Skip to main content
23. desember 2019

Bók frá Háskólaútgáfunni tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna

Bókin Tími töframanna - Áratugur hinna miklu heimspekinga 1919–1929 eftir Wolfram Eilenberger í þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar, sem kom út á vegum Háskólaútgáfunnar á árinu, er meðal þeirra bóka sem tilefndar eru til Íslensku þýðingarverðlaunanna í ár.

Greint var frá því fyrr í desember hvaða sjö bækur væru tilnefndar til verðlaunanna en Bandalaga þýðenda og túlka hefur veitt þau frá árinu 2005. 

Fram kemur á vefsíðu Háskólaútgáfunnar að Tími töframanna sé grípandi lýsing á einum mesta umbrotatíma í evrópskri menningarsögu. „Í bókinni, sem er magnaður spegill óróans og sköpunargleðinnar sem ríkti í Weimar-lýðveldinu á þriðja áratug síðustu aldar, rekur höfundur tilraunir fjögurra hugsuða til að átta sig á stöðu mannsins í heimi sem er á hverfanda hveli. Hildarleikur heimsstyrjaldarinnar fyrri er að baki og ný veröld vísindalegra framfara í burðarliðnum.“

Hugsuðirnir fjórir eru Walter Benjamin, Ernst Cassirer, Martin Heidegger og Ludwig Wittgenstein og í bókinni er jafnframt veitt innsýn í það hvernig ástir og ástríður fléttast saman við heimspeki þeirra. 

„Tími töframanna er einstæð lýsing á því hvernig fjórir um margt mjög ólíkir hugsuðir freista þess að skýra af hvaða rótum menning okkar, tungumál og skilningur á heiminum eru sprottin, og hvernig við getum hagað tilvist okkar á óvissutímum sem eiga um margt skylt við það umrót sem ríkir við upphaf 21. aldar,“ segir einnig á vef Háskólaútgáfunnar.

Bókin vakti mikla hrifningu þegar hún kom út og sat lengi ofarlega á metsölulistum í Þýskalandi, auk þess sem hún hefur verið þýdd á rúmlega 20 tungumál.

Kápa bókarinnar