Skip to main content
14. apríl 2021

1 metra regla, 50 manns mega koma saman, blöndun hópa heimil – fylgjum samt sóttvörnum

1 metra regla, 50 manns mega koma saman, blöndun hópa heimil – fylgjum samt sóttvörnum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (14. apríl):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Sem betur fer virðist nú rofa til að nýju í baráttu okkar innlands gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Því hefur heilbrigðisráðherra gefið út nýja reglugerð þar sem fram koma talsverðar tilslakanir á þeim takmörkunum sem gilt hafa m.a. í starfi Háskóla Íslands. Reglugerðin tekur gildi á miðnætti og hefur hún m.a. eftirfarandi í för með sér:

  • Í öllum byggingum Háskóla Íslands gildir 1 m fjarlægðarregla.
  • Ef ekki er unnt að halda 1 m fjarlægð eiga nemendur og starfsfólk að nota andlitsgrímur.
  • Fjöldi nemenda og starfsmanna má vera allt að 50 í hverju rými.
  • Blöndun á milli hópa er heimil.
  • Í sameiginlegum rýmum, s.s. við innganga, í anddyri, á salernum og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun sé þess gætt að nota andlitsgrímur. 
  • Þar sem ekki er unnt að framfylgja nálægðartakmörkunum, s.s. í verklegri kennslu og klínísku námi, er skólastarf heimilt að gættum sóttvörnum og með því að nemendur og kennarar noti andlitsgrímur.
  • Viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms eiga ekki fara fram í byggingum Háskóla Íslands og takmarka á gestakomur hingað. 

Við munum tryggja að sameiginlegir snertifletir í skólastofum verði sótthreinsaðir á milli nemendahópa og sömumleiðis reglulega loftun í rýmum. 

Þá mun starfsfólk skólans sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti a.m.k. einu sinni á dag. 

Enn á ný virðist samstaða okkar og seigla vera að skila árangri. En þótt þessi nýjasta tilslökun létti okkur svo sannarlega allt skólastarf, og fjölmargt annað í samfélaginu, megum við alls ekki gleyma okkur í amstri dagsins. Munum að einstaklingsbundnar sóttvarnir skipta mestu við að hindra útbreiðslu veirunnar. 

Höldum áfram á sömu braut. 

Gangi ykkur öllum vel, kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Nemendur í Stakkahlíð