Ása og Björg skipaðar dómarar við Hæstarétt | Háskóli Íslands Skip to main content
18. nóvember 2020

Ása og Björg skipaðar dómarar við Hæstarétt

""

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að leggja til við forseta Íslands að Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen, prófessorar við Lagadeild Háskóla Íslands, verði skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands. Frá þessu var greint í gær á vef stjórnarráðsins.

Báðar hafa þær starfað við Lagadeild um árabil. Ása hóf störf sem stundakennari árið 2004 samhliða lögmannsstörfum og var ráðin lektor árið 2006. Hún varð dósent árið 2012 og prófessor 2018 og hefur í fræðastörfum sínum lagt áherslu á rannsóknir á sviði fjármunaréttar og réttarfars. Ása var settur dómari við Landsrétt fyrr á þessu ári en hefur auk þess sinnt fjölmörgum öðrum störfum á sínum ferli,  svo sem formennsku í fjölmörgum nefndum á vegum hins opinbera. Hún er með embættisprófi í lögfræði frá Lagadeild og hefur jafnframt lokið framhaldsnámi í lögfræði frá Cambridge-háskóla.

Björg Thorarensen hóf störf sem stundakennari við Lagadeild árið 1994 samhliða störfum sínum í dómsmálaráðuneytinu og var ráðin prófessor árið 2002. Því starfi hefur hún gegnt síðan. Fræðastörf Bjargar hafa verið á sviði stjórnskipunaréttar og mannréttinda en einnig á sviði þjóðaréttar, persónuverndarréttar, stjórnsýsluréttar og sakamálaréttarfars. Hún hefur enn fremur setið í fjölmörgum nefndum og stjórnum á vegum hins opinbera. Björg er með embættispróf frá Lagadeild og hefur jafnframt lokið framhaldsnámi í lögfræði frá Edinborgarháskóla. Hún var settur dómari við Landsrétt á fyrri hluta þessa árs.

Samkvæmt tilnefningu dómsmáláðherra er gert ráð fyrr að þær Ása og Björg verði skipaðar dómarar frá 23. nóvember nk.

Háskóli Íslands þakkar þeim Ásu og Björgu fyrir störf sín við Háskóla Íslands og óskar þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi.
 

Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen