Skip to main content
25. febrúar 2019

Áratugsvinna að baki verðlaunabókinni Flóra Íslands

gróður á hálendi Íslands

Um áratugsvinna liggur að baki bókinni Flóra Íslands – blómplöntur og byrkningar sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis í upphafi árs. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í plöntuvistfræði við Háskóla Íslands og einn höfunda bókarinnar, vonast til að bókin nýtist áhugafólki til að fræðast um plöntur og gróður á ferð um landið en bendir jafnframt á að gróður í landinu muni breytast mikið á næstu áratugum vegna hlýnunar og breyttrar landnýtingar. Þóra Ellen hefur ásamt samstarfsfólki unnið brautryðjendarannsókn á landnámi birkis á Skeiðarársandi og að hennar sögn gæti þar vaxið upp víðáttumesti náttúrulegi birkiskógur á Íslandi.

Þóra Ellen tók við Íslensku bókmenntaverðlaununum ásamt samhöfundum sínum, þeim Herði Kristinssyni, fléttufræðingi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, og Jóni Baldri Hlíðberg teiknara við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í lok janúar. Bókin er yfirgripsmesta rit sem út hefur komið um íslenskar plöntur en það er Vaka - Helgafell sem gefur út. 

Þóra segir kveikjuna að bókinni mega rekja til þess að Jón Baldur Hlíðberg hafi byrjað að mála íslenskar plöntur sem sjálfstætt verkefni. Hann hafi farið að vinna með Herði og hún hafi loks slegist í hópinn. „Í byrjun var þetta ekki hugsað sem svona stórt verk. Ritið nær til allra innlendra æðplantna og nokkurra nýlegra landnema, í allt 467 tegunda. Þar hefur verið safnað saman sem mestum fróðleik um hverja tegund, lýsingu á byggingu, vistfræði, æxlun, efnaframleiðslu, útbreiðslu á Íslandi og hnattrænt, fundarsögu á Íslandi og fornum og nýjum nytjum. Þá eru fremst í bókinni almennir kaflar, m.a. um lífsferla plantna, þróunarsögu, flokkun, rannsóknasögu íslensku flórunnar, útbreiðslumynstur, íslensk gróðurlendi og aldur og sögu flórunnar í landinu,“ segir Þóra Ellen um bókina. 

Vonar að bókin kveiki áhuga á fjölbreyttri flóru landsins

Þóra Ellen kom upphaflega að vinnu við bókina síðla árs 2010 og segir vinnulag höfundanna þriggja hafa verið býsna ólíkt. „Næstum allar tegundirnar eru málaðar eftir lifandi eintökum og þar að baki liggur óhemju mikil vinna og tími. Jón Baldur fór út um allt land til að leita uppi hverja tegund og mála hana. Hörður vann tegundalýsingarnar en hann byggir á þeirri einstöku yfirsýn sem hann hefur á íslensku flórunni. Í bókinni er útbreiðslukort fyrir hverja tegund en þar er byggt á gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar Íslands sem Hörður átti reyndar drýgstan þátt í að koma upp og hefur lagt mest til. Hvað mig varðar fór líklega mestur tími í að leita uppi heimildir um hverja tegund, ýmist í alls kyns leitarvélum eða í bókum og ritröðum.  Það var smá áskorun að hafa bókina ekki of langa, ég hefði t.d. gjarnan viljað hafa inngangskaflana aðeins ítarlegri,“ segir Þóra Ellen enn fremur

Aðspurð segir Þóra Ellen að bókin sé hugsuð fyrir allt áhugafólk um plöntur eða þá sem vinna með flóruna á einhvern hátt. „Ég vona að fólk geti notað hana til að fræðast um plöntur sem það sér, t.d. í gönguferðum um landið eða við sumarbústaðinn sinn. Þau sem hafa áhuga á ákveðnum tegundum geta líka sótt samandreginn fróðleik í bókina og fundið frekari heimildir. Bókin ætti líka að nýtast til kennslu á mörgum skólastigum, kennarar geta sótt efnivið í hana t.d. fyrir verkefni,“ bætir hún við.

Flóra Íslands hlaut ekki aðeins Íslensku bókmenntaverðlaunin því starfsfólk bókabúða valdi hana einnig bestu handbókina í árlegri kosningu fyrir jól. Þá var bókin einnig tilnefnd til verðlauna Hagþenkis sem veitt eru fyrir framúrskarandi fræðirit eða miðlun fræðilegs efnis til almennings. „Mér finnst mikill heiður að Íslensku bókmenntaverðlaununum en mér þykir líka vænt um tilnefningarnar sem bókin hefur fengið, t.d. frá Hagþenki og að bóksalar skyldu velja hana úr hópi fræðibóka. Það er alltaf háð mörgum þáttum hver fær svo verðlaunin að lokum,“ segir Þóra Ellen.

