Skip to main content
7. október 2021

110 ára afmæli kennslu í HÍ fagnað í Alþingishúsinu

110 ára afmæli kennslu í HÍ fagnað í Alþingishúsinu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskólaráð fundaði í Alþingishúsinu í dag í tilefni þess að nú eru liðin 110 ár (og fimm dögum betur) síðan kennsla við Háskóla Íslands hófst í húsakynnum Alþingis. Háskólinn var til húsa við Austurvöll allt þar til starfsemi hans var flutt í nýja aðalbyggingu Háskóla Íslands á Melunum 1940.

Háskóli Íslands var stofnaður á hátíðarfundi á Alþingi 17. júní 1911, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Kennsla hófst svo 2. október á fyrstu hæð Alþingishússins þar sem nú eru þingflokksherbergi, í fjórum deildum; guðfræðideild, heimspekideild, lagadeild og læknadeild. Nemendur þetta fyrsta skólaár voru 45, 44 karlar og 1 kona.

Kennarastofa var þar sem nú er fundarherbergi forsætisnefndar, en þar fór fundur háskólaráðs fram í dag. Gegnt herbergi forsætisnefndar er nú herbergi forseta, sem áður var skipt í tvö minni herbergi sem voru notuð sem geymslur fyrir líffæra- og lyfjasafn læknadeildar. Um alllangt skeið hafði læknadeildin einnig aðstöðu í smáhýsi við hlið Alþingishússins þar sem anatómísk krufning fór fram.

Fyrir fund sinn fékk háskólaráð leiðsögn um Alþingishúsið. Hana leiddu þau Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, og Kristján Sveinsson, upplýsingafulltrúi þingsins, en þess má geta að Ragna er fyrrverandi fulltrúi í háskólaráði. Fundur háskólaráðs var þó ekki bara helgaður sögu skólans heldur fjallaði ráðið einnig um ýmis framtíðarmálefni hans, eins og nýja stefnu hans til næstu fimm ára og nýlega úttekt Gæðaráðs íslenskra háskóla á starfi Háskóla Íslands. Í úttektinni lofar alþjóðlegur sérfræðingahópur fjölmarga þætti sem lúta að rannsóknum, kennslu og stjórnunarháttum innan skólans en bendir einnig á tækifæri til sóknar fyrir Háskólann til framtíðar.

Fleiri myndir frá heimsókninni í Alþingishúsið

Háskólaráð ásamt Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, í heimsókninni í dag.