Skip to main content
28. október 2020

Björn Rúnar forseti Norrænu ónæmisfræðisamtakanna

Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor við Læknadeild og yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala hefur verið útnefndur forseti Norrænu ónæmisfræðisamtakanna til næstu 6 ára. 

Scandinavian Society for Immunology eru samnorræn samtök ónæmisfræðinga með hátt í 1100 félagsmenn og hafa það markmið að styðja við norrænt samstarf ónæmisfræðinga á sviði vísinda og fræðslu ásamt að vera leiðandi afl innan Evrópsku ónæmisfræðisamtakanna. Á 50 ára afmælisfundi Norrænu ónæmisfræðisamtakanna, sem haldin var um miðjan október, var Björn Rúnar Lúðvíksson yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala og prófessor í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands útnefndur forseti samtakanna til til næstu 6 ára. Meðal helstu verkefna samtakanna er skipulagning vísindaþinga, málstofa, sumarskóla og þátttaka í útgáfu Scandinavian Journal of Immunology. 

Björn Rúnar lauk sérfræðinámi í almennum lyflækningum við University of Wisconsin í Madison og síðan framhaldsnámi í klínískri ónæmisfræði við National Institutes of Health í Bandaríkjunum og lauk doktorsprófi við Læknadeild Háskóla Íslands 1999. Björn Rúnar var skipaður yfirlæknir ónæmisfræðideildar Landspítala og prófessor í ónæmisfræði við Læknadeild árið 2007. Rannsóknir hans hafa á undanförnum árum beinst helst að samspili meðfæddra ónæmisgalla við tilurð sjálfsónæmissjúkdóma með áherslu á ósértækt ónæmissvar. Einnig hefur hann unnið að þróun rafrænna lausna við greiningu og meðferð sjúkdóma. Hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, m.a. valinn heiðursvísindamaður Landspítalans árið 2017 en verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi sem þykir hafa náð framúrskarandi árangri í vísindarannsóknum á sínum starfsferli.