Skip to main content
22. desember 2022

Ástin virti ekki landamæri í kalda stríðinu

Ástin virti ekki landamæri í kalda stríðinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Það vakti fyrst áhuga minn þegar ég sá sögur um hjón sem voru aðskilin, það er fólk sem var gift en fékk ekki að búa saman. Ég sá þarna tækifæri til að segja frá kalda stríðinu og átökum stórveldanna út frá því hvernig það hafði áhrif á persónulegt líf einstaklinga,“ segir Rósa Magnúsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Þegar hugsað er um kalda stríðið, sem átti sér stað á árunum 1947-1991 á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, sjá eflaust margir fyrir sér vígbúnaðarkapphlaup tveggja stórvelda. En kalda stríðið hafði einnig mikil áhrif á einkalíf fólks, t.d hjónabönd. Ástin virðir ekki landamæri en yfirvöld í Sovétríkjunum gerðu þegnum sínum erfitt fyrir þegar þeir hugðu á hjónabönd með útlendingum. 

Fékkst við sögu Rússlands og Austur-Evrópu í doktorsnámi

Rósa lauk BA- námi í sagnfræði með stjórnmálafræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands árið 1999 og fór beint í doktorsnám til Bandaríkjanna. Við háskólann í Norður-Karólínu í Chapel Hill lærði Rósa rússneska sögu við sagnfræðideildina þar sem áhersla var lögð á sögu Rússlands og Austur-Evrópu.

„Ég skrifaði doktorsritgerð sem fjallaði um kalda stríðið út frá sjónarhóli Sovétmanna – áróður og hugmyndafræði Sovétmanna í kalda stríðinu.“ Rósa var í Bandaríkjunum og töluvert í Rússlandi, lærði rússnesku á þessum tíma og var líka mikið í Þýskalandi en flutti svo til Danmerkur eftir doktorspróf og var þar í 15 ár. Rósa hefur starfað við Háskóla Íslands síðan 2021 og er nýflutt til Íslands með alla fjölskylduna.

Bók Steinbecks kveikja að rannsókninni

Rósa vinnur nú að rannsókn sem á sér langa forsögu og tengist því þegar hún var að klára doktorsritgerð sína um áróður Sovétmanna gagnvart Bandaríkjunum á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. „Ég fann tilvísun í mjög frægri bók, A Russian Journal eftir bandaríska rithöfundinn John Steinbeck sem fjallar um ferð sem hann fór í til Sovétríkjanna árið 1947.“ Steinbeck lýsir þar eftirstríðsárunum, þegar Sovétríkin voru algjörlega í rúst, á mjög áhrifaríkan hátt. 

Í bókinni segir Steinbeck frá því þegar hann fór í diplómataklúbb í Moskvu og hitti þar sorgmæddar sovéskar konur sem voru giftar Bandaríkjamönnum og Bretum en fengu ekki að fara frá Sovétríkjunum. „Mér fannst þetta strax rosalega áhugavert. Hvaða konur eru þetta sem sitja þarna í einhverjum diplómataklúbbi, eru giftar útlendingum en mega ekki fara frá Sovétríkjunum?“ segir Rósa og var frásögn Steinbecks því kveikjan að rannsókn hennar.

Eftir dauða Stalíns var löggjöf um bann við hjónaböndum við útlendinga felld úr gildi. Það raungerist þó ekki fyrr en Sovétríkin og Bandaríkin búa til mennta- og menningarsamning sem var undirritaður 1958 og gerði fólki kleift að fara í stúdenta- og starfsmannaskipti. „Þarna hófust samskipti sem leiddu til þess að það úr urðu hundruð hjónabanda milli Sovétmanna og Bandaríkjamanna í kalda stríðinu, á tímum þar sem enn þá var erfitt að ferðast á milli landanna,“ segir Rósa. MYND/Zoriana Stakhniv - unsplash.com 

Máttu ekki yfirgefa austrið

Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld bannaði Stalín hjónabönd við útlendinga og gerði þeim sem voru giftir útlendingum erfitt fyrir. „Þessir sovésku makar máttu ekki fara úr landi þannig þú varst í rauninni bara fastur í Sovétríkjunum ef þú varst giftur útlendingi. Þú máttir ekki fara og vera með eiginmanni eða eiginkonu,“ segir Rósa.

