,“ bendir Ólöf á.

  Í doktorsrannsókn sinni skoðaði Ólöf lágt hlutfall kvenna í stjórnendastöðum í atvinnulífi. „Konurnar unnu að jafnaði styttri vinnudaga á vinnustaðnum en karlkyns kollegar þeirra og töldu sig ná nokkuð góðu jafnvægi með því að vera meira til staðar fyrir börnin. Hins vegar náðu karlkyns stjórnendur að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf með góðu móti ef þeir voru lengur á vinnustaðnum, þ.e.a.s. gátu sinnt vinnunni án truflunar frá fjölskyldu. Þar sem svo stór hópur kvenna og karla var sendur heim í fjarvinnu með litlum fyrirara, og hjón oft saman að vinna að heiman, þá er mikilvægt að skoða hvernig þetta vinnufyrirkomulag snerti líf þeirra, bæði foreldra og börn og vinnumarkaðinn í heild. Nú er tækifæri til að endurhugsa vinnufyrirkomulag á vinnumarkaði,“ segir Ólöf enn fremur.

  Sigrún hvetur fólk til að fylgjast með fundaröðinni og bendir á að hið félagsfræðilega sjónarhorn sé mikilvægt til að skilja áhrif heimsfaraldursins á einstaklinga og samfélög. „Sá skilningur er forsenda þess að geta brugðist við ástandinu á þann hátt að við getum dregið eins mikið og hægt er úr neikvæðum afleiðingum hans.“ 

  Dagskrá fyrirlestraraðarinnar í heild sinni má sjá hér að neðan en allir fyrirlestrar hefjast klukkan 12 og verða sem fyrr segir á Zoom.

  • 18. maí - Sigrún Ólafsdóttir: Ræðst COVID-19 jafnt á okkur öll?
  • 20. maí - Stefán Hrafn Jónsson: Gögn, þekking og lýðfræðin
  • 22. maí - Arnar Eggert Thoroddsen: Tónlist/dægurmenning á tímum COVID-19
  • 25. maí - Sunna Símonardóttir: Heima er best? Kynin og Covid-19
  • 27. maí - Viðar Halldórsson: Ástandið og íþróttirnar: Eru íþróttir það mikilvægasta af ómikilvægu hlutunum?
  • 29. maí - Ingólfur V. Gíslason: Karlar og heilsa
  • 1. júní - Ólöf Júlíusdóttir: Fjarvinnsla og samræming fjölskyldu- og atvinnulífs á fordæmalausum tímum
  • 3. júní - Helgi Gunnlaugsson: Afbrot og kreppur: Aukast afbrot vegna snöggra samfélagsbreytinga?
  • 5. júní - Guðbjörg Linda Rafnsdóttir: Þjóðfélagsbreytingar og líðan í COVID-19
  • 8. júní - Jón Gunnar Bernburg: Fjöldahegðun í heimsfaraldri
  Kennarar í félagsfræði