Skip to main content
9. október 2019

Á slóðum landnema með Orra Vésteinssyni

„Aðalstræti er sjávargata fyrstu Reykvíkinganna og í Grófinni voru uppsátur þeirra. Ýmislegt fleira í gatnaskipulagi miðborgarinnar er afleiðing af því hvar landnemarnir komu sér fyrir. Í þeim skilningi sjáum við ýmiss konar ummerki um þá í Reykjavík.“ Þetta segir Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands.  Hann mun leiða göngu um miðborgina um slóðir landnemanna en gangan er samstarfsverkefni Háskólans og Ferðafélags Íslands undir heitinu Með fróðleik í fararnesti. Í þetta skiptið er það Ferðafélag barnanna sem hefur veg og vanda að göngunni með Háskólanum en félagið er angi af fornum og miklum meiði Ferðafélags Íslands.  Gangan verður laugardaginn 12. október og hefst hún klukkan 10. Safnast verður saman fyrir utan Landnámssýninguna á horni Aðalstrætis og Túngötu, og tekur gangan um tvær klukkustundir. 

Var Ingólfur Arnarson til?

Orri ætlar að svara ýmsum spurningum frá göngumönnum en marga fýsir að vita hvort landnámsmennirnir okkar hafi verið víkingar og auðvitað vilja allir vita hvort Ingólfur Arnarson hafi raunverulega verið til. Er hann ef til vill hugarburður eða kannski samnefnari fyrir alla þá sem komu hingað fyrst? „Ég held að það sé rökréttast að líta á Ingólf sem landvætt fremur en sögulega persónu.  Hann hefur skýra mynd í hugum okkar en það er táknmynd fremur en raunverulegur einstaklingur,“ segir Orri en hann mun auðvitað tala meira um þetta í göngunni. 

Stórfellt landnám á níundu öld

Orri segir að fornleifarannsóknir sýni að stórfellt landnám hafi átti sér stað á Íslandi á seinni hluta níundu aldar - á sama tíma og miðaldafræðimenn höfðu reiknað út að landið hefði verið numið. „Að stærstum hluta vitna fornleifar um aðrar hliðar mannlífsins en þær sem karlar á borð við Ara fróða höfðu mestan áhuga á,“ segir Orri og vitnar þar í Íslendingabók sem er yfirlit yfir sögu íslensku þjóðarinnar frá landnámi til ársins 1118. Hún var samin á árunum 1122–32 af prestinum Ara Þorgilssyni (1068–1148) sem hlaut síðar viðurnefnið hinn fróði. Bók Ara fróða hefur verið talin mikilvæg heimild um landnám Íslands.  

Orri er fróður eins og Ari og það sem hefur drifið hann áfram í rannsóknum er endalaus forvitni. Afurð þeirrar forvitni er mikil þekking sem hann mun miðla til göngufólks, fullorðinna og barna laugardaginn 12. október.  

Orri segir okkur að elstu ótvíræðu ummerki um mannabyggð í Reykjavík séu lítill garðstúfur neðst í Grjótagötu.  „Mjög snemma hefur fólk tekið sér bólfestu á því svæði, við norðvesturhorn Tjarnarinnar. Herkastalinn stendur þar sem miðja bæjarstæðisins hefur verið.  Nýlega fannst annað bæjarstæði við Lækjargötu, þar sem lækurinn rann úr Tjörninni, og er það ekki síður gamalt.“

Orri segir að fólkið sem skildi eftir sig elstu leifarnar sem fræðimenn hafi skoðað, hafi verið bændur.  „Þeir höfðu hlutfallslega fleiri kýr en seinna varð, líka geitur og svín, og ræktuðu bygg í talsverðum mæli en í aðalatriðum var búskapur þeirra svipaður og við þekkjum frá seinni öldum, blanda af húsdýrahaldi og veiðum.“

Auðvitað er forvitnilegt að vita hvað var étið á landnámstíð og Orri svarar því til að fyrstu Reykvíkingarnir hafi étið talsvert af sjófugli, þar á meðal geirfugl sem var þó snemma útrýmt, „en sjávarfang og kornrækt hafa skipt hlutfallslega meira máli á frumbýlingsárunum en seinna varð.“

Hver er Orri Vésteinsson?
Orri fæddist í Lundi í Svíþjóð árið 1967 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1986. Hann lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, MA-prófi í fornleifafræði frá University College London árið 1991 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1996. Orri er einn stofnenda Fornleifastofnunar Íslands og var forstöðumaður Rannsókna- og kennslusviðs hennar frá 1995 til 2002 þegar hann varð lektor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur verið prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands frá 2010.

