Skip to main content
21. september 2023

Áður ósýnd verk á nýrri sýningu Listasafns Háskóla Íslands 

Áður ósýnd verk á nýrri sýningu Listasafns Háskóla Íslands  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Myndlistarsýningin „Listmíla-tvö“ verður formlega opnuð 22. september nk. Um er að ræða yfirgripsmikla sýningu á safneign Listasafns Háskóla Íslands sem spannar breitt tímabil í íslenskri myndlistarsögu, allt frá tíma abstraktlistarinnar, nýja málverksins, SÚM og fram til okkar daga.

Alls verða til sýnis um 70 listaverk eftir 46 listamenn og er íslensk samtímalist þar áberandi. Sjá má verk eftir listamenn á borð við Gabríelu Friðriksdóttur, Margréti Blöndal, Steingrím Eyfjörð, Helga Þórsson og Guðmund Thoroddsen, en einnig eldri verk eftir listamenn á borð við Þorvald Skúlason, Karl Kvaran, Guðmundu Andrésdóttur, Valtý Pétursson og Eyborgu Guðmundsdóttur. Þá er vert að geta þess að nokkur verkanna hafa aldrei áður verið sýnd opinberlega eins og til dæmis sjálfsmyndir Þorvalds Skúlasonar og málverk frá níunda áratug tuttugustu aldar.

Markmið sýningarinnar er að gefa nemendum, starfsfólki og öllum almenningi færi á að kynnast safneign Listasafns Háskóla Íslands sem er afar fjölbreytt. Dregin eru fram þekkt verk eftir okkar fremstu listamenn en einnig verk sem sjaldan eða aldrei hafa ratað fyrir sjónir almennings.

Sýningarstjórar eru Kristján Steingrímur, safnstjóri Listasafns Háskóla Íslands, og Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Háskóla Íslands og formaður stjórnar Listasafnsins.

Sýningin er í fimm byggingum Háskóla Íslands: Aðalbyggingu, Gimli, Háskólatorgi, Odda, Veröld – húsi Vigdísar og í tengigöngum á milli bygginganna og er hún opin á almennum opnunartímum bygginga Háskóla Íslands.

Um Listasafn Háskóla Íslands:

Listasafn Háskóla Íslands var stofnað árið 1980 með stórri listaverkagjöf Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1994) og Sverris Sigurðssonar (1909-2002). Síðan hafa ýmsir listamenn og afkomendur þeirra styrkt safnið með veglegum gjöfum auk þess sem ný verk eru keypt árlega. Safneignin telur um 1.600 listaverk og má segja að kjarni safnsins séu málverk eftir brautryðjendur abstraktlistar á Íslandi á borð við Þorvald Skúlason, Guðmundu Andrésdóttur, Hörð Ágústson, Karl Kvaran, Valtý Pétursson og Eyborgu Guðmundsdóttur. Á síðustu árum og áratugum hafa bæst við mörg listaverk eftir yngri listamenn sem endurspegla þær áherslur sem hafa ríkt í íslenskri samtímalist á hverjum tíma.

Listasafn Háskóla Íslands markar sérstöðu í íslenskum safnaheimi þar sem safnið státar ekki af eiginlegum sýningarsal heldur fá listaverkin að njóta sín í takt og flæði við hið lifandi og síbreytilega vinnuumhverfi Háskóla Íslands. Sýningar eru settar upp vítt og breitt um háskólasvæðið og þannig verður listin þátttakandi í háskólastarfinu og veitir innblástur til rannsókna og nýsköpunar.

Listaverk á Háskólatorgi