Á fjórða tug afreksnema fær styrk til náms við Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content
25. júní 2018

Á fjórða tug afreksnema fær styrk til náms við Háskóla Íslands

""

Þrjátíu og þrír nemendur sem hyggjast hefja nám í Háskóla Íslands í haust tóku við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í dag. Sjóðurinn fagnar tíu ára afmæli í ár.

Styrkþegarnir koma úr tólf framhaldsskólum víða af landinu eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs. Við mat á styrkþegum er einnig horft til virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum. Þá leitast stjórn sjóðsins við að styrkja nýnema sem sýnt hafa fram á sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður.  

Styrkþegarnir 33, 12 karlar og 21 kona, hyggja á nám í yfir 20 mismunandi námsleiðum á öllum fimm fræðasviðum skólans. Í þessum glæsilega hópi eru enn fremur 13 dúxar og 3 semidúxar úr framhaldsskólum landsins á síðustu misserum og þrír styrkhafanna hlutu Menntaverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru við brautskráningar úr framhaldsskólum landsins í vor.

Fyrstu styrkirnir voru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands árið 2008 en frá þeim tíma hafa um 260 nemendur tekið við styrkjum úr sjóðnum. Hver styrkur í ár nemur 375 þúsund krónum og er samanlögð styrkupphæð því rúmar tólf milljónir króna.

Styrkhafarnir eru: Ágúst Pálmason Morthens, Ása Berglind Böðvarsdóttir, Birta Lind Atladóttir, Bjarnveig Björk Birkisdóttir, Davíð Sindri Pétursson, Elsa Jónsdóttir, Elvar Wang Atlason, Enar Kornelius Leferink, Erla Björk Sigurðardóttir, Guðrún Sólveig Sigríðardóttir, Gunnar Sigurðsson, Helgi Sigtryggsson, Hólmfríður María Þórarinsdóttir, Hörður Tryggvi Bragason, Inga Rósa Böðvarsdóttir, Ingibjörg Ragnheiður Linnet, Írena Rut Stefánsdóttir, Jiayu Jiang, Jóhann Gísli Ólafsson, Karólína Andrea Gísladóttir, Katarina K. Kekic, Katrín Agla Tómasdóttir, Kári Steinn Aðalsteinsson, Lingxue Guan, María Ármann, Matthildur Kemp Guðnadóttir, Rannveig Hlín Jóhannesdóttir, Selma Rún Bjarnadóttir, Smári Snær Sævarsson, Tómas Halldórsson, Valgerður Jónsdóttir, Vignir Már Másson og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir.

Styrkirnir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands. Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands skipa Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar sem er formaður, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild, og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild.

Nánari upplýsingar um styrkhafana.
 

Styrkþegar og fulltrúar þeirra ásamt rektor Háskóla Íslands og stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs. MYND/Kristinn Ingvarsson