Skip to main content
7. nóvember 2016

Alþjóðlegar uppákomur á Háskólatorgi

Alþjóðavika Háskóla Íslands hefst í dag en þetta er í þriðja sinn sem vikan er haldin. Boðið verður upp á spennandi fyrirlestra, kynningar á námi erlendis, tónlist, dans, pubquiz og margt fleira. Þá verður alþjóðleg stemning í Hámu og í Stúdentakjallaranum. Í ár verða spennandi uppákomur í hádeginu á Háskólatorgi alla vikuna sem enginn ætti að missa af og fjölbreytt dagskrá í Stúdentakjallaranum.

Hádegisuppákomur á Háskólatorgi

  • Mánudagur: Capoeira - Brasilísk bardagalist
  • Þriðjudagur: Tinikling - Filipseyskur þjóðdans
  • Miðvikudagur: Tónlistarferðalag um Suður-Ameríku með Andrési Rubiano
  • Fimmtudagur: Alþjóðadagurinn - Salsa Iceland, Belleville og fleira
  • Föstudagur: Tangórínurnar - Margrét Arnars og Sigrún Harðar leika tangótónlist

Dagskrá í Stúdentakjallaranum

Á mánudagskvöldinu kl. 20.00 verður hitað upp fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum með æsispennandi barsvari (pubquiz-i) í umsjón Silju Báru Ómarsdóttur, aðjúnkts við Stjórnmálafræðideild, og Daníels Freys Birkissonar stjórnmálafræðinema. Vinningar verða í boði Félagsstofnunar stúdenta.

Á þriðjudagskvöldinu kl. 20.00 verður svo alþjóðleg bíósýning þar sem boðið verður upp á popp og ýmis tilboð á veitingum. Balkanbandið RaKi og DJ Berndsen slá svo botninn í dagskrá Alþjóðavikunnar á föstudagskvöldinu kl. 20.00 í Kjallaranum. 

Dagskrá Alþjóðavikunnar

Alþjóðadagurinn

Alþjóðadagur Háskóla Íslands verður svo haldinn fimmtudaginn 10. nóvember kl. 12-14 á Háskólatorgi. Þar geta nemendur, kennarar og starfsfólk Háskólans kynnt sér spennandi möguleika á námi og samstarfi erlendis, rætt við fulltrúa sendiráða og ræðisskrifstofa, erlenda skiptinema, fyrrverandi skiptinema og fulltrúa fjölmargra íslenskra stofnana og félaga.

Ýmsar spennandi uppákomur verða á Háskólatorgi. Salsa Iceland stígur dans, hljómsveitin Belleville kallar fram franska stemningu, veglegt happdrætti verður í boði, alþjóðlegt matar- og drykkjarsmakk og fleira. Valgerður Anna Einarsdóttir kynnir dagskrá.

Eftirtaldir taka þátt í Alþjóðadeginum: Sendiráð Bretlands, Danmerkur, Finnlands, Frakklands, Indlands, Japans, Þýskalands, Kanada, Noregs, Póllands, Rússlands og Svíþjóðar; Ræðisskrifstofur Spánar, Færeyja, Hollands og Ítalíu, Fulbright-stofnunin, Skrifstofa alþjóðasamskipta, Upplýsingastofa um nám erlendis, Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands, SÍNE, Norræna félagið, LÍN, Mennta- og menningarsvið Rannís, Konfúsíusarstofnunin, Tungumálamiðstöðin, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, AIESEC, ESN Háskóla Íslands, alþjóðanefnd Stúdentaráðs og skiptinemar.

Happdrætti

Stúdentar Háskóla Íslands eiga möguleika á glæsilegum vinningum

  • Flugmiðar til Evrópu með Icelandair
  • Gjafabréf í Bóksölu stúdenta
  • Hamborgari og bjór í Stúdentakjallaranum 

Til að taka þátt í happdrættinu verður að fylla út miða og skila á Alþjóðadeginum á Háskólatorgi. Miðarnir munu liggja víða á háskólasvæðinu á Alþjóðadaginn og dagana á undan. Athugið að hver nemandi má aðeins skila inn einum miða. Haft verður samband við vinningshafa daginn eftir.

Frá Háskólatorgi.