Skip to main content
13. apríl 2021

Aðstaða í Sjávarklasanum í boði fyrir nemendur HÍ

Aðstaða í Sjávarklasanum í boði fyrir nemendur HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendum Háskóla Íslands sem vinna að verkefnum, rannsóknum og nýsköpun tengdri bláa hagkerfinu býðst að nýta aðstöðu í frjóu umhverfi í Húsi sjávarklasans við Grandagarð. 

Með bláa hagkerfinu er átt við allt sem tengist hafi, vötnum og ám og nýtingu þeirra auðlinda sem þar er að finna, hvort sem er í tengslum við sjávarútveg, líftækni, fiskeldi, vísindastarf eða aðrar greinar.

Starfsemin í Húsi sjávarklasans að Grandagarði 16 tengist mjög bláa hagkerfinu en þar hefur í um áratug verið lögð áhersla á að veita fyrirtækjum og frumkvöðlum tækifæri til að skapa ný verðmæti sem tengjast m.a. sjávarútvegi eða haftengdri starfsemi. Þar eru nú um 70 fyrirtæki af ýmsum stærðum og gerðum, þar á meðal sprotafyrirtæki sem eiga rætur sínar í starfi Háskóla Íslands.

Byrjað var að bjóða upp á aðstöðu fyrir nemendur Háskólans í Sjávarklasanum í fyrrasumar og var aðsóknin afar góð. Alls er pláss fyrri 8-10 nemendur í húsnæðinu og geta þeir nýtt aðstöðuna til lengri eða skemmri tíma, allt ef því hvernig þeim hentar. Þannig er vettvangurinn t.d. kjörinn fyrir þau sem vinna að sumarrannsóknum eða sumarstörfum af einhverju tagi en einnig þau sem vinna að ritgerðum eða öðrum verkefnum. Aðgangur er ekki bundinn við tilteknar deildir skólans heldur er aðstaðan opin öllum nemendum sem vinna að verkefnum tengdum bláa hagkerfinu.  

Þeir nemendur sem hafa áhuga á að nýta aðstöðuna geta leitað til Bertu Daníelsdóttur, framkvæmdastjóra Sjávarklasans (berta@sjavarklasinn.is), eða Sæunnar Stefánsdóttur, forstöðumanns Stofnunar rannsóknasetra HÍ og sérfræðings á skrifstofu rektors, (saeunnst@hi.is).

Nánar um Sjávarklasann.
 

Hús sjávarklasans