Andarnefjur á norðurslóðum viðkvæmar fyrir fjarlægum hljóðum frá hljóðsjám | Háskóli Íslands Skip to main content
20. mars 2019

Andarnefjur á norðurslóðum viðkvæmar fyrir fjarlægum hljóðum frá hljóðsjám

Andarnefjur

Hljóðbylgjur frá hljóðsjám, sem m.a. eru notaðar í sjóhernaði, hafa mikil áhrif á hegðun andarnefja á afskekktum svæðum á norðurslóðum, jafnvel þótt bylgjurnar séu sendar út í tuga kílómetra fjarlægð frá dýrunum. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar Pauls Wensveen, nýdoktors við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og samstarfsfélaga en greint er frá þeim í nýjustu útgáfu vísindatímaritsins „Proceedings of the Royal Society B“ sem kom út í dag.

Andarnefjur eru tannhvalir en þær tilheyra ætt svínhvala sem eru næstfjölmennasta ætt hvala í höfum heimsins. Þær, eins og aðrar tannhvalategundir, reiða sig á bæði hljóð og bergmálsmiðun til að eiga samskipti sín á milli, við fæðuöflun og til að skynja hættu. Rannsóknir á svínhvalategundum hafa verið af skornum skammti, m.a. vegna þess hversu lengi og djúpt þær kafa. Sjónir vísindamanna hafa hins vegar í auknum mæli beinst að þessum tegundunum á síðustu árum, ekki síst vegna þess hversu oft slíkir hvalahópar hafa strandað í samanburði við margar aðrar hvalategundir. Er skemmst að minnast þess þegar tvær andarnefjur strönduðu í Engey í ágúst á síðasta ári en sams konar atvik komu upp í Skotlandi, Írlandi og Noregi síðasta sumar. Vilja sumir vísindamenn tengja þessa hegðun hvalategundanna við heræfingar á sjó þar sem hljóðsjá er beitt þótt hlutfall slíkra atvika sé líklega lágt.

Svínhvalir halda til á svæðum sem oft eru notuð til hljóðsjáræfinga á vegum herja og fyrri rannsóknir á þeim svæðum benda til þess að hvalategundirnar bregðist síður við hljóðbylgjum frá herskipum í mikilli fjarlægð en við nálægum hljóðbylgjum sem sendar eru út í tilraunaskyni, þrátt fyrir að styrkur bylgjanna frá herskipunum hafi verið það mikill að hann hafi borist í töluverðum styrk til dýranna.

Rannsóknarhópurinn stundaði rannsóknir sínar við Jan Mayen en þar er hljóðmengun í hafi mun minni en sunnar á plánetunni. Festir voru sérstakir skynjarar, sem nýlega hafa verið þróaðir, við tólf andarnefjur og fylgdist hópurinn með viðbrögðum þeirra við hljóðbylgjum frá hljóðsjám á leiðangursskipinu Donnu Wood. Jafnframt fylgdust vísindamennirnir með viðbrögðum annarra andarnefjuhópa á svæðinu með sérstökum djúpsjávarupptökutækjum sem nema samskipti hvala.  

MYND/ Christian Harboe-Hansen - North Sailing

Nýstárleg tækni nýtt til að fylgjast með andarnefjum
Til þess að kanna hvort andarnefjur á afskekktum svæðum bregðast við á svipaðan hátt ákvað hópur alþjóðlegra vísindamanna undir forystu Paul Wensveen, nýdoktors við Háskóla Íslands, og Patricks Miller, prófessors við University of St Andrews í Skotlandi, að ýta úr vör rannsókn á norðurslóðum sem nefnist „3S-ORBS project“.

Hópurinn hélt til Jan Mayen til tilrauna en þar er hljóðmengun í hafi mun minni en sunnar á plánetunni. Festir voru sérstakir skynjarar, sem nýlega hafa verið þróaðir, við tólf andarnefjur og fylgdist hópurinn með viðbrögðum þeirra við hljóðbylgjum frá hljóðsjám á leiðangursskipinu Donnu Wood. Jafnframt könnuðu vísindamennirnir viðbrögð annarra andarnefjuhópa á svæðinu með sérstökum djúpsjávarupptökutækjum sem nema samskipti hvala.  

Andarnefjurnar með skynjarana sýndu mikil viðbrögð við hljóðunum. Þegar hljóðið náði ákveðinni hæð hættu þær allri fæðuöflun og syntu í burtu en athygli vakti að andarnefjur í allt að 28 km fjarlægð frá upptökum hljóðsins brugðust við með þessum hætti. Þá sýndu mælingar vísindamannanna að einn hvalanna kafaði á 1,6 kílómetra dýpi og var í kafi í rúmar tvær klukkustundir. Vísindamennirnir þekkja ekki dæmi þess að dýr af þessari tegund hafi mælst svo lengi í kafi áður. Þá sýndu gögn úr djúpsjávarupptökutækjum að öll dýr, sem fylgst var með, brugðust með einhverjum hætti við hljóðbylgjunum sem sendar voru út í tilraununum. 

Paul bendir á að niðurstöðurnar í rannsókninni séu í samræmi við niðurstöður annarrar tilraunar sem gerð var á sama svæði árið 2013. Hann undirstrikar jafnframt að hljóðsjáin sem notuð var í tilraununum hafi verið mun minni en þær sem notaðar eru í hernaði. Hljóðbylgjur frá stærri hljóðsjám geti því hugsanlega haft áhrif á hegðun dýra í mun meiri fjarlægð en þeirri sem mæld var í tilraunum vísindahópsins. 

„Í ljósi þeirrar þekkingar sem við höfum um svínhvali benda niðurstöður okkar til þess að það hafi áhrif á viðbrögð dýranna hversu afskekkt svæðið er. Þar sem ekki er um algeng eða fyrirsjáanleg hljóð að ræða hafa dýrin færri tækifæri til að meta hvort hljóðin sem berast fela í sér hættu eða ekki,“ segir Paul.

Rannsóknin í Proceedings of the Royal Society B

Andarnefja í kafi