Bækur Trausta um umhverfis- og skipulagsmál ókeypis á netinu | Háskóli Íslands Skip to main content
8. nóvember 2019

Bækur Trausta um umhverfis- og skipulagsmál ókeypis á netinu

Trausti Valsson, prófessor emeritus í skipulagi, umhverfi og hnattrænni hlýnun við Háskóla Íslands, hefur sett allar bækur sem hann hefur samið á netið þannig að hver sem er getur nálgast þær þar ókeypis.

Alls hefur Trausti gefið út 14 bækur um hönnun og skipulag, þar af eru fjórar á ensku. Fyrsta bókin, Reykjavík – Vaxtarbroddur: Þróun höfuðborgar, kom út árið 1986 og sú nýjasta fyrir þremur árum. Þær spanna afar fjölbreytt viðfangsefni en þar eru þó skipulag byggðar á Íslandi og framtíðar- og umhverfismál rauður þráður.  

Trausti segir áhugann á viðfangsefni bókanna hafi kviknað í námi en hann státar bæði að prófi í arktítektúr frá Tækniháskólanum í Berlín og doktorsprófi í umhverfisskipulagsfræði frá University of California, Berkeley í Bandaríkjunum. 

Trausti kenndi skipulagsfræði í Háskóla Íslands í nærri þrjá áratugi. „Í skipulagi er mikilvægt að kynnast hvernig mál hafa þróast og því skrifaði ég um skipulagssögu í upphafi. Upp úr 1990 fóru umhverfismálin að koma sterkar inn og ég tók þau þá fyrir í bókum mínum og greinum. Skipulag þarfnast þess að hinn víðari rammi sé skoðaður og skrifaði ég því bók um hugmyndir mínar um Íslandsskipulag (1987) og síðar um framtíðarhugmyndir, t.d. í byggðamálum. Þegar þúsaldarmótin nálguðust skrifaði ég um sýn sem tók tillit til þróunar á alþjóðasviðinu og um áhrif hnattrænnar hlýnunar á skipulag heimsins og einstakra svæða, og þá helst norðurslóða. Síðasta bókin, Mótun framtíðar sem kom út árið 2015, er svo starfsævisaga mín,“ segir Trausti.

„Ég taldi að betra væri að setja þær á netið en að stefna að endurútgáfu. Á netinu ná þær til allra hvar sem er og hægt að hafa þær ókeypis því allur kostnaður við útgáfu þeirra hefur þegar verið greiddur. Einnig hafði ég tekið eftir að stúdentar vilja frekar nota efni af netinu þar sem hægt er að nálgast það með einum smelli,“ bendir Trausti á.

Aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið á setja allar bækurnar á netið segir hann þær séu uppseldar. „Ég taldi að betra væri að setja þær á netið en að stefna að endurútgáfu. Á netinu ná þær til allra hvar sem er og hægt að hafa þær ókeypis því allur kostnaður við útgáfu þeirra hefur þegar verið greiddur. Einnig hafði ég tekið eftir að stúdentar vilja frekar nota efni af netinu þar sem hægt er að nálgast það með einum smelli,“ bendir Trausti á.

Háskóli Íslands hefur sett sér stefnu um opinn aðgang og hvetur starfsmenn til að birta fræðiefni sitt á vettvangi sem er opinn öllum. Með því vill skólinn auka sýnileika vísinda í samfélaginu og stuðla að aukinni útbreiðslu þess vísindastarfs sem unnið er af starfsfólki háskólans. Óhætt er að segja að framtak Trausta nú sé sannarlega í þeim anda.
Trausti segir aðspurður að bækurnar nýtist öllum þeim sem vilji átti sig á þróun og hinu stærra samhengi hlutanna í skipulags- og umhverfismálum. „Þær nýtast því t.d. sagn-, félags, land- og verkfræðingum og nemendum í þeim greinum. Umhverfistengdu bækurnar nýtast líka þessum hópum og fólki í umhverfisgreinum,“ segir Trausti enn fremur og útilokar ekki að hann eigi eftir að senda frá sér meira efni á þessu sviði.

Allar bækur Trausta má nálgast á vefsíðu hans.

Bókarkápur