Skip to main content
11. júní 2019

370 nemendur á skólabekk í Háskóla unga fólksins

""

Það lifnar heldur betur yfir háskólasvæðinu í vikunni þegar um 370 krakkar á aldrinum 12-16 ára sækja hinn árlega Háskóla unga fólksins í Háskóla Íslands. Skólinn, sem er settur var í morgun, stendur til föstudagsins 14. júní. 

Í Háskóla unga fólksins, sem haldinn er í 16. sinn, búa nemendur til sína eigin stundarskrá en þeir geta valið á milli rúmlega 50 námskeiða af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. Nemendur sækja þrjú tveggja daga námskeið, einn þemadag og tvö örnámskeið dagana fjóra sem skólinn stendur yfir. Meðal viðfangsefna nemendanna í námskeiðunum eru afbrotafræði, iðnaðarverkfræði, tilfinningar- og geðheilsa, ofurhetjumyndir, plánetan Jörð, japanska, loftsteinar og árekstrar, rannsóknarblaðamennska og vefsmíði, svo fátt eitt sé nefnt.

Á þemadeginum, sem verður fimmtudaginn 13. júní, verja nemendur heilum degi í tilteknum greinum og fara vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og jafnvel víðar. Þemadagarnir hverfast m.a. um mat í geimnum, dýralíffræði, lög og rétt, stafræna tækni og forritun, listir og lífsleikni, tungumál heimsins og smíði kappakstursbíls.

Tugir nemenda og kennara í Háskóla Íslands koma að kennslu í Háskóla unga fólksins auk sérfræðinga annars staðar úr atvinnulífinu. 

Nemendur fást ekki aðeins við verkefni í húsakynnum Háskólans í vikunni heldur býðst þeim einnig að taka þátt í leikjum og gleði í hádegishléum. Þá verður efnt til stórrar grillveislu og lokahátíðar við Háskólatorg eftir hádegi föstudaginn 14. júní og þar geta nemendur spreytt sig á alls kyns þrautum og tekið þátt í skemmtilegum leikjum. 

Hægt verður að fylgjast með skólastarfi Háskóla unga fólksins á vefsíðu skólans  og Facebook-síðu hans
 

Nemendur í Háskóla unga fólksins