Skip to main content
3. nóvember 2017

Áhrif Lúthers í 500 ár

Rannsóknarverkefnið 2017.is og Hið íslenska bókmenntafélag hafa gefið út greinasafnið Áhrif Lúthers. Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár, í tilefni þess að 500 ár eru liðin síðan Marteinn Lúther hratt af stað víðtækri þróun á sviði trúar, kirkju, samfélags og menningar í norðanverðri Evrópu með því að birta mótmælagreinarnar 95. 

Tuttugu fræðimenn á sviði guðfræði, sagnfræði, bókmenntafræði og málvísinda rita greinar í bókina sem varpa nýju ljósi á ýmsa fleti lútherskrar menningar á Íslandi í sögu og samtíð. Áhrif Lúthers hér á landi hafa löngum verið umdeild en allir eru sammála um að siðbreytingin marki tímamót í sögu Íslands. Í bókinni er fjallað um þessi áhrif Lúthers og hvernig þau birtast, beint og óbeint, á fjölmörgum sviðum samfélags og menningar, sum býsna síðbúin. Höfundar fjalla meðal annars um samfélagslegar breytingar, uppfræðslu og kennsluaðferðir, bókaútgáfu, sálmakveðskap, myndlist, gagnrýni á kirkjuna, kvennabaráttu og kynferðislegan margbreytileika.

Ritgerðirnar tuttugu eiga rætur að rekja til þverfræðilegs rannsóknarverkefnis um áhrif siðbótar og siðaskipta á íslenska kristni, samfélag og menningu er Guðfræðistofnun Háskóla Íslands hleypti af stokkunum af þessu tilefni.

Ritstjórar bókarinnar eru Hjalti Hugason, Loftur Guttormsson og Margrét Eggertsdóttir.

Efnisyfirlit:

Samfélag og almenningsfræðsla

 • Skyldur lúthersks yfirvalds. Páll Stígsson og siðbótin á Íslandi. Hjalti Hugason kirkjusagnfræðingur.
 • Konungsbréfið 1635 um kverfræðslu og húsvitjanir. Bakgrunnur og áhrif. Loftur Guttormssonar sagnfræðingur.
 • Arithmetica — það er reikningslist. Rætur í menningu mótmælenda. Kristín Bjarnadóttir stærðfræðingur.

Þýðingar og útgáfa

 • Horft til horfinnar bókar. Um „Fjóra guðspjallamenn“. Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur.
 • Breytingar Guðbrands biskups á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar. Hverjar voru fyrirmyndirnar? Guðrún Kvaran málfræðingur.
 • „Frómum og guðhræddum, leikum og lærðum“. Um Guðbrand biskup Þorláksson og þýðingar hans. Margrét Eggertsdóttir bókmenntafræðingur.

 • Sálmar Lúthers í íslenskum messusöng. Einar Sigurbjörnsson trúfræðingur.

Kirkjubyggingar og búnaður

 • Þættir úr sögu innanbúnaðar íslenskra kirkna á fyrstu öldum eftir siðaskipti. Guðrún Harðardóttir sagnfræðingur.
 • Málverksmyndir, skurðgoð og líkneskjur. Um myndskilning siðbótarmanna og áhrif hans hér á landi í sögulegu ljósi. Gunnar Kristjánsson guðfræðingur.

 • Voru helgimyndir eyðilagðar á Íslandi? Athugun á varðveislu dýrlingamynda fyrsta áratuginn eftir siðaskipti. Margaret Cormack miðaldafræðingur.

Hugarfar og menning

 • Kraftaverk og furður eftir siðaskipti. Ásdís Egilsdóttir bókmenntafræðingur.
 • „Gegnum Jesú helgast hjarta í himininn upp ég líta má.“ Lesið í líkamsmyndir Passíusálma. Sveinn Yngvi Egilsson bókmenntafræðingur.
 • Að lifa guðlega og deyja kristilega. Um píslarvætti Jóns Þorsteinssonar í Vestmannaeyjum. Þorsteins Helgasonar sagnfræðingur.

Konur og kristni

 • „Dyggðafull kona er ein eðla gáfa“. Menningarleg mótun kyngervis á 17. öld. Þórunn Sigurðardóttir bókmenntafræðingur.
 • „Andvarp syrgjandi ekkju“. Dauðinn, sorgin og trúin í bréfum Sigríðar Pálsdóttur. Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur.
 • Sr. Ólafur Ólafsson fríkirkjuprestur og kvenréttindabaráttan um aldamótin 1900. Aðdragandi laga um rétt kvenna til embættisnáms, styrkja og embætta. Arnfríður Guðmundsdóttir trúfræðingur.
 • „Haf þinn guð í stafni“. Kristileg orðræða og andóf í skrifum og ljóðum kvenréttindakvenna. Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur.

Guðfræði í sögu og samtíð

 • Blessun Arons. Uppruni, notkun og áhrif. Sigurjón Árni Eyjólfsson trúfræðingur.
 • Var Magnús Eiríksson siðbótarmaður? Nokkur atriði í gagnrýni hans á þróun kristindómsins. Ævar Kjartansson guðfræðingur.
 • Að umfaðma hið óvenjulega. Lúthersk sýn á kynferðislegan margbreytileika og mannréttindi. Sólveig Anna Bóasdóttir siðfræðingur.
Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, Hjalti Hugason, Margrét Eggertsdóttir og Arnfríður Guðmundsdóttir, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.