Skip to main content
24. júlí 2018

Á þriðja hundrað umsóknir um styrki til Rannsóknasjóðs

""

Vísindamenn og doktorsnemar við Háskóla Íslands sendu inn 264 umsóknir um rannsóknastyrki úr Rannsóknasjóði Íslands sem vistaður er hjá Rannís. Umsóknarfrestur um styrki rann úr 15. júní síðastliðinn.

Rannsóknasjóður er opinn samkeppnissjóður sem veitir styrki til vísindarannsókna og rannsóknatengds framhaldsnáms á Íslandi. Sjóðurinn veitir fjórar tegundir styrkja: öndvegisstyrki, sem jafnframt eru meðal hæstu styrkja sem veittir eru til rannsókna hér á landi, verkefnisstyrki innan afmarkaðra fræðasviða, rannsóknastöðustyrki til vísindamanna sem hafa nýlokið doktorsprófi og doktorsnemastyrki. Styrkirnir eru veittir í allt að 36 mánuði.

Allar umsóknir um styrki úr Rannsóknasjóði fara í gegnum mat fagráða sem vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar. Í ráðunum sitja einstaklingar með víðtæka reynslu af rannsóknum og skulu að minnsta kosti tveir fagráðsmenn í hverju fagráði skulu vera starfandi utan Íslands.

Sem fyrr segir rann umsóknarfrestur um styrki úr Rannsóknasjóði fyrir árið 2019 út 15. júní síðastliðinn og bárust umsóknir frá öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. Skiptingu þeirra eftir sviðum má sjá hér að neðan.

SVIÐ Öndvegisstyrkir Verkefnisstyrkir Rannsóknastöðustyrkir Doktorsnemastyrkir Samtals
Félagsvísindasvið 1 8 8 6 23
Heilbrigðisvísindasvið 2 33 12 7 54
Hugvísindasvið 5 11 15 23 54
Menntavísindasvið 2 16 0 4 22
Verkfræði- og náttúruvísindasvið 11 62 22 16 111
Samtals 21 130 57 56 264

Úthlutað verður úr Rannsóknasjóði snemma á árinu 2019.

Háskóli Íslands