Skip to main content
23. júní 2018

Aldrei jafn brýn þörf og nú fyrir fólk  með fjölbreytta háskólamenntun 

Rektor Háskóla Íslands vék að mikilvægi vináttu og menntunar þegar hartnær tvö þúsund kandídatar voru brautskráðir frá öllum deildum skólans í dag. „Þekking er undirstaða blómlegs samfélags og Háskóli Íslands er skóli atvinnulífs framtíðarinnar,“ sagði rektor í ávarpi sínu til kandídata. „Rannsóknir sýna að háskólagráða er ein besta fjárfesting einstaklings á lífsleiðinni, en gildi hennar birtist ekki síður í því að þeir sem lokið hafa háskólanámi telja sig almennt búa við meiri starfsánægju, betri heilsu, meiri hamingju og eru líklegri til að vera virkir borgarar í lýðræðissamfélagi,“ sagði Jón Atli Benediktsson. 

Þótt menntunin sé afar mikilvægt veganesti út í lífið sagði rektor að vináttuböndin og tengslanetið sem sköpuðust í háskóla fælu ekki síður í sér mikil verðmæti fyrir einstaklingana og samfélagið. „Enginn maður er eyland, enginn stendur einn. Þegar ég hjálpa náunga mínum, sái ég fræjum vináttu sem aldrei deyr,“ sagði háskólarektor og vitnaði í bandarísku söngkonuna Joan Baez sem gerði mikilvægi vináttunnar og samstöðunnar að yrkisefni. „Þær tugþúsundir háskólanema sem brautskrást hafa frá Háskóla Íslands mynda öflugt og sívaxandi tengslanet sem alið hefur af sér óteljandi nýjar hugmyndir, nýsköpunarfyrirtæki og samstarfsverkefni á öllum sviðum þjóðlífs á Íslandi og víðar.“ 

Jón Atli talaði um að Háskóli Íslands hygðist á næstu misserum virkja tengslin við brautskráða nemendur sína. „Með virku neti Háskólavina viljum við rækta áfram sambandið um ókomin ár og styrkja samstöðumátt okkar enn frekar.“  

Jón Atli sagði enn fremur í ræðu sinni að ungt fólk stæði nú frammi fyrir ævintýralegum tæknibreytingum og flóknum áskorunum sem krefðust nýrra og þverfræðilegra lausna. „Aldrei áður hefur verið jafn brýn þörf fyrir fólk með fjölbreytta háskólamenntun og einmitt nú. Við skulum hafa þetta í huga þegar rætt er um takmarkanir á aðgengi að háskólanámi og þeirri spurningu er velt upp hvort of margir einstaklingar úr hverjum árgangi ljúki háskólanámi. Sterk rök hníga að því að okkar fámenna þjóð megi engan einstakling missa þegar kemur að nýtingu hugvits og mannauðs. Mikilvægt er að ungt fólk hér á landi, karlar til jafns við konur, stundi háskólanám og að börn innflytjenda séu ekki afskipt þegar kemur að háskólamenntun.“  

Jón Atli færði einnig í tal árangur íslenskra landsliða í hópíþróttum og bar hann saman við stöðu Háskóla Íslands. „Til að skilja þýðingu þess að komast í úrvalsdeild háskóla í heiminum er nærtækt að líta til íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem þessa dagana stendur í ströngu á lokamóti HM í Rússlandi. Undraverður árangur strákanna og stelpnanna okkar á undanförnum árum hefur vakið verðskuldaða athygli á íslensku íþróttalífi um víða veröld.“ 

Jón Atli sagði að sterk staða Háskóla Íslands hefði á svipaðan hátt vakið athygli alþjóðlega og fjölmörg tækifæri til rannsóknasamstarfs og nemendaskipta við erlenda háskóla hefðu opnast nánast daglega. Rektor sagði að erlendir nemendur sæktu í auknum mæli eftir því að nema hér, Háskólinn væri orðið eftirsóttur á sviði opinnar vefkennslu í samstarfi við bandarísku háskólana MIT og Harvard og að auki orðinn verðugur þátttakandi í Aurora, samstarfsneti níu evrópskra háskóla í allra fremstu röð. „Nemendur Háskóla Íslands hafa fengið sífellt fleiri tækifæri til að taka hluta af námi sínu við virtustu háskóla vestan hafs og austan og eru duglegir við að nýta sér það hnattræna tengslanet sem Háskólinn hefur byggt upp.“ Þessu til staðfestingar nefndi Jón Atli sérstaklega hópa nemenda Háskólans sem senn halda til náms við úrvalsháskólana Stanford, Columbia og Caltech í Bandaríkjunum. „Þetta væri ekki mögulegt nema vegna þess orðspors sem Háskóli Íslands hefur áunnið sér.“ 

Í lok ræðu sinnar vék Jón Atli talinu að nýrri könnun á vegum Evrópusambandsins þar sem gerður er greinarmunur á íslenskum háskólanemum og samstúdentum á meginlandinu. Könnunin veitir dýrmætar upplýsingar um efnahagslegar og félagslegar aðstæður íslenskra háskólanema. Háskólarektor benti á að íslenskir háskólanemar vinni meira en samnemendur þeirra í Evrópu. „Þeir virðast líka leggja harðar að sér í náminu. Þá eru þeir almennt eldri, eiga fleiri börn og eru líklegri til að vera í sambúð. Þannig einkennir það efnahagslegar og félagslegar aðstæður íslenskra háskólanema að þeir takast snemma á við áskoranir í fjölskyldu- og atvinnulífi sem aðrir evrópskir nemendur geyma frekar þar til að námi loknu. Íslenskir háskólanemar hafa líka meiri fjárhagsáhyggjur og njóta síður opinbers stuðnings í námi í formi lána eða styrkja. Ein helsta ályktunin sem við hljótum að draga af þessari viðamiklu könnun er sú að styðja þurfi betur við íslenska námsmenn því það er mikilvægt að þeir helgi sig náminu af fullum krafti.“    
 

Rektor óskar kandídat til hamingju með brautskráningu