Skip to main content

Skólar og þroski

Skólar og þroski - á vefsíðu Háskóla Íslands

Skólar og þroski er eitt af kjörsviðum MS-náms í hagnýtri sálfræði. Markmið kjörsviðsins er að fylgja eftir brýnni þörf innan skólakerfisins fyrir fjölbreytta og hagnýta sálfræðiþekkingu fólks sem getur beitt kenningum og aðferðum snemmtækrar íhlutunar í vinnu með börnum sem þurfa sérstakan stuðning í námi.

Rannsóknir síðustu áratuga hafa sýnt að sérhæfð og vönduð vinnubrögð með gagnreyndum aðferðum geta skipt sköpum varðandi framtíðarhorfur barna með sérþarfir, en mikill skortur hefur verið á fagmenntun á þessu sviði. Læsi hefur einnig verið í brennidepli í umræðunni undanfarin ár og mikil vitundarvakning átt sér stað um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og markvissrar kennslu á sviði máls og læsis bæði í leik- og grunnskólum. Mikil þörf er á fagfólki sem getur miðlað þekkingu til kennara, foreldra og menntastofnana um raunprófaðar aðferðir til þess að efla málþroska og læsi á öllum skólastigum og fyrirbyggja erfiðleika á því sviði.

Megin áhersla kjörsviðsins er á að mennta fagfólk sem getur:

 • Veitt ráðgjöf, stuðning og eftirfylgd við nemendur kennara og foreldra á sviði:
  - Námsörðugleika og þroskafrávika
  - Hegðunar- og tilfinningavanda
  - Áhættuþátta sem tengjast málþróun og læsi
 • Metið stöðu og framvindu í námi og þroska einstakra barna sem og hópa (bekkja, árganga)
 • Veitt kennurum, foreldrum og öðrum sem koma að menntun og uppeldi barna fræðslu og símenntun um gagnreyndar aðferðir og snemmtæka íhlutun á ofangreindum sviðum

Námskeið

Í námskeiðum kjörsviðsins er fjallað um hegðunar- og námsörðugleika barna og unglinga, eðli þeirra, uppruna, mælitæki og greiningaraðferðir og þá sérstaklega virknimat og virknigreiningu. Einnig er fjallað um meðferðar- og kennslutækni með áherslu á rannsóknir í hagnýtri atferlisgreiningu. Farið er ítarlega yfir grundvallarhugtök sem varða læsi og forsendur lestrarnáms, lestrarörðugleika og þróun lestrar.

Lokaverkefni og starfsþjálfun

Nemendur geta valið um að ljúka 30 eða 60 ects MS-verkefni. Þeir nemendur sem velja 30 eininga lokaverkefni fara í starfsþjálfun á þriðja misseri þar sem þeim gefst tækifæri til þess að beita þekkingu sinni í starfi á vettvangi.

Megin markmið starfsþjálfunarinnar er að nemendur:

 • geti nýtt fræðilega þekkingu sína til þess að meta á faglegan hátt kennsluinngrip, námsefni, stöðu einstakra barna og þörf fyrir aðstoð annarra sérfræðinga
 • séu færir um að leiða og rökstyðja ákvarðanir um inngrip og eftirfylgd einstakra barna í samhengi við annað skólastarf
 • geti beitt fræðilegri þekkingu við að meta áhættuhópa
 • geti beitt snemmtækri íhlutun og einstaklingsmiðaðri nálgun
 • geti valið og notað viðeigandi og vel skipulögð kennsluúrræði sem draga úr áhættu og efla styrkleika nemenda
 • geti unnið með starfsfólki skóla að gerð námsskrár fyrir einstaklinga, hópa og skóla og stuðlað að eflingu skólamenningar sem tekur mið af margbreytilegum náms- og félagsþörfum nemenda
 • geti miðla upplýsingum til foreldra og annarra sérfræðinga
 • geti unnið faglega með öðrum sérfræðingum á sviðinu og veitt ráðgjöf um kennsluaðferðir, kennsluefni og eftirfylgd
 • geti tekið þátt í að skipuleggja og stutt við foreldrasamstarf

Sjá nánari upplýsingar um kjörsviðið Skólar og þroski og inntökuskilyrði í Kennsluskrá HÍ.

Sjá einnig upplýsingar um nauðsynleg fylgigögn með umsókn og umsókn um framhaldsnám við HÍ.

Tengt efni
Skólar og þroski