Skip to main content
22. október 2020

Betri gögn verði grundvöllur réttra efnahagsaðgerða í kófinu

„Þegar COVID-19-faraldurinn skall á varð mörgum ljóst að hefðbundnar hagtölur voru ekki þess umkomnar að styðja almennilega við tímanlega og upplýsta ákvörðunartöku. Við sjáum víða um heim ákall um meiri rökstuðning fyrir þeim sóttvarnar- og efnahagsaðgerðum sem farið er í og samspili þeirra. Slíkur rökstuðningur kallar á góð og tímanleg gögn. Okkur þótti því mikilvægt að kanna hvernig gagnaaðgengi væri hér á landi, bera það saman við önnur lönd og í leiðinni bera saman stöðuna á mótvægisaðgerðum við og afleiðingar af COVID-19.“ Þetta segir Þórhildur Jetzek, lektor við Hagfræðideild Háskóla Íslands, um rannsókn sem hún hefur unnið að síðustu mánuði ásamt hagfræðinemanum Erlu Björk Sigurðardóttur og tengist hinum víðtæku áhrifum sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á efnahag ríkja heims.
 
Þórhildur segir að markmið rannsóknaverkefnisins sé tvíþætt. „Annars vegar að safna upplýsingum og gögnum um efnahagsleg viðbrögð Íslands og nágrannalandanna Danmerkur og Svíþjóðar við COVID-19 og stöðu efnahagslífsins í kjölfar fyrstu bylgju faraldursins. Fyrra markmiðið var þannig að auka skilning á viðbrögðum og áhrifum COVID-19 hér á landi í samanburði við önnur lönd. Hins vegar að leggja mat á magn, gæði og aðgengileika gagna hér á landi í samanburði við hin löndin tvö og um leið kortleggja hvar hægt væri að gera betur í miðlun gagna og stuðla þar með að upplýstri ákvörðunartöku,“ segir hún.

Gögn ein mikilvægasta auðlind nútímans

Sjálf státar Þórhildur af umfangsmikilli reynslu af rannsóknum á mikilvægi góðs gagnaaðgengis, m.a. til að styðja við upplýsta ákvörðunartöku. Hún segir afar mikilvægt að fjölbreytt gögn liggi fyrir þegar þeirra er þörf, að þau séu þannig sett fram að hægt sé að nota þau til margvíslegra greininga og að aðgengi sé eins opið og hægt er. „Með því móti má fá mesta mögulega ávinning af gögnum sem eru ein mikilvægasta auðlind nútímans,“ bendir hún á. 

Erla Björk vann að verkefninu í sumar með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna en meðal verkefna hennar var að leita gagna um aðgerðir stjórnvalda til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19, efnahagslegar mótvægisaðgerðir og stöðu hagkerfisins bæði hér á landi og í samanburðarlöndunum tveimur. „Samhliða var skjalað hvernig aðgengi að þessum gögnum var háttað, hvort einhver gögn vantaði og hversu auðvelt eða erfitt var að nota gögnin til greiningarvinnu. Notast var við sniðmát sem byggist á alþjóðlegum rannsóknum um stöðu opinna gagna. Þá tókum við viðtöl við tíu stórnotendur hagtalna á Íslandi, fjölbreyttan hóp, en viðmælendurnir svöruðu m.a. spurningum með tilliti til þeirra gagna sem þeir notuðu mest í eigin greiningum. Niðurstöður viðtala voru svo settar í samhengi við niðurstöður rannsóknar á gagnaaðgengi og niðurstöður fyrri rannsókna,“ útskýrir Erla Björk.

Dánartíðni mun meiri í Svíþjóð en efnahagslegar afleiðingar svipaðar og hér

Eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum hafa viðbrögð Svía við faraldrinum verið nokkuð ólík viðbrögðum hinna norrænu ríkjanna. „Viðbrögð íslenskra stjórnvalda eru mjög keimlík viðbrögðum danskra stjórnvalda en sænsk stjórnvöld brugðust öðruvísi við og beittu minni lokunum. Þegar skýrslan var skrifuð var umtalsvert meiri dánartíðni af völdum COVID-19 í Svíþjóð en efnahagslegar afleiðingar voru engu að síður sambærilegar við Ísland og Danmörku,“ segir Þórhildur um niðurstöður rannsóknarinnar. Hún undirstrikar þó að hér séu á ferðinni skammtímaniðurstöður sem segi ekki til um langtímaáhrif faraldursins. 

„Opinberar hagtölur hérlendis og í löndunum tveimur eru sambærilegar hvað varðar aðgengileika, tímanleika og gæði. Það var hins vegar meira um sértækar COVID-19-tengdar gagnabirtingar í nágrannalöndunum, þar sem ýmis ný gögn, t.d. niðurstöður spurningakannana um væntingar fyrirtækja og verðbreytingar í smásölu í kjölfar faraldursins, voru birt reglulega frá upphafi faraldursins. Hér á landi var tilraunatölfræði Hagstofu mjög hjálpleg en hún lá niðri yfir sumartímann og nýttist því ekki við skrif skýrslunnar af stöðunni í lok sumars,“ bætir Erla Björk við en við þetta má bæta að þær stöllur gerðu niðurstöðum sínum skil í grein sem birtist í tímaritinu Vísbendingu í upphafi mánaðar.

Kórónuveirufaraldurinn er síst á undanhaldi nú í haust og mörgum spurningum tengdum áhrifum hans er enn ósvarað. Víst má telja að vísindamenn af fjölbreyttum fræðasviðum munu hafa nóg að gera við að greina faraldurinn og áhrif hans næstu árin en Þórhildur bendir á að það sé ekki síður mikilvægt að rita söguna á meðan hún gerist. „Með rannsókninni vildum við vekja athygli á mikilvægi tímanlegra, yfirgripsmikilla og skipulega fram settra gagna sem eru öllum opin. Við vonum að rannsóknin hafi þau áhrif að aukin áhersla verði á að veita hagaðilum á Íslandi opið aðgengi að þeim gögnum sem nú þegar er verið að safna, að gæði og meðhöndlun gagna verði bætt og að birt verði ýmis ný hátíðnigögn, þ.e. gögn sem safnað er viku- eða daglega. Að okkar mati myndi slíkt gagnast stjórnvöldum, vísindamönnum og fyrirtækjum við að gera betri greiningar, bregðast fyrr og betur við nýrri þróun og gera okkur öllum kleift að draga lærdóm af þeim fordæmalausu tímum sem við lifum.“ 

Þórhildur Jetzek og Erla Björk Sigurðardóttir