Skip to main content
23. maí 2018

Anna K. Heiniger varði doktorsritgerð í íslenskum bókmenntum

Anna Katharina Heiniger hefur varið doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum, Á þröskuldinum. Um mörk og mæri í Íslendingasögum, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Andmælendur voru Alison Finlay og Stefanie Gropper og Gunnþórunn Guðmundsdóttir, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 11. maí síðastliðinn. (Sjá myndir frá vörninni).

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Torfa Tulinius, prófessors í íslenskum miðaldafræðum og aðrir í doktorsnefnd voru Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda og Jürg Glauser. Ritgerðin var skrifuð á ensku og ber enska titilinn On the Threshold. Experiencing Liminality in the Íslendingasögur.

Um doktorsrannsóknina

Í þessari rannsókn er kannað hvernig má beita hugtakinu liminality, sem ættað er úr mannfræði, á Íslendingasögur og hvað sú þverfaglega umræða, sem er án fordæma, getur lagt af mörkum til betri skilnings á sögunum sjálfum og sögulegu samhengi þeirra. Fræðilegur rammi rannsóknarinnar byggir á verkum mannfræðinganna Arnold van Gennep (1873-1957) og Victor W. Turner (1920-1983) sem kynnti til sögunnar, skilgreindi og þróaði hugtakið liminality sem táknar það að vera tímabundið staddur á milli tveggja félagslegra sviða. 

Að beita hugtakinu á Íslendingasögur er ýmsum vandkvæðum bundið, ekki síst vegna þess hve loðið það er en einnig vegna bilsins sem þarf að brúa milli nútímamannfræði og miðaldabókmennta. Aðeins nákvæmar túlkanir á einstökum sagnaþáttum leiða í ljós hvort finna megi dæmi um liminality og einnig hvernig megi dýpka skilninginn á hugtakinu í bókmenntalegu samhengi.

Torfa Tulinius, Anna Katharina Heiniger og Ármann Jakobsson