Skip to main content
7. desember 2022

Aurora-námskeið í samfélagslegri nýsköpun fyrir nemendur á lokaári grunnnáms

Aurora-námskeið í samfélagslegri nýsköpun fyrir nemendur á lokaári grunnnáms - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands býður nemendum á síðasta ári í grunnnámi úr öllum deildum skólans að taka þátt í sex daga alþjóðlegu námskeiði í samfélagslegri nýsköpun á vormisseri 2023. Á námskeiðinu, sem er blanda af fjar- og staðnámi, gefst þátttakendum frábært tækifæri til að vinna að lausnum í samstarfi við öfluga leiðbeinendur úr háskólanum og atvinnulífi. Um leið kynnast þeir nemendum úr erlendum samstarfsskólum HÍ innan Aurora-samstarfsins sem einnig taka þátt.

Námskeiðið heitir Kveikja og í því öðlast nemendur skarpari sýn á eigin styrkleika og efla nýsköpunar- og frumkvöðlahugsun undir leiðsögn reynslumikilla kennara um leið og nemendur efla tengslanet sitt. 

Námskeiðinu er skipt í fjórar lotur í febrúar, mars, apríl og maí. Þrjár þær fyrstu fara fram á netinu en sú síðasta á háskólasvæðinu. 

Hvað segja fyrri þátttakendur og leiðbeinendur?

Nemendum innan þeirra níu evrópsku háskóla sem taka þátt í Aurora-samstarfinu ásamt Háskóla Íslands verður líka boðið að taka þátt í námskeiðinu. Þannig gefst nemendum Háskóla Íslands einstakt tækifæri til að starfa með alþjóðlegum hópi að því að leysa samfélagslegar áskoranir sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Námskeiðið metið til 4 ECTS-eininga og er aðeins opið takmörkuðum fjölda nemenda, en að þessu sinni verður hægt að taka á móti 60 nemendum í heildina.

Skráningarfrestur í námskeiðið er til 16. desember. Frekari upplýsingar og skráning er á hi.is/kveikja

Nemendur á Háskólatorgi