Skip to main content
21. apríl 2021

Árangur af stefnu HVS21 og mótun nýrrar stefnu

Árangur af stefnu HVS21 og mótun nýrrar stefnu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Árlegt þing Heilbrigðisvísindasviðs fór fram þriðjudaginn 20. apríl í beinu streymi. Stefnumótun Háskóla Íslands og starf Heilbrigðisvísindasviðs voru í brennidepli á þinginu.

Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs, flutti fréttir af starfsemi sviðsins. Hún greindi frá árangri sem náðst hefur í helstu málaflokkum úr stefnu HÍ21 og HVS21. Þar má nefna atriði eins og:

  • Nýja stöðu kennsluþróunarstjóra til efla kennslu.
  • Nýja stöðu verkefnisstjóra upplýsingatækni til að styðja við stafræna kennsluhætti.
  • Heilbrigðisvísindastofnun stofnuð.
  • Tölfræðiráðgjöf og Prófastofu komið á fót.
  • Nýja ferðastyrki fyrir doktorsnema.
  • Niðurfellingu kennsluskyldu hjá nýjum kennurum til að koma rannsóknum af stað.

Inga fjallaði einnig um starfsemi og uppbyggingu Heilbrigðisvísindastofnunar, Tölfræðráðgjafar, Prófastofu, Heilsubrunns og sýndi ýmsar tölulegar upplýsingar úr starfi Heilbrigðisvísindasviðs.

Inga greindi frá verkefni sem miðar að því að efla sýnileika rannsókna á Heilbrigðisvísindasviði í alþjóðlegu samhengi. Liður í því er að bæta upplýsingar um stór alþjóðleg rannsóknaverkefni á heimasíðu Heilbrigðisvísindastofnunar. Gagnasöfnun stendur enn yfir og vísindafólk er hvatt til að senda upplýsingar um sín verkefni á netfangið hvs@hi.is

Það má nálgast glærur og upptöku frá kynningu Ingu á Uglu, innri vef HÍ.

Hópavinna í nýrri stefnu HVS26

Þátttakendum á sviðsþinginu var skipt í átta hópa. Hver hópur vann með einn málaflokk úr nýrri stefnu HÍ26: Opin og alþjóðleg; Sjálfbærni og fjölbreytileiki; Afl á grunni gæða; Góður vinnustaður. Hóparnir fengu spurningar sem þeir ræddu og svöruðu. Fulltrúar hópanna kynntu svo niðurstöðurnar. Það verður unnið áfram úr niðurstöðunum og meðal annars opnað fyrir stafræna umræðugátt.

Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor og forseti Lyfjafræðideildar, var fundarstjóri á þinginu.