Skip to main content
20. apríl 2021

Bæta meðferð fyrir ADHD-sjúklinga með hjarta- og æðasjúkdóma

Bæta meðferð fyrir ADHD-sjúklinga með hjarta- og æðasjúkdóma - á vefsíðu Háskóla Íslands

Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands er meðal þátttakenda í viðamiklu alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem miðar að því að skapa nýja þekkingu á heilsufari fullorðinna með ADHD, t.d. áhættu þeirra á og árangur meðferða við hjarta- og æðasjúkdómum. 

Verkefnið nefnist TIMESPAN og hefur hlotið 5,9 milljóna evra styrk, jafnvirði nærri 900 milljóna íslenskra króna, úr rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020. Að verkefninu koma 17 stofnanir í fjórum heimsálfum, Evrópu, Norður-Ameríku, Asíu og Eyjaálfu, og er það til fimm ára.

Talið er að á milli 2-5% fullorðins fólks glími athyglisbrest og ofvirkni eða ADHD eins flestir þekkja það. Vísbendingar eru um að fólk sem glímir við ADHD sé í aukinni hættu á að fá hjarta- og æðasjúkdóma og að sameiginlega erfðaþætti megi finna að baki sjúkdómunum. Hins vegar er skortur á þekkingu á því hvernig best er að meta áhættu fullorðinna með ADHD á að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma og hvernig er best að meðhöndla þá sjúklinga sem glíma við hvort tveggja. 

Verkefnið nefnist TIMESPAN og hefur hlotið 5,9 milljóna evra styrk, jafnvirði nærri 900 milljóna íslenskra króna, úr rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020. Að verkefninu koma 17 stofnanir í fjórum heimsálfum, Evrópu, Norður-Ameríku, Asíu og Eyjaálfu, og er það til fimm ára.

Úr þessu vilja aðstandendur verkefnisins bæta og meðal annars leggja grunn að meðferðarúrræðum sem henta þessum hópi sjúklinga best. Í rannsókninni verður stuðst við viðmiklar kannanir á líðan og heilsu fólks og þær tengdar við heilsufarsgagnbanka frá fjölmörgum löndum. Þá verður nýjasta tækni, m.a. í formi smáforrita og snjallúra, sömuleiðis nýtt til þess að fylgjast með heilsu þátttakenda í rannsókninni og stuðla að meðferðarheldni þeirra. 

Með þessu vonast hópurinn sem stendur að TIMESPAN til þess bæta heilsu og lífsgæði fullorðinna sem glíma við ADHD og hjarta- og æðasjúkdóma en jafnframt að stuðla að þróun nýrrar tækni til að styðja þennan sjúklingahóp. 

TIMESPAN-verkefnið lýtur forystu Henriks Larssons, prófessors í faraldsfræði við Örebro-háskóla í Svíþjóð, en hér á landi fer Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum við Læknadeild Háskóla Íslands, fyrir verkefninu.

Hægt er að kynna sér verkefnið nánar á vef þess.

Unnur Anna Valdimarsdóttir