Eftir dauða Stalíns var löggjöf um bann við hjónaböndum við útlendinga felld úr gildi. Það raungerist þó ekki fyrr en Sovétríkin og Bandaríkin búa til mennta- og menningarsamning sem var undirritaður 1958 og gerði fólki kleift að fara í stúdenta- og starfsmannaskipti. „Þarna hófust samskipti sem leiddu til þess að úr urðu hundruð hjónabanda milli Sovétmanna og Bandaríkjamanna í kalda stríðinu, á tímum þar sem enn þá var erfitt að ferðast á milli landanna,“ segir Rósa.

Þótt hjónaböndin væru oftast nær lögleg settu Sovétríkin fólki oft skorður. Það fékk ekki vegabréfsáritun til að fara úr landi eða þá að makar Sovétmanna fengu ekki að koma inn í landið. Þetta gerði fólki mjög erfitt fyrir og breyttist lítið þar til Helsinki-sáttmálinn var undirritaður árið 1975. Með sáttmálanum var reynt að ýta undir betra samband á milli austurs og vesturs. Stór hluti af því var mannréttindamál og það sem kallast fjölskyldusameining þar sem stefnt var að því að leyfa fjölskyldum að búa í sama landi. Þetta varð að stórri alþjóðlegri krísu þar sem alþjóðasamtök, þjóðarleiðtogar og þrýstihópar eins og Divided Spouses Coalition unnu að því að vekja athygli á því hvernig Sovétríkin brutu á rétti einstaklinga. „Þetta er svo spennandi því þarna sjáum við hvernig stórveldaátök höfðu bein áhrif á hið persónulega líf,“ segir Rósa.

Kalda stríðið var ekki einungis vígbúnaðarkapphlaup

Rannsóknin skiptir máli því hún varpar ljósi á það að kalda stríðið var eitthvað meira en bara vígbúnaðarkapphlaup. „Þessi pólitíska saga hefur lagt línurnar en við viljum líka fá að vita hvaða áhrif þessi stórveldapólitík, vígbúnaðarkapphlaupið og geimkapphlaupið hafði á almenning,“ segir Rósa.

Rósa segir rannsókn sína eiga erindi við þá umræðu sem er í gangi í dag um innflytjendur og millilandasamskipti og hvernig diplómatísk „vopn“ eru notuð. „Í fyrsta skipti frá árinu 1958 hefur samningnum um stúdentaskipti milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna verið alveg rift, en það gerðist nú í ár.“ Þá eru þær leiðir sem voru opnar fyrir ungt fólk til að kynnast ekki lengur til staðar á sama hátt og áður. Rósa segir Rússa hafa rift samningnum því Pútín vilji sýna að Rússar geti líka haft áhrif á samskipti við umheiminn.

timabil

Rannsókn Rósu talar inn í alþjóðlegt fræðasamfélag og er gildi rannsóknarinnar „að opna augu okkar fyrir því hvernig alþjóðatengsl og alþjóðasamskipti hafa áhrif á einstaklinga og líf þeirra“. Þetta hefur verið rauður þráður í rannsóknum Rósu frá því hún var í BA-námi.
Rannsóknin er enn á byrjunarstigi þar sem stríð Rússa í Úkraínu hefur sett strik í reikninginn. Rósa er þó komin með skjalasafn frá aðgerðasinnahópnum Divided Spouses Coalition frá Bandaríkjunum sem tengjast því hvernig fólk barðist fyrir réttindum hjóna. Rósa mun beita eigindlegum rannsóknaraðferðum og stólar á skjöl, skjalasöfn, endurminningar og viðtöl.

Rósa hefur nú þegar gefið út grein sem tengist verkefninu þar sem hún lýsir bakgrunnssögu þverþjóðlegra hjónabanda Sovétmanna og skoðar Divided Spouses Coalition. Rósa stefnir jafnframt að því að skrifa bók um efnið á ensku með áherslu á árin frá 1975 þar sem mikil breyting átti sér stað í alþjóðaumhverfinu. Markmið Rósu er að skoða örlög sovéskra og bandarískra einstaklinga sem lentu í erfiðleikum vegna hjónabands og skoða hvernig þau endurspegla stórveldapólitíkina á þessum tíma. „Mér finnst svolítið spennandi að setja fókus á tilfinningar því eins og margir vita þá snerist kalda stríðið að svo miklu leyti um tilfinningar eins og ótta og hræðslu – en færri þekkja sögur af ástum á milli Sovétmanna og Bandaríkjamanna.“ 

Höfundur greinar: Dagný Lind Erlendsdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku.

Rósa Magnúsdóttir