Menntastjórnun og matsfræði - stjórnun menntastofnana, viðbótardiplóma


Menntastjórnun og matsfræði
Viðbótardiplóma – 30 eða 60 einingar
Stjórnun menntastofnana sem viðbótardiplóma til 30 eða 60 eininga undir námsleiðinni menntastjórnun og matsfræði.
Námið er ætlað núverandi og verðandi stjórnendum í skólum og öðrum menntastofnunum sem vilja sérhæfa sig og bæta við sig þekkingu í stjórnun menntastofnana.
Skipulag náms
- Haust
- Starfstengd leiðsögn – leiðsagnarhlutverkið
- Þróunarstarf í menntastofnunum
- Vor
- Leiðsögn og samvinna
Starfstengd leiðsögn – leiðsagnarhlutverkið (STM104F)
Námskeiðið er ætlað kennurum á öllum skólastigum og öðrum sem annast starfstengda leiðsögn á sviði uppeldis og menntunar. Námskeiðið er grunnnámskeið á námssviðinu/námsleiðinni Starfstengd leiðsögn á sviði uppeldis og menntunar en einnig er hægt að taka það sem stakt valnámskeið.
Tilgangur námskeiðisins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á starfstengdri leiðsögn, markmiðum með slíkri leiðsögn, leiðsagnarhlutverki kennara og leiðsagnaraðferðum, og geti beitt þekkingunni í starfi. Stefnt er að því að nemendur geti nýtt sér helstu kenningar um starfstengda leiðsögn og fræðileg hugtök til að ræða og skipuleggja eigið starf sem leiðsagnarkennarar. Áhersla er lögð á að nemendur verði meðvitaðir um hvernig starfstengd leiðsögn getur eflt faglega starfshæfni einstaklinga og hópa, m.a. nemenda í vettvangsnámi, nýliða í kennslu, reyndra kennara og annars fagfólks. Lögð er áhersla á hagnýta þjálfun í starfstengdri leiðsögn sem leið til aukinnar fagmennsku og hugað er að ábyrgð og samstarfi leiðsagnarkennara og þeirra sem njóta leiðsagnarinnar.
Þróunarstarf í menntastofnunum (STM110F)
Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur öðlist hagnýta og fræðilega þekkingu á einkennum þróunarstarfs og þáttum í menningu menntastofnana sem stuðla að umbótum eða hindra þær. Jafnframt öðlist þeir leikni í að skipuleggja og leiða þróunarstarf, starfsþróunartækifæri og móta þróunaráætlanir. Byggt er á kenningum um faglegt lærdómssamfélag sem gerir ráð fyrir að faglegt nám og þróun stofununar séu nátengd.
Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:
- hafa skilning á helstu hugtökum og kenningum um þróun menntastofnana og skóla sem og frístundastofnana sem lærdómssamfélags
- geta tekið faglegar ákvarðanir um leiðir í starfs og skólaþróun sem og þróun frístundastofnana og rökstutt þær
- geta aflað fjölbreyttra gagna um þróunarstarf og metið gildi þeirra
- geta beitt hugtökum, kenningum, líkönum og aðferðum á raunveruleg viðfangsefni
- geta átt frumkvæði og haft forystu um rannsóknar- og þróunarverkefni í mennta- og frístundastofnunum til að efla fagmennsku
- geta greint leiðir til að efla kennara og starfsfólk frístundastarfi í með þátttöku alls samfélagasins.
Námskeiðið er skipulagt í lotur með fjarnámssniði, staðlotur eru þrjár auk kynninga á lokaverkefnum. Þess á milli fer fram lestur fræðilegs efnis, verkefnavinna og samræður þátttakenda. Auk þess býðst nemendum að taka þátt í málstofum um viðfangsefnin. Verkefni námskeiðsins eru hagnýt og tengjast þróunarstarfi og leiðsögn við raunverulegar aðstæður. Lögð er áhersla á samræðu og samstarf nemenda samhliða sjálfstæði í vinnubrögðum og frumkvæði auk virkni í umræðum og lestri fræðilegs efnis.
Námsmat byggir á fjölbreyttum verkefnum sem ýmist eru unnin í samvinnu við aðra eða eru einstaklingsverkefni.
