Skip to main content
2. október 2020

25 ára afmæli stjórnsýslulaganna fagnað með nýrri bók

""

Fræðimenn við Lagadeild Háskóla Íslands eru meðal höfunda ritsins Stjórnsýslulögin 25 ára sem kom nýverið út í tilefni af því að 1. janúar 2019 var aldarfjórðungur liðinn frá gildistöku stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

„Lögfesting stjórnsýslulaga fól í sér þýðingarmikla réttarbót fyrir borgarana en helsta markmið þeirra er að tryggja sem best réttaröryggi borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld. Með stjórnsýslulögunum var kveðið skýrar á um reglur sem áður giltu á ólögfestum grundvelli sem og ný réttindi færð í lög. Meðal þeirra réttinda og skyldna sem kveðið er á um í stjórnsýslulögunum er andmælarétturinn, málshraðareglan, kröfur til rannsóknar máls og leiðbeiningarskylda stjórnvalda," segir Hafsteinn Dan Kristjánsson, aðjunkt við Lagadeild og ritstjóri Stjórnsýslulaganna 25 ára, en auk hans sátu þau Ásgerður Snævarr, Elísabet Gísladóttir, Flóki Ásgeirsson og Gerður Guðmundsdóttir í ritnefnd.

Fram kemur á vef Stjórnarráðsins, þar sem ritið er að finna á rafrænu formi, að markmið laganna hafi einnig verið að stuðla að hagkvæmni og skilvirkni í störfum stjórnvalda og auka traust á þeim. „Þannig var það ekki einungis markmið að stuðla að efnislega réttri niðurstöðu í máli með fyrir fram ákveðnum málsmeðferðarreglum heldur jafnframt að ásýndin af störfum stjórnvalda væri með þeim hætti að hún vekti traust hjá borgurunum um að niðurstaða mála væri og yrði rétt,“ segir á vefnum. 

Í ritinu, sem er safn fræðilegra ritgerða, nálgast stór hópur lögfræðinga þessi þýðingarmiklu lög út frá ólíkum sjórnarhornum, svo sem tjáningarfrelsi og uppljóstraravernd opinberra starfsmanna, fyrirsvari barna í stjórnsýslumálum, höfðun dómsmála vegna athafna og ákvarðana stjórnvalda, lagalegri ábyrgð ráðherra og brottfalli stjórnsýsluviðurlaga.

„Í bókinni velta einstakir höfundar því m.a. fyrir sér hvort ástæða sé til að kveða skýrar á um ákveðin atriði í lögunum og hvort tilefni sé til að færa fleiri atriði í lögin í ljósi þeirra álitaefna sem kunna að rísa í framkvæmd,“ segir Hafsteinn Dan aðspurður hvort þörf sé á að endurskoða lögin á þessum tímamótum.

Sjálfur er hann meðal höfunda en auk hans rita prófessorarnir Björg Thorarensen og Eiríkur Jónsson, Kristín Benediktsdóttir dósent, Víðir Smári Petersen lektor og Páll Hreinsson rannsóknarprófessor, öll við Lagadeild Háskóla Íslands, kafla í ritið. Meðal annarra höfunda eru stundakennarar við Lagadeild.

Bókina í heild sinni má nálgast hér.

Hafsteinn Dan Kristjánsson og kápa bókarinnar