Alþjóðleg menningarverðlaun og afmælishátíð Vigdísar | Háskóli Íslands Skip to main content
1. nóvember 2019

Alþjóðleg menningarverðlaun og afmælishátíð Vigdísar

Vigdís Finnbogadóttir ásamt fjölmenni í Háskólabíói

Ríkisstjórn Íslands, Háskóli Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hyggjast í sameiningu setja á fót alþjóðleg menningarverðlaun sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. 

Tilefnið er að heiðra Vigdísi Finnbogadóttur á merkum tímamótum, en hún verður 90 ára þann 15. apríl 2020 og  29. júní sama ár verða liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar. Ríkisstjórnin og Háskóli Íslands munu leggja til fé  til menningarverðlaunanna sem  verða veitt einstaklingum sem hafa skarað fram úr með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála. 

Ríkisstjórnin samþykkti einnig að hin alþjóðlegu menningarverðlaun verði til framtíðar hýst í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og að tryggð verði fjárframlög á fjárlögum til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur á hlut stjórnvalda í verðlaununum.

Þá mun Ríkisstjórn Íslands, Reykjavíkurborg,  Háskóli Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum efna til veglegrar afmælishátíðar í Háskólabíói á afmæli Vigdísar og við það tækifæri verða Vigdísarverðlaunin veitt í fyrsta sinn – afmælisbarninu til heiðurs.  

Bæði Háskóli Íslands, ríkisstjórnin og Reykjavíkurborg munu leggja til fjármuni til  afmælishátíðarinnar. 
 
 

Vigdís Finnbogadóttir