Skip to main content
7. júní 2018

Bókasafn Menntavísindasviðs hlýtur styrk á sviði sérkennslu

Bókasafn Menntavísindasviðs fékk þriggja mílljóna króna gjöf úr Minningarsjóði Heiðar Baldursdóttir í síðustu viku. Gjöfin var afhent við hátíðlega athöfn í Gunnarshúsi á fæðingardegi Heiðar þann 31. maí síðastliðinn en hún hefði fagnað 60 ára afmæli sínu í ár. Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og þýðandi, var heiðursgestur athafnarinnar en hún flutti erindi um þekktustu skáldverk Heiðar.

Heiður Baldursdóttir

Heiður Baldursdóttir var rithöfundur og sérkennari. Hún lést langt fyrir aldur fram hinn 28. maí 1993. Minningarsjóður um Heiði var stofnaður sama ár en sjóðurinn veitir styrki til rannsókna á sviði sérkennslu, blöndunar fatlaðra og ófatlaðra barna og boðskipta. Heiður gat sér gott orð sem rithöfundur, samdi sex barna- og unglingabækur og hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir sögu sína Álagadalurinn sem kom út árið1989.

Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, tók við styrknum fyrir hönd bókasafns Menntavísindasviðs og þakkaði höfðinglega gjöf. Styrknum verður varið til kaupa á efni um sérkennslu og skóla án aðgreiningar.

Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, tók við styrknum fyrir hönd bókasafns Menntavísindasviðs í Gunnarshúsi þann 31. maí síðastliðinn. Guðlaug Teitsdóttir, dóttir Heiðar, afhenti styrkinn.