Skip to main content
10. febrúar 2021

Bók í tveimur bindum um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn

Bók í tveimur bindum um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Komin er út í Brüssel 884 blaðsíðna bók sem dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur samið fyrir hugveituna New Direction um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn, Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers. Hún er þegar aðgengileg á Netinu og prentuð eintök eru væntanleg bráðlega til landsins. Bókin er í tveimur bindum.

Í fyrra bindinu, sem er 350 bls., segir Hannes frá ævi og verkum tólf hugsuða. Þeir eru Snorri Sturluson, heilagur Tómas af Akvínas, John Locke, David Hume, Adam Smith, Edmund Burke, Anders Chydenius, Benjamin Constant barón, Frédéric Bastiat, Alexis de Tocqueville greifi, Herbert Spencer og Acton lávarður. Í bókinni bendir Hannes á að í verkum Snorra Sturlusonar gæti tveggja hugmynda, sem frjálslynd íhaldsstefna styðjist við, að valdið spretti frá þjóðinni og að það takmarkist af lögunum, sem valdhafarnir séu settir undir eins og aðrir. Heimskringla sé umfram allt varnaðarorð gegn konungsvaldi. Enn fremur gæti sterkrar einstaklingshyggju í Egils sögu enda hafi Egill verið nefndur fyrsti einstaklingurinn.

Hannes víkur víðar að íslenskum málum. Hann telur til dæmis að kenning heilags Tómasar um andófsrétt gegn ranglátum lögum eigi við um Frjálst útvarp sem hann og fleiri ráku í október 1984 til að andmæla einokun ríkisins á útvarpsrekstri. Kenning Johns Lockes um hvernig menn geti eignað sér gæði úr almenningum, svo framarlega sem þeir skerði ekki með því hag annarra, skýri líka hvers vegna kvótakerfi í fiskveiðum, þar sem upphafleg úthutun kvóta miðist við aflareynslu, sé réttlátt.

Í seinna bindinu, sem er 534 bls., segir Hannes frá ævi og verkum tólf annarra hugsuða. Þeir eru Carl Menger, William Graham Sumner, Ludwig von Mises, Friedrich A. von Hayek, Wilhelm Röpke, Michael Oakeshott, Sir Karl R. Popper, Bertrand de Jouvenel barón, Ayn Rand, Milton Friedman, James M. Buchanan og Robert Nozick. Hannes segir meðal annars frá kynnum sínum af þeim Hayek (sem kom til Íslands vorið 1980), Popper, Friedman (sem kom hingað haustið 1984), Buchanan (sem kom hingað haustið 1982) og Nozick. Kaflarnir um Hayek og Friedman eru lengstir en í kaflanum um Friedman lýsir Hannes áhrifum hans á hagstjórn í Síle og á Bretlandi, Nýja-Sjálandi og Íslandi og í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Hannes telur enga tilviljun að heimurinn hafi farið mjög batnandi á síðustu áratugum tuttugustu aldar eftir að áhrifa þeirra Hayeks og Friedmans tók verulega að gæta, alþjóðaviðskipti jukust og sósíalisma hnignaði. Frjálslyndir íhaldsmenn styðji viðskiptafrelsi, einkaeignarrétt og takmarkað ríkisvald en telji jafnframt að ýmsir sjálfsprottnir siðir, venjur, heildir og stofnanir séu allt nauðsynlegt til að veita einstaklingnum öryggi og fótfestu í síbreytilegum heimi og gera líf hans fyrirsjáanlegt og viðráðanlegt. Sá sáttmáli, sem líf þjóðar hvíli á, sé óskráður sáttmáli milli núlifandi manna, áa þeirra og niðja um þau almennu og óbrotgjörnu verðmæti, sem best hafi reynst mannkyni á ferð þess um viðsjála veröld.

Verkið er prýtt fjölda mynda í lit og svarthvítu af hugsuðunum sjálfum, frægum sögulegum málverkum, teikningum, ljósmyndum og línuritum. Davor Vidovich sá um útlit og hönnun ritsins fyrir hönd New Direction. Fjölmargir sérfræðingar hafa lesið einstaka kafla yfir og unnið með Hannesi að bókinni. Í bókinni er einnig vísað til rannsókna margra íslenskra fræðimanna, meðal annarra Sigurðar Nordals, Jónasar Kristjánssonar, Sigurðar Líndals, Þráins Eggertssonar, Ragnars Árnasonar, Önnu Agnarsdóttur, Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson og kápa bókarinnar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Stjórnmálafræðideild og höfundur bóka um tuttugu og fjóra frjálslynda íhaldsmenn