Skip to main content
23. febrúar 2019

Áskoranir framtíðarinnar kalla á menntun, jafnrétti, frelsi og víðsýni

Óður til framfara og bjartsýni einkenndi ræðu Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við brautskráningu 444 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi í Háskólabíói í dag. 

„Framfarirnar birtast ekki einvörðungu í bættum lífslíkum, aukinni menntun og auknu lýðræði heldur einnig í stórbættu aðgengi jarðarbúa að rafmagni, aukinni réttarvernd, meira öryggi andspænis náttúruhamförum og auknu jafnrétti. Jafnrétti kynjanna til menntunar hefur reynst eitt mesta framfaraspor mannkyns og leitt til umbóta á nánast öllum sviðum mannlífsins,“ sagði Jón Atli og varpaði fram þeirri spurningu hvort ungt fólk hefði ástæðu til að horfa björtum augum á framtíðina á meðan rannsóknir sýni að fjöldi fólks telji að ástandið í heiminum versni ár frá ári.

„Ef við rýnum í lífsskilyrði okkar í sögulegu ljósi myndu fæst okkar vilja skipta við formæður og forfeður okkar. Fyrir tvö hundruð árum lifðu 94 prósent jarðarbúa við sára fátækt en á okkar tímum eru það 10 prósent. Árið 1820 bjuggu aðeins um eitt prósent jarðarbúa við lýðræði; á okkar tímum tæplega 60 prósent. Fyrir tvö hundruð árum fengu um 83 prósent jarðarbúa enga grunnmenntun en með tímanum hefur þetta snúist við og nú njóta um 86 prósent mannkyns grunnmenntunar. Og fyrir tvö hundruð árum dóu 43 prósent allra barna áður en þau náðu fimm ára aldri en í dag er ungbarnadauði á hinn bóginn um fjögur prósent á heimsvísu.“

Jón Atli byggði hér m.a. á tölum úr nýlegum skýrslum frá OECD. 

Aukin menntun og rannsóknir færa okkur sigra 
Jón Atli varpaði fram þeirri spurningu í ávarpi sínu hvers vegna fólk liti heiminn svo dökkum augum þegar staðreyndir segi aðra sögu. „Ein ástæða þessa er vafalaust réttmætar áhyggjur af loftslagsbreytingum af manna völdum sem geta stefnt gervallri siðmenningu okkar og í raun öllu lífi á jörðinni í hættu.“

Jón Atli sagði drifkraft umbóta og nýrrar þekkingar felast í skipulegum rannsóknum á náttúrunni og mannlegu samfélagi sem byggjast á þeirri hugsjón að hafa ætíð það sem sannara reynist. „Þetta er forsenda framfara og sá ótæmandi brunnur sem við munum geta ausið úr um ókomna tíð. Með aukinni menntun og rannsóknum mun okkur áfram takast að vinna sigra í baráttunni við aðsteðjandi ógnir á borð við loftslagsbreytingar, misskiptingu auðs og valda, jarðvegseyðingu og útdauða dýrategunda. Hér skiptir mestu að finna sífellt nýjar og frumlegar leiðir til að hagnýta hugvitið. Áskoranir framtíðarinnar kalla á menntun, jafnrétti, gagnrýna hugsun, frelsi og víðsýni.“

Jón Atli sagði ef horft yrði sérstaklega hingað heim blasti við að háskólamenntun, rannsóknir, nýsköpun og markviss hagnýting hugvits hefði fært okkur Íslendingum gríðarlega hagsæld og öryggi.  

Mikilvægt að temja sér sjálfbæra lífshætti 
Rektor Háskólans lauk erindi sínu á að eggja kandídatana sem brautskráðust í dag til góðra verka og sagði að aldrei fyrr hefðu jafnmargir háskólamenntaðir einstaklingar unnið landi sínu gagn. „Leiksviðið er ykkar og tækifærin til að láta gott af ykkur leiða eru óþrjótandi,“ sagði Jón Atli og vitnaði í bandarísku skáldkonuna Mary Oliver og eitt hennar kunnasta kvæði, „Sumardagur.“ 

„Segðu mér, hvað annað hefði ég átt að gera?
Deyr ekki að lokum allt og alltof snemma?
Segðu mér, hvað áformar þú að gera
við þitt eina, villta og dýrmæta líf?“

Jón Atli lagði út af ljóðinu og spurði með hvaða hætti við getum ræktað einstaklingseðli okkar á sama tíma og við byggjum upp farsælt samfélag. „Djúp og varanleg ánægja fylgir því að láta gott af sér leiða og vera öðrum til gagns,“ sagði Háskólarektor. „Miklu skiptir að þjóðir heimsins temji sér sjálfbæra lifnaðarhætti í sátt og samlyndi við jörðina sem við byggjum og fóstrar okkur. En við skulum þó ekki gleyma að jafnvel á þessu sviði hafa orðið umtalsverðar framfarir síðasta áratug eða svo. Þannig hefur til dæmis tekist að draga úr eyðingu ósonlagsins, við stefnum hraðbyri að orkuskiptum í samgöngum og sífellt fleiri temja sér lífsstíl sem styður við heilbrigði, náttúruvernd og sjálfbærni.“

Brautskráð var frá 24 deildum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands í dag. 180 kandídatar tóku við brautskráningarskírteini sínu frá Félagsvísindasviði, 42 frá Heilbrigðisvísindasviði, 73 frá Hugvísindasviði, 69 frá Menntavísindasviði og 80 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Í brautskráningarhópnum voru 313 konur og 131 karl. 

Fleiri myndir frá brautskráningunni

Frá brautskráningu Háskóla Íslands