Fjölmiðla- og boðskiptafræði - Viðbótardiplóma


Fjölmiðla- og boðskiptafræði (Ekki tekið inn 2023-2024)
Viðbótardiplóma – 30 einingar
Í diplómanámi í fjölmiðla- og boðskiptafræði öðlast nemendur aukinn skilning á flóknu, fjölbreyttu og síbreytilegu fjölmiðlaumhverfi – bæði hérlendis og í heiminum öllum.
Diplóma lokið með fyrstu einkunn getur veitt aðgang að meistaranámi í fjölmiðla- og boðskiptafræði.
Skipulag náms
- Haust
- Kenningar í fjölmiðla- og boðskiptafræðum
- Inngangur að fjölmiðlafræðiV
- Stjórnmál og fjölmiðlarV
- Stafrænir miðlarV
- Vor
- Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í alþjóðlegu samhengi
- Hagnýting jafnréttisfræða: Kyn og margbreytileiki í fjölmiðlumV
- FjölmiðlarétturV
- Fjölmiðlar og menning á tímum hnattvæðingarV
Kenningar í fjölmiðla- og boðskiptafræðum (BLF112F)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í nokkrar klassískar kenningar og skrif nútímahöfunda um þátt boðskiptanna og mismunandi boðskiptahátta í þróun og virkni samfélagsins. Vikið verður að kenningum nokkurra helstu kenningasmiða boðskipta- og fjölmiðlarannsókna og skyggnst í frumtexta þeirra. Jafnframt verður fjallað um eðli, þróun og viðfangsefni fjölmiðlarannsókna og sérstöðu fjölmiðlafræða innan félagsvísinda. Tekin verða dæmi af mismunandi rannsóknum, erlendum og innlendum, með hliðsjón af ólíkum kenningum og viðfangsefnum.
Inngangur að fjölmiðlafræði (BLF113F)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum þekkingu á félagsfræðilegum grundvelli fjölmiðla og þætti þeirra í samheldni flókinna þjóðfélaga. Yfirlit verður veitt um sögu boðskipta frá fyrstu prentuðum blöðum til stafrænnar miðlunar og áhersla lögð á að veita nemendum innsýn í samspil fjölmiðla við samfélagið og einstaklingana sem það skipa. Fjallað verður um helstu kenningar og niðurstöður innlendra og erlendra rannsókna á notkun og áhrifamætti fjölmiðla og er eignarhald, sjálfstæði fjölmiðla- og blaðamanna og fréttaframleiðsla á meðal þess sem er skoðað auk þess sem sígildar kenningar um dagskrár- og innrömmunaráhrif, siðafár, áróður, orðræðu og ímyndasköpun koma við sögu
Stjórnmál og fjölmiðlar (BLF318F)
Í námskeiðinu er skoðað samspil fjölmiðla og stjórnmála. Farið er yfir stöðu fjölmiðla sem upplýsingakerfis lýðræðis og þá þætti sem hafa haft áhrif á mótun fjölmiðlakerfisins í lýðræðisríkjum. Samskipti stjórnmála og fjölmiðla eru sérstaklega skoðuð í ljósi fagvæðingar blaðamennsku og stjórnmálabaráttunnar og byggt á hugmyndum um “þriðja skeið pólitískrar boðmiðlunar”. Tilkoma samfélagsmiðla og annarra nýrra fjölmiðlagátta sem nýrra möguleika í pólitískri boðmiðlun er sérstaklega könnuð og leitað svara við þeirri spurning hvort bylting í fjölmiðlatækni, auðveldara aðgengi og sprenging í fjölda fjölmiðlagátta hafi breytt grundvallarhugsun varðandi pólitíska boðmiðlun. Skoðaðar eru innlendar og erlendar rannsóknir um þetta efni.
Námskeiðið er kennt við Háskólann á Akureyri.
