Alþjóðlegt nám í menntunarfræði fagnar áratugsafmæli | Háskóli Íslands Skip to main content
29. mars 2019

Alþjóðlegt nám í menntunarfræði fagnar áratugsafmæli

Námsbrautin alþjóðlegt nám í menntunarfræði fagnar um þessar mundir áratugsafmæli og af því tilefni verður efnt til veglegrar afmælishátíðar í húsakynnum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í dag, föstudaginn 29. mars.

Námið var stofnað árið 2008 í þeim tilgangi að veita nemendum tækifæri til að stunda háskólanám hér á landi á ensku og bregðast við þróun fjölmenningarsamfélagsins.

„Frá stofnun námsins hefur greinin vaxið og tekið breytingum, fjöldi fólks hefur útskrifast, bæði með BA-gráðu og meistaragráðu. Námið opnar nýjar leiðir fyrir nemendur sem hafa áhuga á alþjóðlegri sýn á viðfangsefni uppeldis- og menntunarfræði eða á að vinna með vaxandi hópi innflytjendabarna og tvítyngdra barna á Íslandi,“ segir Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, lektor og formaður námsbrautarinnar.

„Námið er þverfræðilegt og tekur mið af mörgum faggreinum. Við skoðum t.d. menntun og nám með tilliti til hnattvæðingar, sjálfbærni, lýðræðis og mannréttinda. Nemendur taka námskeið í félagsfræði, heimspeki, sálfræði, þjóðfræði, viðskiptafræði, stjórnmálafræði, ensku og tungumálakennslu. Þar sem námið býður upp á fjölda valeininga fá nemendur tækifæri til að sækja námskeið sem þeim hugnast. Við nýtum einnig mikið reynslu og þekkingu nemenda sem gerir það að verkum að við erum sífellt að læra eitthvað nýtt og sjá mismunandi hliðar á viðfangsefnum sem snúa að menntun og námi.“

Alls stunda um 50 nemendur námið á grunn- og framhaldsstigi frá ríflega tuttugu löndum víðs vegar um heiminn. Brynja segir nemendur afar ánægða með námið og margir sæki um í meistara- og jafnvel doktorsnám í framhaldinu. „Að námi loknu hafa nemendur fengist við fjölbreytt störf. Margir vinna í skólum á Íslandi, bæði leik- og grunnskólum, aðrir starfa hjá alþjóðlegum stofnunum eða halda til síns heimalands að vinna við alls kyns störf í menntakerfum.“

Á afmælishátíðinni í dag verður margt góðra gesta. Auk Brynju munu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Kolbrún Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, flytja ávörp. Þá stíga fyrrum og núverandi nemendur á stokk og deila reynslu sinni úr náminu. Heiðursgestur viðburðarins verður Eliza Reid, forsetafrú Íslands.

Sjá dagskrá HÉR.

Að dagskrá lokinni verður boðið upp á léttar veitingar og skemmtiatriði. Viðburðurinn er öllum opinn.

Nánari upplýsingar um námið

Námsbrautin alþjóðlegt nám í menntunarfræði fagnar um þessar mundir áratugsafmæli