Skip to main content
7. mars 2018

Áttu stefnumót við sjávarútveginn

Þriðjudaginn 6.mars 2018 áttu nemendur í námskeiðinu Rekstur í sjávarútvegi stefnumót við nokkra af forsvarsmönnum í atvinnugreininni.  Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fagnaði framtaki Viðskiptafræðideildar er hann setti stefnumótið og óskaði eftir frekara samtali milli greinarinnar og Háskólans í heild.

Boðið er upp á námskeiðið í fyrsta sinn nú á vormisseri en það er opið nemendum á þriðja á ári í grunnnámi og öllum í framhaldsnámi í Háskóla Íslands. Ásta Dís Óladóttir, lektor við Viðskiptafræðideild, setti námskeiðið saman og er umsjónarmaður þess. 

Námskeiðið er byggt á grunni námskeiðs sem Ágúst Einarsson, fyrrverandi prófessor við Viðskiptafræðideild, kenndi í mörg ár við miklar vinsældir en Ásta Dís hefur fengið hann til að kenna með sér í námskeiðinu.  Áhersla er á þverfræðilega nálgun í námskeiðinu og fræðimenn á sviði viðskiptafræði, verkfræði, lögfræði, matvælafræði og hagfræði við Háskóla Íslands komið að kennslunni. Þá er áhersla á að sameina hagnýta og fræðilega þekkingu á sviði sjávarútvegsfræða í námskeiðinu og því hafa nemendur einnig heimsótt sjávarútvegsfyrirtæki á borð við HB Granda og hátæknifyrirtæki eins og Marel sem hannar búnað fyrir iðnaðinn og þá ætla nemendur að heimsækja Vísi hf. í Grindavík síðar í mánuðinum. Í gær var svo efnt til svonefnds stefnumóts við sjávarútveginn þar sem fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja fjölluðu um ólíka þætti í rektstri þeirra. 

Veiðigjöld, fjárfesting og mannauður sjávarútvegsfyrirtækja

Flutt voru fjögur erindi sem vöktu mikinn áhuga viðstaddra. Örvar Guðni Arnarson, fjármálastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, reið á vaðið og ræddi um veiðigjöldin.  Hann lýsti áhyggjum vegna lokunar markaða í Rússlandi, stríðs í Úkraínu og innflutningshafta í Nígeríu. Vegna þeirra hafi uppsjávargeirinn þurft að finna nýja markaði fyrir 71% af frystum uppsjávarafurðum. Þá kom hann inn á miklar hækkanir á raforkuverði og kolefnisgjaldi. Örvar sagði: „Þið þurfið að velja annaðhvort, vel rekinn sjávarútveg eða pólitíska dreifingu aflaheimilda, það er ekkert annað sem kemur til greina, nema þá eitthvað miðjumoð.“

Þá fór Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri BRIM hf., yfir sögu sjávarútvegs og að fjárfesting í sjávarútvegi hér á landi hafi sjaldan verið meiri en á síðustu árum – fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun.  Þá væri áframhaldandi fjárfesting og tækniþróun lykilþættir í framleiðniaukningu sjávarútvegs og samkeppnishæfni greinarinnar.  Ægir Páll endaði innlegg sitt á því að segja: „Við viljum ekki sjávarútveg sem rýrir lífskjör – við viljum sjávarútveg sem bætir lífskjör.“ 

Þá var skipt um gír og Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri hjá Síldarvinnslunni, tók til máls. Hann fór yfir starfsmannastefnu fyrirtækisins og ræddi mannauðs- og öryggismál og áhrif þeirra á líðan starfsmanna í vinnu.  Sigurður sagði að aukin tæknivæðing leiddi óhjákvæmilega af sér að störfum fækkaði en að hver starfsmaður afkastaði meiru en áður. Þá tók Sigurður dæmi og sagði að sjómönnum hefði fækkað því árið 1961 voru um 350 sjómenn með 2500 tonn en í dag væru 8 sjómenn með um 3200 tonn í uppsjávarveiðum.

Lokaerindið flutti Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóra mannauðssviðs hjá HB Granda. Hann ræddi um áhrif verkfalla á samfélagið í heild en þó sér í lagi á sjávarútveginn. Hann skýrði út fyrir nemendum að á árunum 1985 – 2010 hafi verið 166 verkföll á íslenskum vinnumarkaði og samkvæmt því hefðu 1.187.411 vinnudagar tapast. Vinnustöðvanir sjómanna og farmanna á þessu tímabili voru um 47% af töpuðum vinnudögum og aðrar vinnustöðvanir voru um 13% af töpuðum vinnudögum.  Þá kom Friðrik inn á að skapa verði ríkissáttasemjara raunveruleg úrræði til að lágmarka tjón vegna vinnustöðvana, að gildandi úrræði dugi skammt í erfiðum kjaradeilum. Friðrik endaði erindi sitt á því segja að verkföll hafa því miður verið allt of algeng í baráttu stéttarfélaga á íslenskum vinnumarkaði undanfarna áratugi, það sé þróun sem verður að snúa frá, annars haldi allir aðilar áfram að tapa.

Aldís Sveinsdóttir stýrði spurningum fyrir hönd nemenda sem voru afar áhugasamir og eins og á öðrum stefnumótum þá hitnaði í kolunum þegar aðilar fóru að rökræða.

Fyrirlesararnir Örvar Guðni Arnarson, Ægir Páll Friðbertsson, Sigurður Ólafsson og Friðrik Friðriksson eru hér ásamt Ástu Dís Óladóttur, umsjónarmanni námskeiðsins, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.
Nemendur í námskeiðinu Rekstur í sjávarútvegi