Skip to main content
15. janúar 2020

Aurora-háskólar sameinast um að styrkja kennslu og rannsóknir í þágu samfélaga

Háskóli Íslands vinnur nú að umsókn um veglegan styrk frá Evrópusambandinu undir merkjum Aurora Alliance en að umsókninni standa níu háskólar víðs vegar um Evrópu. Verkefnið er unnið innan European University áætluninnar sem er ný og metnaðarfull áætlun sem ætlað er að efla samstarf evrópskra háskóla og styrkja þá til sóknar í samkeppni við háskóla annars staðar í heiminum. Þetta er í fyrsta sinn sem Háskólinn vinnur að umsókn með þessum hætti en markmiðið er að efla rannsóknir og kennslu í þágu þeirra samfélaga þar sem háskólar innan netsins starfa. Evrópusambandið mun veita allt að fimm milljónir evra til hvers háskólanets á næstu þremur árum innan áætlunarinnar. Með samvinnu háskólaneta undir merkjum European University verður um að ræða grundvallarbreytingar á því hvernig háskólar í ólíkum löndum Evrópu vinna saman.

Samfélagsleg nýsköpun efld og námsframboð aukið með víðtækara samstarfi 

Háskólar í Aurora eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á hágæða rannsóknir, samfélagslega ábyrgð og að gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. Umsókn Aurora Alliance  er á sviði samfélagslegrar nýsköpunar og mun snúa að þeim meginþáttum sem netið hefur starfað eftir hingað til. 

„Umsóknin snýst um að auka styrk háskólanna í netinu til að hafa víðtæk áhrif á samfélagslegar breytingar með rannsóknum og kennslu,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, um áherslur í umsókninni. „Hún snýst jafnframt um að samþætta, bjóða upp á menntun þvert á landamæri eftir því sem kostur er, stuðla að nýsköpun í menntun með þátttöku stúdenta og hámarka samfélagsleg áhrif rannsókna okkar einkum með tilliti til þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir.“

Markmiðið með umsókninni er að auka tækifæri skólans til fjölbreytts samstarfs, efla alþjóðastarf  til muna og auka námsframboð. Jón Atli segir að umsóknin byggi á fyrra samstarfi háskólanna sem að henni standa og snúist um að styðja við fjölbreytileika og auka tækifæri allra til menntunar. 

Grundvallarbreytingar á því hvernig háskólar í mismunandi löndum vinna saman

Að rektors sögn er staðan á umsóknarvinnunni mjög góð en henni er stýrt af Vrije-háskólanum í Amsterdam í mjög nánu samstarfi við Háskóla Íslands. „Umsókninni verður skilað fyrir lok febrúar og vil ég þakka frábært framlag starfsfólks og stúdenta Háskóla Íslands til þessa verkefnis,“ segir Jón Atli. 

Að hans sögn eiga nú Háskóli Íslands og samherjar skólans í Aurora í stóraukinni hnattrænni samkeppni og þetta eigi í raun við um alla háskóla innan Evrópu. „Þessi aukna samkeppni kallar á aukið samstarf evrópskra háskóla. Fjölmargir háskólar eru því að snúa bökum saman í háskólanetum. European University áætlun Evrópusambandsins styrkir samstarfsnet þar sem háskólar í nokkrum löndum vinna saman að því að byggja upp háskóla framtíðarinnar. Slíkt samstarf mun treysta evrópsk gildi og stórefla gæði og samkeppnishæfni evrópskrar háskólamenntunar.“

Jón Atli segir að þetta byggist á þverfræðilegri samvinnu, víðtæku samstarfi og áherslu á hreyfanleika. „Við munum efla alþjóðlega reynslu nemenda verulega með þessu verkefni,“ segir Jón Atli og bætir því við að stefnt sé að því að sameiginlegum prófgráðum fjölgi á öllum námsstigum fái umsóknin brautargengi.

„Umsóknin snýst um að auka styrk háskólanna í netinu til að hafa víðtæk áhrif á samfélagslegar breytingar með rannsóknum og kennslu,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, um áherslur í umsókninni. „Hún snýst jafnframt um að samþætta, bjóða upp á menntun þvert á landamæri eftir því sem kostur er, stuðla að nýsköpun í menntun með þátttöku stúdenta og hámarka samfélagsleg áhrif rannsókna okkar einkum með tilliti til þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir.“ MYND/Kristinn Ingvarsson

Háskóli Íslands er alþjóðlegur háskóli

Háskóli Íslands starfar í alþjóðlegu umhverfi og að sögn rektors er  lífsnauðsynlegt fyrir Íslendinga að tryggja og treysta alþjóðlegt samstarf þar sem við búum í litlu vísinda- og fræðasamfélagi. 

„Háskóli Íslands er í lykilstöðu í Aurora-netinu en við vinnum áfram af krafti í öðrum netum og með öðrum skólum,“ segir háskólarektor. „Alþjóðlegt samstarf býður upp á mjög mikla möguleika bæði varðandi rannsóknir og kennslu. Háskóli Íslands er með fjölmarga samstarfssamninga bæði austan hafs og vestan sem segja má að stækki íslenska háskólakerfið þar sem nemendur geta tekið hluta af námi sínu í skiptinámi auk þess sem vísindamenn eiga í miklu rannsóknasamstarfi. Háskólarnir í Aurora-netinu hyggjast auka umfang slíks samstarfs enn frekar og samhæfa starf sitt eins og kostur er til að ná enn betri árangri í kennslu og rannsóknum,“ segir Jón Atli. 

Breytingar í vændum en björt framtíð háskóla

Þeir háskólar sem standa að Aurora Alliance umsókninni eru auk Háskóla Íslands, Copenhagen Business School (Danmörku), East Anglia háskóli (Englandi), Federico II háskólinn í Napólí (Ítalíu), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), Háskólinn í Innsbruck (Austurríki), Palacky-háskólinn í Olomouc (Tékklandi), Rovira i Virgili háskólinn í Tarragona (Spáni), og Vrije-háskólinn í Amsterdam (Hollandi).

Framtíð háskólakerfisins er björt að mati Jóns Atla enda séu háskólar undirstaða velferðar í öllum samfélögum: „Þekking er lykill að framtíðinni og hlutverk Háskóla Íslands er að skapa og miðla þekkingu. Við höfum náð ótrúlegum árangri í Háskóla Íslands og þurfum að halda áfram á sömu braut í þágu íslensks samfélags. Það er lykilatriði að við séum samkeppnishæf á alþjóðavísu. Aurora-netið og þau verkefni sem við tökum þátt í þar hjálpa okkur á þeirri braut.“

Nemendur á háskólasvæðinu