Skip to main content
8. júní 2018

Á níunda þúsund umsóknir um grunn- og framhaldsnám við HÍ

""

Tæplega 5.000 umsóknir bárust um grunnnám í Háskóla Íslands fyrir komandi skólaár sem er á tólfta prósent fleiri umsóknir en í fyrra. Fjöldi umsókna um framhaldsnám jókst einnig milli ára og nemur aukningin um 12,5 prósentum. Umsóknum í grunnnámi í allar verkfræðigreinar Háskólans fjölgar og aukinn áhugi er m.a. á lögfræði, næringarfræði og leikskólakennarafræði auk þess sem menntavísindin eru almennt í sókn.

Umsóknir um grunnnám skiptust svo á fimm fræðasvið Háskólans:

Félagsvísindasviði bárust alls 984 umsóknir og líkt og undanfarin ár fékk Viðskiptafræðideild flestar umsóknir þar, eða tæplega 380. Þá sækjast hátt í 160 eftir inngöngu í lögfræði í Háskóla Íslands sem er nærri 40% aukning milli ára. Lagadeild nýtir líkt og síðustu ár A-próf við inntöku nemenda og munu hundrað nemendur hefja þar nám í haust. Þá sækjast um 110 manns eftir inngöngu í félagsráðgjöf og svipaður fjöldi í hagfræði en rúmlega 80 hyggjast hefja nám í stjórnmálafræði.

Heilbrigðisvísindasvið fékk líkt og í fyrra flestar umsóknir fræðasviðanna fimm eða 1.285. Þar af eru tæplega 350 manns sem þreyta inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun við Læknadeild dagana 7. og 8. júní. Þeir sem ekki fá inngöngu í þessar námgsreinar geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí nk. Sálfræðideild bárust enn fremur hátt í 340 umsóknir og um 60 umsóknir bárust í matvæla- og næringarfræði sem er hátt í 80% aukning milli ára. Hjúkrunarfræðideild fékk hátt í 180 umsóknir en deildin nýtir A-próf til þess að taka inn 120 nemendur í haust. Þá bárust um 100 umsóknir um að hefja nám í tannlæknisfræði en við Tannlæknadeild eru samkeppnispróf haldin að loknu fyrsta misseri og halda þá sjö nemendur áfram á annað misseri.

Hugvísindasvið fékk næstflestar umsóknir allra sviða, 1.170, og líkt og undanfarin ár bárust flestar þeirra í íslensku sem annað mál. Alls reyndust þær rúmlega 500, í annaðhvort BA-nám eða styttra hagnýtt nám. Þá sækjast nærri 350 manns eftir að hefja nám í einhverju þeirra erlendu tungumála sem kennd eru við Háskóla Íslands, flestir í ensku eða 150. Enn fremur bárust rúmlega 50 umsóknir í sagnfræði og annað eins í heimspeki. 

Menntavísindasvið fékk rúmlega 600 umsóknir en þar hafa orðið talsverðar skipulagsbreytingar á deildum og námsleiðum milli ára og fjölgar deildum sviðsins úr þremur í fjórar þann 1. júlí nk. Umsóknir reyndust hátt í 150 í sex nýjar námsleiðir til B.Ed.-gráðu í grunnskólakennarafræði. Þá reyndust umsóknir um leikskólakennaranám tæplega 80 sem er um 60% aukning milli ára. Þá sækjast rúmlega 110 nemendur eftir að hefja nám í íþrótta- og heilsufræði en á næsta skólaári verða í fyrsta sinn allir nemendur á námsleiðinni í Reykjavík í framhaldi af flutningi námsins frá Laugarvatni. Loks hyggja um 90 manns á nám í þroskaþjálfafræði innan sviðsins.

Verkfræði- og náttúruvísindasviði bárust tæplega 900 umsóknir. Fjölgun umsókna er í öllum greinum verk- og tækifræði. Samtals eru þær um 380, flestar í hugbúnaðarverkfræði, iðnaðarverkfræði og vélaverkfræði, eða á bilinu 70-80 umsóknir í hverja grein. Þá má nefna að umsóknum um nám í rafmagns- og tölvuverkfræði fjölgaði um 40% milli ára. Auk þess bárust yfir 200 umsóknir um nám í tölvunarfræði og yfir 70 vilja hefja nám í líffræði í haust.

Samanlagt eru umsóknir nýnema um grunnnám í Háskóla Íslands fyrir komandi skólaár 4.939 en það eru fleiri umsóknir en sem nemur fjölda þeirra sem ljúka stúdentsprófi í ár. Aldrei hafa þó fleiri lokið stúdentsprófi hér á landi en í ár. Háskóli Íslands hefur tekið inn yfir 3.000 nemendur í grunnnám á ári hverju síðustu ár en í haust gæti fjöldinn orðið um 3.100-3.300 samkvæmt áætlunum skólans. 

Fjölgun umsókna í grunnnámi er í samræmi við áætlanir skólans en reiknað er með að áframhald verði á henni á næstu tveimur árum, m.a. vegna áhrifa af styttingu námstíma til stúdentsprófs. Fjölgunin er verkefni sem Háskóli Íslands tekur alvarlega enda leggur skólinn kapp á gæði kennslu og afbragðsþjónustu við nemendur þrátt fyrir mikla fjölgun. Háskólinn mun gera sitt besta til að mæta fjölguninni innan þess ramma fjárlaga sem honum er úthlutað. Það mun þó reyna á starfsfólk og innviði skólans.

Aukin aðsókn í framhaldsnám
Umsóknir um framhaldsnám fyrir næsta skólaár eru 3.183 en umsóknarfrestur um  flestar námsleiðir á því stigi rann út  15. apríl. Í fyrra voru umsóknir um framhaldsnám 2.830 og því nemur hlutfallsleg fjölgun umsókna um 12 prósentum. Þetta er í takt við þróun síðustu ára þar sem sífellt stærri hópur velur að sækja framhaldsnám við Háskóla Íslands.

Um 1.200 umsóknanna bárust Félagsvísindasviði, sem er stærsta fræðasvið skólans. Þá bárust Menntavísindasviði tæplega 650 umsóknir um nám á framhaldsstigi, sem eru um 200 fleiri umsóknir en í fyrra. Því til viðbótar reyndust umsóknir um nám á þverfræðilegum námsleiðum í menntun framhaldsskólakennara um 150 talsins. Þetta eru sannarlega gleðileg tíðindi, ekki síst í ljósi þess að bent hefur verið á yfirvofandi skort á kennurum hér á landi. 

Þessu til viðbótar hafa rúmlega 80 nemendur sótt um að hefja doktorsnám við skólann seinni hluta árs en fjöldi doktorsnema við Háskólann er nú á sjöunda hundrað.

 

Aðalbygging Hí