Bók Unnar Birnu tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna | Háskóli Íslands Skip to main content
2. desember 2019

Bók Unnar Birnu tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

""

Bók Unnar Birnu Karlsdóttur, forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, um sögu hreindýra á Íslandi er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis. Tilkynnt var um tilnefningar til verðlaunanna í gær.

Bók Unnar Birnu nefnist Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi og kom út fyrr á þessu ári á vegum Sögufélagsins. Eins og nafnið bendir til fjallar hún um sögu hreindýra á Íslandi sem spannar um 250 ár. „Bókin er heildstæð hugmyndasaga sem fjallar jafnt um hreindýrin sjálf sem viðhorf landsmanna til þeirra,“ segir í umsögn um bókina.

Bókin byggist á rannsóknum Unnar Birnu. „Rannsóknin fjallar fyrst og fremst um hreindýrið í tengslum við manninn og því dregur hún fram menningarlega og að einhverju leyti efnahagslega þýðingu hreindýranna hér á landi en einnig hvern sess þau skipa í hugum Íslendinga sem hluti af villtri íslenskri náttúru,“ sagði Unnur Birna í viðtali í Tímariti Háskóla Íslands þegar hún vann að verkinu.

Hreindýr setja mikinn svip á náttúru Íslands á Austurlandi en stór hluti stofnsins heldur til í stórum hjörðum á Fljótsdals- og Brúaröræfum. Nokkrar smærri hjarðir halda til á fjörðunum austanlands, allt suður í Suðursveit í Austur- Skaftafellssýslu. Hreindýr eru ekki á Íslandi af náttúrulegum ástæðum heldur voru þau flutt hingað frá Noregi á síðari hluta 18. aldar. Í fyrstu voru örfá dýr sett á land í Vestmannaeyjum og nokkur þeirra síðan færð yfir á meginlandið, í Fljótshlíð, en þau dóu út bæði á landi og úti í Eyjum. Tveimur hópum var nokkrum árum síðar sleppt í land á Reykjanesi og í Þingeyjarsýslu og lifðu þau þar villt um hríð eða vel fram á fyrsta fjórðung 20. aldar. Hreindýrin sem nú lifa fyrir austan eru afkomendur dýra sem sett voru á land í Vopnafirði árið 1787 þegar 35 dýrum frá Avjovarre í Finnmörku var sleppt þar lausum.

Unnur Birna hefur starfað við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi undanfarin fimm ár. Hún lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2010 en áður hafði hún lokið MA- og BA-prófi í sagnfræði og námi í kennslu- og uppeldisfræði frá skólanum. Hún hefur um árabil sinnt rannsóknum á samspili manns og náttúru og er bókin um hreindýrin hennar stærsta verk til þessa. 

Líkt og fyrri ár eru fimm bækur tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirbóka og rita almenns efnis. Auk þess eru fimm bækur tilefndar í flokki barnabóka og jafnmargar í flokki fagurbókmennta. Þess má geta að meðal tilnefndra í síðarnefna flokknum er Steinunn Sigurðardóttir fyrir ljóðabókina Dimmumót, en hún gegnir starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands í vetur. Enn fremur eru þrír ungir rithöfundar, sem lokið hafa námi í ritlist frá Háskóla Íslands tilnefndir, þær Bergþóra Snæbjörnsdóttir, sem er tilnefnd fyrir skáldsöguna Svínshöfuð, Arndís Þórarinsdóttir, sem er tilnefnd fyrir Nærbuxnanjósnarana í flokki barnabóka, og Hildur Knútsdóttir, sem fær sína tilnefningu fyrir Nornina í sama flokki.

Íslensku bókmenntaverðlaunin verða veitt snemma á næsta ári.

Unnur Birna Karlsdóttir