Skip to main content
13. október 2021

Aurora leitar að öflugum nemendum 

Aurora leitar að öflugum nemendum  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aurora-samstarfsnetið, sem Háskóli Íslands á aðild að, leitar nú að öflugum nemendum innan HÍ til að taka þátt í starfi netsins í gegnum Aurora Student Champion eða Ambassador verkefnin. Með þátttöku gefst nemendum í senn tækifæri til að hafa áhrif á háskólanám framtíðarinnar, efla hæfni sína fyrir atvinnulífið og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.

Aurora er samstarf 11 háskóla víðs vegar um Evrópu sem snýst um að auka gæði og nýsköpun í háskólanámi í takt við örar samfélagsbreytingar og styrkja leitina að lausnum á þeim viðamiklu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Í því skyni ætla Aurora-háskólarnir að skapa margvísleg tækifæri fyrir nemendur til að öðlast alþjóðlega reynslu í námi sínu og getu, þekkingu og drifkraft til að verða samfélagslegir frumkvöðlar og leiðtogar.

Frá stofnun samstarfsins hafa háskólarnir lagt ríka áherslu á að raddir nemenda hafi áhrif á alla stefnumótun, verkefni og nýsköpun Aurora háskólanna. Til að virkja nemendur hefur Aurora-stúdentaráðið í samstarfi við háskólanna stofnað The Aurora Student Champions and Ambassadors Schemes og er opið fyrir umsóknir til 31. október

Alma Ágústsdóttir, alþjóðafulltrúi SHÍ og forseti Aurora-stúdentaráðsins, segir að hér sé um að ræða einstakt tækifæri fyrir HÍ nemendur. „Með þátttöku sinni eru nemendur að taka beinan þátt í alþjóðlegu samstarfi og stefnumótun, þróa færni sem er eftirsótt af atvinnulífinu og fá tækifæri til að vinna með nemendum frá öðrum háskólum og taka þátt í viðburðum Aurora hér heima sem og erlendis.“

Alma segir það jafnframt stóran kost hve mikinn sveigjanleika Aurora býður nemendum sem hafa áhuga á að taka þátt í starfinu. „Nemendur geta valið að taka þátt sem Aurora Student Champion eða Aurora Ambassador, allt eftir því hversu stórt hlutverk þeir vilja taka að sér og hvaða verkefni þeir vilja inna af hendi. Þá geta nemendur einnig lagt til verkefni út frá eigin áhugasviði sem styðja við áherslur Aurora.“ 

Stefnt er að því að finna um 10 nemendur við HÍ til að taka þátt í Aurora sem Student Champion eða Ambassador á þessu skólaári. Aðspurð segir Alma margt spennandi á döfinni fyrir nemendur innan Aurora. „Já, það eru virkilega spennandi tímar fram undan. Til dæmis eru nemendur að fara til Spánar í nóvember til að taka þátt í vinnustofu sem snýst um að finna lausnir til að bæta upplifun nemenda af háskólanámi og gera fleiri nemendum kleift að taka hluta af námi sínu við erlenda háskóla. Einnig er ég að fara að kynna nýtt verkefni sem Aurora-nemendum býðst að taka þátt í en það snýst um að koma framtíðarsýn nemenda á framfæri í tengslum við mikilvæga ráðstefnu, Conference on the Future of Europe, á vegum Evrópusambandsins í Strasborg á næsta ári.“
 

Alma Ágútsdóttir