Skip to main content
21. september 2021

Auður Hauksdóttir hlaut verðlaun Jóns Sigurðssonar

Auður Hauksdóttir hlaut verðlaun Jóns Sigurðssonar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Auður Hauksdóttir, prófessor emerita við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, hlaut nýverið verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta fyrir störf sín á sviði mennta og menningar. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, veitti Auði verðlaunin á hátíð í Jónshúsi í Kaupmannahöfn sem var haldin í tilefni af fimmtíu ára afmæli menningar- og félagsstarfs í húsinu. 

Að mati forsætisnefndar Alþingis hefur Auður verið mikilvirk í rannsóknum á danskri menningu og danskri tungu sem erlendu máli, sinnt dönskukennslu og miðlað þekkingu um íslenskt samfélag og menningu, bæði hérlendis og erlendis. Hún hafi með störfum sínum lagt af mörkum ríkulegan skerf til skilnings á mikilvægi dönskukennslu í íslenska skólakerfinu og þeirri þýðingu sem hún hefur sem samskiptamál fyrir Íslendinga við aðrar norrænar þjóðir. Með þessu hafi hún styrkt bönd Íslands við norrænar frændþjóðir. Í ávarpi af þessu tilefni sagði Auður að árangur Jóns á sínum tíma hafi sýnt glöggt hve mikla þýðingu menningarinnsæi og tungumálakunnátta hefur fyrir jákvæði samskipti einstaklinga og þjóða. Í störfum Jóns fyrir Ísland hafi dönskukunnátta hans og þekking gert gæfumuninn.

Alþingi veitir Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta í minningu starfa hans í þágu Íslands og Íslendinga. Þau hlýtur hverju sinni einstaklingur sem hefur unnið verk er tengjast hugsjónum og störfum Jóns. Þau verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála. Þetta var í fjórtánda sinn sem verðlaunin eru afhent og meðal þeirra sem þau hafa hlotið eru Bertel Haarder, Annette Lassen, Erik Skyum-Nielsen, Søren Langvad, Pétur M. Jónasson, Guðjón Friðriksson og Vigdís Finnbogadóttir.

Sjá frétt Alþingis.

F.v. Helga Hauksdóttir sendiherra, Auður Hauksdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.