Skip to main content
3. mars 2022

Aðalheiður Guðmundsdóttir hlaut viðurkenningu Hagþenkis

Aðalheiður Guðmundsdóttir hlaut viðurkenningu Hagþenkis - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hlaut Viðurkenningu Hagþenkis við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni 2. mars síðastliðinn fyrir bækurnar Arfur aldanna I: Handan hindarfjalls og Arfur aldanna II: Norðvegur, sem Háskólaútgáfan gaf út á liðnu ári. Ásdís Thoroddsen, formaður Hagþenkis, veitti Aðalheiði verðlaunin. Í umsögn viðurkenningarráðs Hagþenkis sagði um bækurnar: „Vandað og yfirgripsmikið rit sem opnar heillandi baksvið fornaldarsagna fyrir lesendum.“ Hægt er að lesa umsögnina í heild sinni á vef Hagþenkis.

Arfur aldanna er fjögurra binda verk sem fjallar um fornaldarsögur, uppruna þeirra, útbreiðslu og einkenni. Í fyrsta bindinu, Handan Hindarfjalls, er dregin upp heildarmynd af efnivið sagnanna í evrópsku samhengi utan Norðurlanda fram að ritunartíma þeirra á Íslandi á 13. og 14. öld. Einkum og sér í lagi er sótt í annála og aðrar fornar sagnfræðiheimildir en einnig söguljóð og fornminjar sem kunna að fela í sér myndrænar tilvísanir í söguefnið. Í öðru bindinu, Norðvegur, er dregin upp heildarmynd af efnivið sagnanna í norrænu samhengi fram að ritunartíma þeirra á Íslandi á 13. og 14. öld. Einkum er stuðst við fornminjar á borð við myndsteina, rúnasteina, útskurð í tré og vefnað en við sögu koma þó einnig sagnaritarar og skáld sem unnu með sagnaefnið í ritum sínum og kveðskap.

Í ávarpi sagði Aðalheiður að hún væri hálfnuð með þetta stóra verk, þar sem tvær bækur af fjórum væru komnar út, og því væri þessi hvatning þeim mun mikilvægari: „Á þessari stundu er ég því fyrst og fremst þakklát. Ég er þakklát fyrir að til skuli vera félag eins og Hagþenkir, þ.e.a.s. fagfélag þeirra sem skrifa fræðibækur og halda þeim á lofti – og ég er þakklát dómnefndinni sem er skipuð fagfólki sem er meðvitað um þá vinnu sem liggur að baki rannsóknum. Þetta finnst mér vera mikilvægt því að í þessum hraða heimi stafrænnar miðlunar, þá er fólk oftar en ekki beðið um að gera grein fyrir rannsóknum sínum í stuttu máli, og helst skemmtilegu – og yfirborðsmennskan á þannig yfirleitt greiðari aðgang að viðtakendum. Ég tek við þessari viðurkenningu af auðmýkt, og vil þakka útgefendum mínum í Háskólaútgáfunni fyrir þeirra framlag, og sérstaklega ritstjórunum tveimur, þeim Annette Lassen og Agli Arnarsyni.“ Hægt er að lesa ávarp Aðalheiðar í heild sinni á vef Hagþenkis.

Í spilaranum hér að neðan er hægt að hlýða á Aðalheiði lesa tvo valda kafla úr verkinu.

Aðalheiður Guðmundsdóttir tók við viðurkenningu Hagþenkis í Þjóðarbókhlöðunni.