Skip to main content
2. desember 2022

Aðventukveðja rektors

Aðventukveðja rektors - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi eftirfarandi aðventukveðju til starfsfólks og stúdenta:

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Aðventan er gengin í garð með allri sinni ljósadýrð sem dregur sannarlega úr áhrifum skammdegisins hér á norðurhveli jarðar.  

Lokapróf eru líka hafin í Háskóla Íslands eftir afar ánægjulegt misseri þar sem við gátum í fyrsta sinn í langan tíma haft skólastarf með eðlilegum hætti. Það var ólýsanlega ánægjulegt að sjá lífið krauma hér á háskólasvæðinu og finna hvernig stúdentar og starfsfólk létu gleðina vera einn helsta drifkraftinn í háskólastarfinu. 

Þessa dagana standa stúdentar í ströngu við vinnslu lokaverkefna og undirbúning prófa auk þess að þreyta þau. Ég óska þeim alls hins besta í öllum þeim mikilvægu verkefnum sem nú fara í hönd. Ég vil líka þakka öllu því starfsfólki HÍ sem unnið hefur að undirbúningi prófanna og kemur að mikilvægri framkvæmd þeirra. Ég óska kennurum líka góðs gengis við yfirferð prófa og við að ljúka misserinu.

Fullveldisdagurinn var í gær, en 1. des var afar viðburðarríkur hér í HÍ eins og alltaf. Stúdentar minntust dagsins með því að leggja blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu og guðfræðinemar héldu fallega messu í kapellunni í Aðalbyggingu. 

Hátíð brautskráðra doktora var einnig haldin í Hátíðasal að viðstaddri Vigdísi Finnbogadóttur, einstakri velgjörðarkonu HÍ og fyrrverandi forseta Íslands, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þar var árangri nýdoktoranna fagnað og þeim veitt gullmerki skólans en 86 doktorar hafa brautskráðst frá HÍ á undanförnum tólf mánuðum. 

Doktorsnám er mikilvæg undirstaða rannsókna við HÍ, ein af mörgun, en efling doktorsnámsins styrkir skólann í alþjóðlegum sambanburði og brýnir hann í að gegna áfram mikilvægu hlutverki sínu sem æðsta menntastofnun þjóðarinnar. Það er okkur kappsmál en líka að starf skólans stuðli að sjálfbærni og farsælli þróun samfélagsins, ekki bara hér á Íslandi heldur um allan heim. 

Stafrænt Fréttabréf Háskólavina fór til fjölmargra áskrifenda fyrr í morgun en það er troðfullt af efni eins og endranær. Ritið endurspeglar svo sannarlega kraftinn í starfi skólans þar sem áherslan að þessu sinni er á verkefni sem hafa mikil áhrif á samfélag. Háskóli Íslands er háskóli þjóðarinnar og því er okkur mikilvægt að starf skólans, kennsla og rannsóknir styðji við framfarir og aukin lífsgæði okkar allra. Þannig er umfjöllun í þessu bréfi um rannsóknir til að draga úr brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum en fátt er mikilvægara en menntun þjóðarinnar. Þá er vikið að rannsóknum á fæðuöryggi, mikilvægi þreks og hreyfingar hjá ungmennum auk rannsókna á krabbameini. Ég hvet ykkur öll til að glugga í fréttabréfið.

Núna er þáttaröðin Vísindin og við sýnd á Hringbraut en þar er vísindafólk Háskóla Íslands í háskerpu. Rannsóknir Ingibjargar Gunnarsdóttur, prófessors í næringarfræði, sem snúa m.a. að áhrifum næringar á heilsu móður og barns á meðgöngu, voru til umfjöllunar í síðasta þætti. Í honum sáum við hvernig miðlun HÍ gegnir mikilvægu hlutverki í að stuðla að lýðheilsu og velferð. Allir þættirnir í röðinni eru aðgengilegir á netinu

Þessa dagana fögnum við líka ýmsu sem víkur að starfi okkar í HÍ. Þannig eru fimmtán liðin frá vígslu Háskólatorgs – sem er uppspretta nýrra hugmynda sem mótast af skapandi samtölum nemenda og kennara úr ólíkum fræðigreinum. Þá er fyrsti íslenski vefurinn 30 ára um þessar mundir og þannig hagar til að sá vefur er einmitt hi.is. 

Framsýni Háskóla Íslands kristallast í að hafa strax haslað sér völl á netinu og verið frumkvöðull þar eins og á mörgum öðrum sviðum upplýsingatækni. Þannig stefnir HÍ hátt í að nýta upplýsingatækni til að bæta þjónustu með sjálfvirkum ferlum auk þess að efla notkun sömu tækni í kennslu eins og raunin hefur verið undanfarin misseri.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Það er til marks um styrk ljóssins að það verður einna bjartast þegar myrkrið er hvað mest. Þótt sólin fari æ skemmri veg á norðurhimni er aðventan engu að síður tími ljóssins. Gleymum ekki að hleypa því að okkur. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Aðalbygging Háskóla Íslands