Skip to main content
12. janúar 2019

Atvinnudagar í Háskóla Íslands 14.-25. janúar

""

Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands (NSHÍ), Fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Landsbankinn standa sameiginlega að Atvinnudögum í Háskóla Íslands dagana 14.-25. janúar. Þar verða í boði fjölbreyttir fyrirlestrar og viðburðir fyrir nemendur um það hvernig best er að undirbúa sig fyrir og komast inn á vinnumarkaðinn.

Í upphafi árs fara fjölmargir nemendur að huga að bæði sumar- og framtíðarstörfum og er Atvinnudögum ætlað koma til móts við þann hóp með bæði spennandi fyrirlestrum og fræðslu frá frumkvöðlum og sérfræðingum úr fyrirtækjum og stofnunum víða úr samfélaginu.

Dagskráin hefst mánudaginn 14. janúar með erindi Elísabetar B. Sveinsdóttur markaðskonu í stofu 101 í Odda í hádeginu. Það ber yfirskriftina „Að vera í sambandi við annað fólk“. Seinna sama dag, eða kl. 17, er áhugasömum nemendum boðið í heimsókn í höfuðstöðvar Landsbankans í Austurstræti 11 en nauðsynlegt er að skrá sig á þann viðburð á Facebook-viðburði tengdum Atvinnudögum

Í framhaldinu rekur hver forvitnilegur viðburðurinn annan þar sem m.a. verða veitt ráð um góða ferilskrá, hvernig eigi að koma henni ofar í umsóknabunkann og hver leiðin í draumastarfið sé. Jafnframt munu fulltrúar frá Vinnumálastofnun og Tengslatorgi Háskóla Íslands kynna aðstoð við atvinnuleit og fulltrúar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Samtökum sunnlenskra sveitafélaga fjalla um atvinnutækifæri úti á landi. Hinn frábæri fyrirlesari Pálmar Ragnarsson mun enn fremur blása nemendum kjark í brjóst með erindinu „Gerðu það sem þig langar!“. Á Atvinnudögum verður einnig boðið upp á heimsókn í hátæknifyrirtækið Marel.  

Botninn verður svo sleginn í Atvinnudaga föstudaginn 25. janúar með Landsbankapartíi í Stúdentakjallaranum kl. 21:00 þar sem DJ Dóra Júlía þeytir skífum. 

Það er því óhætt að segja að hér sé á ferðinni kjörið tækifæri fyrir nemendur Háskólans til að komast í tengsl við atvinnulífið og byrja að brúa bilið frá námi til vinnumarkaðar.

Dagskrá Atvinnudaga í heild sinni má nálgast á Facebook 

nemendur á Háskólatorgi