Skip to main content
28. janúar 2021

Atvinnudagar alfarið á netinu

Atvinnudagar alfarið á netinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nú þegar nýtt ár er hafið með nýjum tækifærum er kjörið fyrir nemendur til að beina sjónum að sumar- og framtíðarstörfum, starfsframanum, starfsþróun og tækifærum í atvinnulífinu. Til þess að létta nemendum lífið í þessum efnum stendur Háskóli Íslands fyrir Atvinnudögum dagana 1. – 4. febrúar. Þar má finna spennandi fyrirlestra og fræðslu frá sérfræðingum innan og utan Háskólans sem snerta undirbúning fyrir atvinnulíf, leiðtogahæfni, tengslanet og ýmislegt fleira. Allt verður þetta í streymi sem auðveldar þátttöku í viðburðunum.  

Dagskráin hefst mánudaginn 1. febrúar með fyrirlestri um leiðtoga í umsjón Sigrúnar Gunnarsdóttur, prófessors við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Viðskiptadeild Háskólans á Bifröst, sem ber yfirskriftina „Hvernig leiðtogar gera gagn?“.

Í kjölfarið rekur hver viðburðurinn annan þar sem farið verður ofan í saumana á því hvernig hægt er að koma sér á framfæri á atvinnumarkaði, efla tengsl á tímum Teams og finna draumastarfið með Alfreð.

Pálmar Ragnarsson fyrirlesari mun fjalla um hvað liggur að baki því að vera sjálfsætt starfandi og koma sér á framfæri. Erindi Pálmars verður þriðjudaginn 2. febrúar og hefst kl. 17. 

Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands (NSHÍ) aðstoða bæði íslenska og erlenda stúdenta skólans við að glæða ferilskrár þeirra lífi með CV klíník.  

Miðvikudaginn 3. febrúar kl. 15 býður Ingvi Hrannar Ómarsson, handhafi Hvatningarverðlauna Íslensku menntaverðlaunanna 2020, upp á spjall undir heitinu „Þín eigin endurmenntun - Úr einangrun í starfi í tengslanet um allan heim“.

Gera má ráð fyrir  Pop-up viðburðum þar sem óvæntir hlutir gerast og góðir gestir birtast. Því borgar sig að fylgjast vel með dagskrá Atvinnudaga HÍ 2021.

Atvinnudagar eru nú haldnir í þriðja sinn og eru samstarfsverkefni Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands og Fjármála- og atvinnulífsnefndar Stúdentaráðs.

Dagskrá Atvinnudaga í heild sinni má finna á Facebook.

Nemendur á gangi milli Gimlis og Odda