Skip to main content
6. ágúst 2019

Alvarlegir æðaáverkar í kjölfar umferðarslysa á Íslandi

Niðurstöður rannsóknar íslenskra vísindamanna á alvarlegum æðaáverkum í kjölfar umferðarslysa birtust á dögunum í tímaritinu Scandinavian Journal of Surgery. Rannsóknin náði til sjúklinga sem hlutu stóræðaáverka í kjölfar slíkra slysa á tímabilinu 2000 til 2011.

Áverkar á stórum æðum líkamans eru ásamt heilaáverkum helsta dánarorsök eftir umferðarlys en þau eru algengasta orsök ótímabærs dauða hjá ungu fólki á Íslandi. Rannsóknin sýnir að stóræðaráverkar eftir umferðarslys eru ekki algengari hér en erlendis. Engu að síður eru þetta alvarlegir áverkar þar sem helmingur sjúklinga lætur lífið á vettvangi og 13% til viðbótar á leið á sjúkrahús. Af þeim sem ná lifandi inn á sjúkrahús lifa 71% af áverkann og útskrifast af sjúkrahúsi.  

Í tilfellunum 62 sem skoðuð voru var oftast um að ræða karlmenn og var meðalaldur 44 ár. Flestir hlutu æðaáverkana eftir framanákeyrslu en alvarlegustu áverkarnir voru á brjósthluta og kviðarholshluta ósæðar.  Sjúklingarnir voru metnir með svokölluðu ISS-skori og reyndust allir nema einn með lífshættulega áverka; sem er skilgreint sem skor yfir 15. Átján sjúklingar þurftu á bráðaaðgerð að halda, oftast opinni aðgerð á brjóst- eða kviðarhol þar sem blæðing var stöðvuð og gert við æðarnar. Að meðaltali var legutími á sjúkrahúsi 34 dagar en af þeim 15 sjúklingum sem náðu að úskrifast af sjúkrahúsi voru 86% á lífi 5 árum síðar. 

Samkvæmt Samgöngustofu slösuðust 16.204 einstaklingar í umferðinni yfir rannsóknartímabilið, þar af 12% alvarlega og 2% létust innan 30 daga. Sem dæmi létust í fyrra 18 einstaklingar í umferðinni; 9 Íslendingar, 6 erlendir ferðamenn og 3 erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi. Samkvæmt gögnum frá WHO (e. World Health Organization) er Ísland með næsthæstu banaslysatíðni í umferðarslysum á Norðurlöndum á eftir Finnlandi en Svíar eru með næstum helmingi lægri tíðni en Finnar og Íslendingar.

Rannsóknin undirstrikar hversu alvarlegir áverkar þetta eru og hvað snör handtök eru mikilvæg, bæði í flutningi slasaðra á sjúkrahús og í þeirri meðferð sem þar er veitt. Jákvætt er að þessir áverkar eru ekki algengir hér á landi og af þeim sem ná lifandi inn á sjúkrahús og útskrifast eru langtímalífshorfur ágætar.

Fyrsti höfundur greinarinnar var Bergrós Kristín Jóhannesdóttir, sérnámslæknir í æðaskurðlækningum á Haukeland-sjúkrahúsinu í Bergen í Noregi, en rannsókninni stýrði Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á Landspítala og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Rannsóknin í Scandinavian Journal of Surgery

Bergrós Kristín Jóhannesdóttir sérnámslæknir og Tómas Guðbjartsson prófessor eru meðal aðstandenda rannsóknarinnar.