Leiðsögn og samvinna (STM215F)
Tilgangur námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu og skilning á leiðsögn og samvinnu í skólastarfi þar sem stefnt er að starfsmenntun kennara, skólaþróun og öflugu foreldrasamstarfi, og að þeir geti beitt þekkingunni í starfi. Nemendur kynnast helstu rannsóknum og kenningum um starfstengda leiðsögn, og er stefnt að því að þeir geti nýtt sér þær á gagnrýninn og markvissan hátt sem leiðsagnarkennarar nýrra kennara og leiðtogar í teymisvinnu, jafningjaleiðsögn og þverfaglegu samstarfi í hópum. Einnig er lögð áhersla á hlutverk kennara í foreldrasamstarfi og í því að efla tengsl heimila og skóla. Kynnast þeir helstu kenningum og rannsóknum á því sviði, og tengja þær við eigin reynslu í starfi. Nemendur vinna með æfingar og verkefni sem miða að því að efla samskiptahæfni þeirra, einkum hæfni í leiðtoga- og leiðsagnarhlutverki, og í faglegum samskiptum við samstarfsfólk og foreldra.
Námskeið er kennt í fjarnámi með þremur staðbundnum lotum. Gert er ráð fyrir mætingu í staðbundnar lotur. Fyrirlestrar, umræður, einstaklings- og hópverkefni.
Forysta á nýjum tímum: Ný og breytt viðfangsefni, áskoranir og kreppur (STM030F)
Námskeiðið er í samstarfi við skólastjórafélögin á Íslandi og erlent fræðafólk. Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum innsýn inn í framtíðarfræði sem rannsóknarvettvang og sérstaka fræðigrein með áherslu á menntakerfi, skóla, krísustjórnun og félagslega nýsköpun.
Á námskeiðinu verður leitast við að:
- skapa í sameiningu aðstæður sem gera leiðtoga í skólastarfi færa um að takast á við kreppur og tækifæri framtíðarinnar,
- kynna og beita verkfærum félagslegrar nýsköpunar (e. Social Innovation) og hönnunarhugsunar (e. Design Thinking),
- læra af fjölbreyttu alþjóðlegu og staðbundnu samhengi sem mótar skólastarf og menntakerfi þjóða,
- stuðla að þróun mælikvarða sem mun auðvelda alþjóðlegan samanburð á reynslu skólastjórnenda til að auka faglega rödd þeirra á heimsvísu,
- vera hluti af alþjóðlegu samfélagi rannsakenda sem skuldbindur sig til að endurnýja samfélagssáttmála menntunar eins og gert er ráð fyrir í Education 2050 Learning to Become að frumkvæði UNESCO.
Viðfangsefni:
Helstu viðfangsefni námskeiðsins eru kenningar, hugtök og rannsóknir um beina og óbeina forystu innan menntakerfa og skóla framtíðarinnar. Unnið verður með hugmyndir og praktíska reynslu um forystu, teymisvinnu, gildi og aðferðir lýðræðislegra starfshátta. Þátttakendur greina helstu áhrifaþætti breytinga með það að markmiði að skilja betur núningsfleti og átakapóla. Jafnframt prófa þátttakendur verkfæri og safna saman hugmyndum sem reynst hafa vel í samstarfi stjórnenda með starfsfólki, nemendum og öðrum hagaðilum. Þátttakendur fá að auki rými til að ígrunda og þróa eigin kenningar um breytingar og væntanlega framtíð.
Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt í tveimur staðbundnum lotum. Fyrsta lotan fer fram á ensku í samstarfi við erlent fræðafólk og unnið verður út frá hugmyndafræði nýsköpunarsmiðja (e. Social Innovation Design Labs) þar sem þátttakendur deila reynslu sinni og ímynda sér framtíðarmöguleika skólastjórnenda með samstarfsfólki, nemendum og öðrum hagaðilum. Á námskeiðinu vinna þátttakendur fjölþætt verkefni á einstaklingsgrunni og í hópi og kynna svo afrakstur og áætlanir um framtíðina með fjölbreyttum hætti í seinni staðlotu. Námskeiðið er unnið í samstarfi við innlenda og erlenda fræðimenn.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.