Afhentu rit til heiðurs Hæstarétti 100 ára | Háskóli Íslands Skip to main content
19. mars 2021

Afhentu rit til heiðurs Hæstarétti 100 ára

Afhentu rit til heiðurs Hæstarétti 100 ára - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, færði Benedikt Bogasyni, forseta Hæstaréttar, ritið „Hæstiréttur og Háskóli Íslands: Rit til heiðurs Hæstarétti 100 ára“ við hátíðlega athöfn í Hæstarétti í gær að viðstaddri ritnefnd bókarinnar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, varaforseta og skrifstofustjóra Hæstaréttar, forseta Lagadeildar og fulltrúa útgefanda bókarinnar.

Á árinu 2020 var liðin öld frá því að Hæstiréttur Íslands tók til starfa. Þar sem tengsl Hæstaréttar og Háskóla Íslands hafa verið samofin þessi 100 ár ákvað Háskóli Íslands að minnast aldarafmælis Hæstaréttar með því að standa fyrir útgáfu rits sem hefur að geyma fræðiritgerðir á sviði lögfræði. Við hæfi þótti að hafa efni ritsins á sviði réttarfars þar sem um er að ræða löggjöf sem skiptir miklu fyrir starfsemi réttarins. 

Í ritnefnd sátu Kristín Benediktsdóttir, dósent við Lagadeild (ritstjóri), og þau Árni Kolbeinsson, Guðrún Erlendsdóttir og Markús Sigurbjörnsson sem öll eru fyrrverandi dómarar við Hæstarétt auk þess að hafa sinnt kennslu og rannsóknum við Lagadeild.

Um er að ræða safn 19 ritgerða á sviði réttarfars. Höfundar ritgerðanna eru fyrrverandi og núverandi aðstoðarmenn dómara við Hæstarétt en allir hafa þeir lokið embættis- eða meistaraprófi frá Lagadeild og sinnt störfum þar sem reynir á réttarfarsreglurnar bæði sem aðstoðarmenn í Hæstarétti og að því loknu sem dómarar, lögmenn, saksóknarar og fræðimenn svo eitthvað sé nefnt.

Útgefandi bókarinnar er Fons Juris.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, afhendir Benedikt Bogasyni, forseta Hæstaréttar, ritið „Hæstiréttur og Háskóli Íslands: Rit til heiðurs Hæstarétti 100 ára“.
Bókin
Jón Atli Benediktsson og Benedikt Bogason
Viðstödd afhendingu bókarinnar voru ritnefnd bókarinnar, fyrrverandi forsetar Hæstaréttar, varaforseti og skrifstofustjóri Hæstaréttar og forseti Lagadeildar Háskóla Íslands.