Skip to main content
4. apríl 2019

Breytingar í loftslagi fyrir 5.000 árum skýra veðurfar í Evrópu nú

Alþjóðlegur hópur vísindamanna hefur varpað nýju ljósi á þróun veðurfars í Norðvestur-Afríku og Evrópu og hefur rakið loftslag á þessum slóðum, eins og það er í dag, til breytinga í umhverfinu fyrir um 5.000 árum en þar kemur svokölluð Norður-Atlantshafssveifla töluvert við sögu. Frá þessu er greint í nýrrri grein í vísindaritinu Climate of the Past sem var að koma út en meðal höfunda greinarinnar er Steffen Mischke, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands.

Norður-Atlantshafssveiflan (einnig nefnd NAO) er loftslagsfyrirbrigði sem táknar í raun loftþrýstingsmun milli Íslands og Azoreyja. Loftþrýstingur á Norður-Atlantshafi er alla jafna lægstur suðvestur af Íslandi og þar er oft talað um Íslandslægðina en loftþrýstingurinn á Norður-Atlantshafi er oftast hæstur nærri Azoreyjum og þar er talað um Azoreyjahæðina. Hvort tveggja vísar til þeirra lægða og hæða sem fara um svæðin tvö. Norður-Atlantshafssveiflan ræður styrk vestanáttar yfir Norður-Atlantshafi og hefur þannig töluverð áhrif á veðurfar í Evrópu. 

Í rannsókninni sem sagt er frá í Climate of the Past beindi vísindamannahópur undir forystu Christophs Zielhofer, prófesssors við Háskólann í Leipzig, sjónum sínum að veðurfarsbreytingum á Nútíma (e. Holocene) en þar er átt við síðustu 11.700 ár í jarðsögunni sem hafa m.a. einkennst af hlýindum. Með því að rýna í samsætur súrefnis í borkjörnum úr Sidi Ali vatni í Atlas-fjöllunum í Marokkó tókst hópnum að draga upp skýrari mynd af veðurfarsbreytingum í Evrópu og Norður-Afríku frá upphafi Nútíma til okkar daga. 

Rannsóknarhópurinn að störfum á Sidi Ali vatni í Atlas-fjöllunum í Marokkó. Vatnið erstaðsett nærri Azorhæðinni sem gegnir mikilvægu hlutverki í Norður-Atlantshafslægðinni sem hefur töluverð áhrif á veðurfar í Evrópu. MYND/Leipzig-háskóli

Rannsóknirnar leiddu m.a. í ljós að á þeim skeiðum þar sem vetrarúrkoma var lítil við vesturhluta Miðjarðarhafs á fyrri hluta Nútíma gengu á sama tíma löng kuldaskeið yfir á svæðum í Norður-Atlantshafi sunnan heimskautsins. Þessi kuldaskeið voru níu talsins og hafa verið kölluð Bond-atburðir eftir jarðfræðingnum Gerard C. Bond sem fyrstur manna varpaði ljósi á þau í rannsóknum sínum. 

Rannsóknirnar benda jafnframt til þess að töluverðar breytingar hafi orðið á loftslagi og veðri í Norður-Atlantshafi fyrir um 5.000 árum, þ.e. á seinni hluta Nútíma. Þá urðu skeið með aukinni vetrarúrkomu við vesturhluta Miðjarðarhafs algengari og á sama tíma kólnaði á Norður-Atlantshafi m.a. með auknu hafísreki á svæðum sunnan heimskautasvæðisins. Hvoru tveggja svipar til einkenna sem tengd hafa verið Norður-Atlantshafssveiflunni sem eins og fyrr segir hefur mikil áhrif á veður og loftslag um alla Evrópu. Því má segja að breytingarnar fyrir fimm árþúsundum hafi markað upphaf þess veðurfars sem við þekkjum í í dag. 

Auk Steffens Mischke, prófessors við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, og Christophs Zielhofer og samstarfsmanna hans við Háskólann í Leipzig, komu jarð- og landfræðingar við Manchester-háskóla og vísindastofnanir í Marrakesh að rannsókninni. 

Grein um rannsóknina má nálgast á vef tímaritsins 

Steffen Mischke