Aukið verðlaunafé í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun HÍ | Háskóli Íslands Skip to main content
3. september 2015

Aukið verðlaunafé í samkeppni um Hagnýtingarverðlaun HÍ

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands verða veitt í 17. sinn þann 19. nóvember næstkomandi. Leitað er að hagnýtanlegum hugmyndum frá starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands og tengdum stofnunum og hefur verðlaunafé í keppninni verið aukið umtalsvert frá fyrra ári.

Starfsmenn og nemendur af öllum fræðasviðum skólans eru hvattir til að taka þátt í samkeppninni enda sýnir reynslan að hagnýta má fleira en tæknilegar lausnir í iðnaði.

Líkt og fyrri ár eru veitt peningaverðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Að þessu sinni hlýtur verkefnið í fyrsta sæti tvær milljónir króna, verkefnið í öðru sæti fær eina milljón króna og 500 þúsund krónur koma í hlut verkefnisins sem hafnar í þriðja sæti. Samanlögð verðlaunaupphæð er því 3,5 milljónir króna sem er tvöfalt meira fé en undanfarin ár.

Sérstök dómnefnd metur hugmyndir sem berast í keppnina en við valið skoðar hún m.a.

i) Leiðir við hagnýtingu og hversu fljótt er unnt að hagnýta uppfinningu

ii) Hvort hagnýting styðji við stefnu og starfsemi Háskóla Íslands

iii) Rannsóknavinnu að baki verkefni/hugmynd

iv) Nýnæmi og frumleika

v) Ávinning fyrir samfélagið

vi) Hvernig verðlaunafé mun nýtast við hagnýtingu verkefnis/hugmyndar

Á heimasíðu vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskóla Íslands eru ýmsar upplýsingar um Hagnýtingarverðlaun skólans, þar á meðal verklagsreglur um samkeppnina, yfirlit yfir fyrri verðlaunahafa og umsóknareyðublað.

Frestur til að skila inn tillögum í samkeppnina rennur út 26. október nk.

Tillögum má skila rafrænt á póstfangið gydae@hi.is eða skriflega til umsjónarmanns samkeppninnar, Gyðu Einarsdóttur, vísinda- og nýsköpunarsviði Háskóla Íslands (s. 525-5488). Gyða aðstoðar jafnframt umsækjendur og veitir nánari upplýsingar.

Samkeppnin um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands er samstarfsverkefni háskólans, Árnason|Faktor og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

""