Birkitré á fjórða metra á Skeiðarársandi

Þóra Ellen hefur í áratugi stundað rannsóknir á íslenskri flóru en síðasta einn og hálfan áratug hefur hún ásamt Kristínu Svavarsdóttur hjá Landgræðslunni og stórum hópi fólks rannsakað hvernig birki breiðist nú út á Skeiðarársandi. „Við sáum fyrst birki á Skeiðarársandi árið 1998 þegar við vorum að skipuleggja annað verkefni. Þá voru plönturnar pínulitlar og fólk átti erfitt með að trúa okkur þegar við sögðum að nú væri birki að vaxa upp á miðjum Skeiðarársandi. Fyrsta úttektin á birkinu var árið 2004. Þá var meðalhæð tíu hæstu trjánna tæplega 60 sm og í stofninum voru eingöngu fyrstu kynslóðar landnemar og aðeins örfáar plöntur höfðu náð blómgunarþroska. Við fundum engar kímplöntur eða ungar smáplöntur og ekki heldur í mjög víðáttumikilli rannsókn árið 2008.  Síðan þá hefur staða birkisins gjörbreyst. Hæstu trén eru orðin meira en 3,5 metra há og fræframleiðsla er gríðarlega mikil,“ segir hún. 

Hún bætir við að rannsóknir hennar og samstarfsfélaga nú beinist að stofnvistfræði og aldursdreifingu birkisins, en þau beita erfðafræðirannsóknum til að finna uppruna birkisins. „Síðan er æxlunarlíffræðin þar sem við erum m.a. að leita skýringa á ákaflega lélegum frægæðum, spírunarhlutfall hefur verið innan við 10% flest ár. Þá hefur útbreiðsla birkisins verið kortlögð með loftmyndum í hárri upplausn og þær verða notaðar til að kanna fylgi birkisins við umhverfisþætti, m.a. yfirborðsbreytileika, kornastærð og aðrar tegundir plantna. Loks má svo nefna rannsóknir sem beinast að áhrifum birkisins á þróun vistkerfa, hraða og stefnu gróðurframvindu og á jarðveg,“ segir hún.

thora og nemendur

Þóra við rannsóknir á Skeiðarársandi ásamt samstarfsfólki. MYND/Úr myndasafni Þóru

Gæti orðið víðáttumesti birkiskógur landsins

Þóra Ellen bendir á að það styrki verkefnið að hafa fylgst með birkinu alveg frá fyrstu kynslóð landnema. „Okkar tilgáta er að þessa fyrstu kynslóð megi að stórum hluta rekja til eins atburðar þar sem allir þeir mörgu þættir voru dreifingu, landnámi og uppvexti birkisins hliðhollir. Birkið hefur nú breiðst út um a.m.k. 34 km² og ef ekki verða óvænt áföll gæti þarna vaxið upp víðáttumesti náttúrulegi birkiskógur á landinu,“ segir Þóra Ellen en bætir við að fyrri rannsóknir í Skaftafelli sýni reyndar að botngróður sem einkennir birkiskóga sé mun lengur að vaxa upp en birkið.

Þóra Ellen segir rannsóknarverkefnið á Skeiðarársandi það langfyrirferðamesta sem hún vinni að um þessar mundir en að því komi stór hópur frá Háskóla Íslands, Landgræðslunni, Háskólanum á Akureyri, Skógræktinni og sprotafyrirtækinu Svarma auk fjögurra framhaldsnema. „Við Kristín Svavarsdóttir erum líka að byrja á rannsóknaverkefni á íslenskum víðitegundum. Þá hef ég aðeins verið að spá í sögu flórunnar í landinu og hvað skýrir hvernig tegundaauðgi plantna dreifist um landið, en þar er ég m.a. að vinna með Pawel Wasovicz á Náttúrufræðistofnun Íslands. Loks er ég alltaf líka að vinna aðeins með íslenskt landslag og víðerni í samvinnu við Þorvarð Árnason, forstöðumann Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, og framhaldsnema.“

Ágengar plöntutegundir og meindýr á plöntum fylgja loftslagsbreytingum

Vísindamenn úr ýmsum fræðigreinum, þar á meðal í vist- og líffræði, rannsaka nú hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á lífkerfi heimsins og þar eru íslenskir vísindamenn engin undantekning. Þóra Ellen segir aðspurð að rannsóknir sýni á næstu áratugum verði miklar breytingar á gróðri á Íslandi, bæði vegna hlýnunar loftslags en líka vegna breytinga á landnýtingu. „Trjákenndar tegundir munu breiðast út og víða mun gróður þéttast og gróska almennt aukast. Sumir munu vafalaust sjá þetta sem jákvæðar breytingar en loftslagsbreytingum munu fylgja neikvæðar afleiðingar fyrir lífríki landsins. Nýjar tegundir skordýra munu breiðast út, þar með talið tegundir sem eru meindýr á plöntum, líklegt er líka að t.d. sveppasjúkdómar á plöntum verði meira áberandi,“ segir hún. 

Að hennar mati verði alvarlegustu afleiðingarnar líklega útbreiðsla ágengra plöntutegunda, sérstaklega alaskalúpínu, en einnig kerfils og hugsanlega nýrra tegunda eins og stafafuru. „Alaskalúpína er flokkuð sem ágeng tegund sem getur breiðst út í flestum þurrlendisvistkerfum á Íslandi, allt frá Bæjarstaðarskógi og upp í auðnir við Gæsavötn í yfir 900 m hæð yfir sjó. Því hefur verið haldið fram að hún hörfi að fáum áratugum liðnum en rannsóknir styðja þá fullyrðingu ekki,“ segir Þóra Ellen að endingu.               

Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor ásamt þeim Jóni Baldri Hlíðberg og Herði Kristinssyni við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum í lok janúar. MYND/Miðstöð íslenskra bókmennta.