Á sjötta tug erlendra háskólastarfsmanna á starfsþjálfunardögum í HÍ | Háskóli Íslands Skip to main content

Á sjötta tug erlendra háskólastarfsmanna á starfsþjálfunardögum í HÍ

16. maí 2018
""

Á sjötta tug starfsmanna við erlenda samstarfsskóla tekur þátt í starfsþjálfunardögum við Háskóla Íslands sem hófust í dag. Þátttakendur koma frá 22 þjóðlöndum, þar á meðal frá Ástralíu, Kanada og Kína.

Áður en formleg dagskrá hófst funduðu fulltrúar háskóla í Aurora-netinu, sem er samstarfsvettvangur níu evrópskra háskóla sem Háskóli Íslands á aðild að, en starfsfólki þeirra var sérstaklega boðið á starfsþjálfunardagana í ár.

Formleg dagskrá hófst með ávarpi frá Jóni Atla Benediktssyni rektor og kynningum frá Friðriku Harðardóttur, forstöðumanni Skrifstofu alþjóðasamskipta, og Jóni Erni Guðbjartssyni, sviðstjóra markaðs- og samskiptasviðs. Þá tók Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs Háskólans, við hópnum og fór yfir sögu Íslands í hnotskurn. Næst var boðið upp á leiðsögn um Veröld – hús Vigdísar og endað á sýningunni Samtal - Dialouge um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.

Starfsþjálfunardagarnir standa í þrjá daga og er fjölbreytt dagskrá í boði, fyrirlestrar, vinnustofur, leiðsögn um háskólasvæðið, móttaka og fleira. Þema starfsþjálfunardaga í ár eru gæði í samstarfi milli háskóla, hvernig þau eru mæld og hvernig megi bæta þau enn frekar. Ferli vegna námsdvalar nemenda erlendis, bæði í hefðbundnu skiptinámi og starfsþjálfun, verða skoðuð sérstaklega.

Dagskránni lýkur svo með ferð í Hellisheiðarvirkjun, Krýsuvík og Strandakirkju á föstudeginum.

Skrifstofa alþjóðasamskipta stendur fyrir starfsþjálfunardögunum en dagskráin er sniðin að þeim sem vinna við alþjóðamál í erlendum samstarfsskólum HÍ.

þáttakendur í starfsmannadögum

Netspjall