Fjölmargir gripir fundist í miðborginni 

Orri segir að fjölmargir gripir hafi fundist við uppgröft í miðborginni og megi sjá úrval af þeim á Landnámssýningunni í Aðalstræti.  „Það er mest heimilisúrgangur - hlutir sem brotna og týnast og ummerki um smíðar og vinnslu.  Það kennir ýmissa grasa í þessu gripasafni, frá vopnum og verkfærum til leikfanga, en dýrgripir eru fáir.  Þar á meðal eru samt til dæmis silfurpeningur frá um 900 og nokkrar rostungstennur.  Það hafa að líkindum verið rostungalátur við Faxaflóa þegar menn komu hér fyrst að landi og má vera að það hafi verið eitt helsta aðdráttaraflið til að byrja með.  En rostungi var snemma útrýmt eins og geirfuglinum. Tennurnar sem hafa fundist hafa að líkindum verið ætlaðar til útflutnings en rostungsbein sem sett voru í vegghleðslu í skálanum í Aðalstræti benda líka til að fólk hafi haft átrúnað tengdan þessum skepnum.“

Rannsóknir Orra beinast m.a. að landnáminu

Orri fæst einkum við rannsóknir á fornleifafræði Norður-Atlantshafs, Íslands og Grænlands og beinir sjónum að víkingaöld og miðöldum. Hann hefur stjórnað uppgreftri víða um land, sér í lagi á Norðausturlandi, til dæmis Gásum í Eyjafirði og Sveigakoti og Hofstöðum í Mývatnssveit. Hann stjórnaði einnig uppgreftri á biskupssetrinu Görðum á Grænlandi og hefur unnið að skráningu fornleifa bæði á Íslandi og Grænlandi. Rannsóknir hans beinast að landnámi, mótun samfélags í kjölfar landnáms og langtímaþróun hagkerfis og félagsgerðar. Hann hefur uppgötvað fjölmargt á sínum langa ferli. 

„Uppgötvanir eru eins og börnin manns - maður gerir ekki upp á milli þeirra.  Maður er alltaf að uppgötva að maður hafði rangt fyrir sér - það er mjög hressandi,“ segir Orri og hlær.  „Í hvert skipti sem maður grefur upp nýjar upplýsingar er maður neyddur til að endurskoða það sem maður hafði haldið.  Eftir því sem við gröfum meira, og ýmislegt skýrist sem við höfðum haft áhyggjur af, þá kemur líka betur og betur í ljós hvað það er margt sem við vitum ekki - en munum komast að með frekari rannsóknum.“

Þetta svar er auðvitað fullt af þversögnum, en þannig er það hjá skáldum og augljóslega líka í fornleifafræðinni. 

Eins og fram hefur komið er gangan hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands, Með fróðleik í fararnesti. Þúsundir Íslendinga á öllum aldri hafa notið þess að halda í göngur með Háskóla Íslands og Ferðafélagi Íslands undanfarin ár og þegið fróðleik í fararnesti frá vísindamönnum og sérfræðingum Háskólans við nánast hvert fótmál. Göngurnar hafa löngu unnið sér fastan sess en með þeim er aukið við þekkingu fólks, ekki síst ungmenna, á sama tíma og boðið er upp á holla og skemmtilega hreyfingu.

Þátttaka í göngunni laugardaginn 12. október er ókeypis og allir eru velkomnir. Það þarf ekkert að panta, bara mæta og muna að búa sig eftir veðri. 

Orri Vésteinsson