Á slóðum Hallgerðar í Laugarnesi | Háskóli Íslands Skip to main content

Á slóðum Hallgerðar í Laugarnesi

8. september 2017

„Furðu mikil saga hefur gerst í Laugarnesi og nágrenni. Þaðan sést líka til eyjanna Engeyjar og Viðeyjar sem voru áður stórjarðir en fóru í eyði á fyrri hluta 20. aldar. Í Laugarnesi var biskupssetur á fyrri hluta 19. aldar og holdsveikraspítali á fyrri hluta 20. aldar,“ segir Gunnar Karlsson, prófessor emeritus, sem mun leiða göngu í röðinni um Fróðleik í fararnesti á morgun, laugardaginn 9. september kl. 11. Gangan er helguð sögu Laugarnessins en Gunnar þekkir svæðið býsna vel, ekki bara í gegnum bækur, því hann býr á Lauganesi og hefur gengið um það oftar en mjög margir. 

Fáir vita að ein frægasta og umdeildasta konan í fornbókmenntum okkar, Hallgerður Langbrók Höskuldsdóttir, bjó síðustu æviárin í Laugarnesinu, í miðri Reykjavík. Hver var þessi glæsilega kona, var hún eins og af er látið og er virkilega hægt að búa til bogastreng úr mannshári? Laugarnesið geymir líka sögu þeirra Íslendinga sem voru með hinn afdrifaríka sjúkdóm holdsveiki. Gunnar segir sögur sem tengjast Hallgerði og holdsveikinni og margar fleiri í göngunni á morgun. Gangan hefst klukkan 11 en brottför er frá bílastæðinu við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi.

„Laugarnes er góður staður til að líta á stóran og mikilvægan hluta núverandi Reykjavíkur sem utanbæjarland, jörð í sveit, talsvert langt utan við bæinn. Það er líka leið til að líta á Reykjavík á nýstárlegan hátt,“ segir Gunnar. 

„Laugarnes er líklega einna miðlægasti bletturinn í borgarlandinu þar sem enn er svolítill reitur af ósnortinni náttúru. Laugarnesfjara er ekki stór en hún kann samt að nægja einhverjum til að róa hugann með þeirri alþekktu aðferð að horfa á ölduna falla að og frá. Sem borgarhluti er Laugarnesið líka mikilvægt.  Þar er eitt besta listasafn borgarinnar, líka sérkennilegur bústaður Hrafns Gunnlaugssonar kvikmyndaleikstjóra. Hér er líka verulegur hluti Listaháskóla Íslands, á reitnum milli Sæbrautar og Laugarnesvegar. Fjallasýn er hér líka til Akrafjalls, Skarðsheiðar og Esju.“  

Hallgerður langbrók Höskuldsdóttir sem kemur við sögu í göngunni á morgun er ein allra þekktasta kvenpersónan úr Íslendingasögunum en hún var kona Gunnars á Hlíðarenda eins og flestir vita. Sumir fullyrða að Hallgerður hafi verið grafin á Laugarnesi en þar sem nú eru gatnamót Kleppsvegar og Laugarnesvegar var áður fyrr þúst sem kölluð var Hallgerðarleiði. 

Gangan á morgun er hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands, Með fróðleik í fararnesti, sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Þetta er ganga fyrir alla, ekki síst áhugasama krakka um skemmtilegar sögulegar staðreyndir. Áætlað er að ferðin taki um tvær klukkustundir. 

Þátttaka ókeypis eins og alltaf og allir velkomnir.

Næstu ferðir:
Laugardaginn 23. september kl. 11 - Margt býr í Öskjuhlíðinni
Laugardaginn 7. október kl. 13.30 - Fjöruferð í Gróttu
 

Gunnar Karlsson

Netspjall