Stafrænir miðlar (BLF314F)
Í námskeiðinu er sjónum beint að stafrænum miðlum með sérstaka áherslu á samfélagsmiðla. Litið verður á stafræna miðla í sögulegu samhengi og hvaða áhrif boðskiptamynstur þeirra hefur á fagaðila, neytendur og notendur. Í fyrri hluta námskeiðsins verða helstu kenningar útskýrðar og settar í samhengi við viðurkenndar aðferðir. Síðari hluti námskeiðsins byggir á dæmum sem sýna helstu einkenni stafrænna miðla. Má þar nefna samspil stafrænna miðla og fjölmiðla, regluverk og viðskiptamódel félagsmiðla, áhrif stafrænna miðla á einkalíf og opinbera umræðu, áhrifamátt og dreifingarhæfni félagsmiðla og hvernig þeir skilyrða þátttökumöguleika notenda.
Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi í alþjóðlegu samhengi (BLF211F)
Í námskeiðinu verður fjallað um sögu og þróun íslenskra fjölmiðla. Fjallað verður um megineinkenni íslenska fjölmiðlakerfisins og sjónum einkum beint að samspili þess við stjórnmála- og efnahagsumhverfið. Skoðaðar verða helstu kenningar og rannsóknir á fjölmiðlakerfum og megineinkenni og þróun íslenskra fjölmiðla sett í samhengi við einkenni og þróun fjölmiðla í öðrum ríkjum. Leitast verður við að svara spurningum um að hvaða leyti þróunin hér á landi hefur verið lík þróuninni annarsstaðar og að hvaða leyti íslenskir fjölmiðlar skera sig úr, meðal annars vegna smæðar markaðarins. Velt verður upp spurningum um áhrif eignarhalds, samkeppni, samþjöppunar og samruna ólíkra tegunda fjölmiðla á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Hagnýting jafnréttisfræða: Kyn og margbreytileiki í fjölmiðlum (KYN203F)
Jafnréttismál eru hluti af regluverki fjölmiðlunar á Íslandi og sífellt meiri kröfur eru gerðar á því sviði. Námskeiðið veitir hagnýtan undirbúning fyrir störf í fjölmiðlun þar sem þekking og þjálfun í málefnum kynjajafnréttis og margbreytileika er nauðsynleg.
Námskeiðið er hagnýtur undirbúningur fyrir störf á sviði fjölmiðlunar. Markmið námskeiðsins er að kynna grundvallaratriði jafnréttisfræða, sögu og merkingu jafnréttishugtaksins, og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða (e. gender mainstreaming) með sérstakri áherslu á fjölmiðlun. Nemendur gera hagnýtt verkefni um kyn, margbreytileika og minnihlutahópa á sviði fjölmiðlunar. Í nútímasamfélögum eru gerðar síauknar kröfur um þekkingu á jafnréttismálum, ekki síst á sviði fjölmiðlunar. Ísland er aðili að alþjóðasamþykktum þar sem kveðið er á um jafnrétti í fjölmiðlum. Í fjölmiðlalögum er kveðið á um upplýsingagjöf um birtingarmyndir kynja í fjölmiðlum og kynjahlutföll starfsfólk á fjölmiðlum og í jafnréttislögum segir að niðurstöðum rannsókna skuli markvisst miðlað til fjölmiðla. Námskeiðið er samkennt með námskeiðinu KYN202F: Hagnýting jafnréttisfræða: Frá bróðurparti til systkinalags.
Fjölmiðlaréttur (LÖG284F)
Í kjörgreininni fjölmiðlarétti verður farið yfir hinar helstu réttarreglur, sem gilda hér á landi um starfsemi fjölmiðla og um hvers kyns útgáfustarfsemi í víðum skilningi (þó ekki um höfundarétt). Verður bæði fjallað um ólögbundnar réttarreglur á þessu sviði sem lögfestar. Sérstök áhersla verður lögð á mikilvægi fjölmiðla í nútíma þjóðfélagi og gildi þess, að starfsemi þeirra fari að lögum og heppilegum venjum og öðrum ólögbundnum meginreglum. Jafnframt verður lögð áhersla á siðferðilega ábyrgð fjölmiðla og á réttarstöðu borgaranna gegn óvandaðri eða misvísandi umfjöllun um málefni einstaklinga eða lögaðilja. Að meginstefnu verður miðað við íslenskan rétt en jafnframt höfð hliðsjón af erlendum réttarreglum á þessu sviði, sem áhugaverðar eru til samanburðar.
Markmið kennslunnar í greininni er að gefa nemendum skýrt yfirlit og jafnframt ýtarlegri umfjöllun um valda meginþætti fjölmiðlaréttar, sem miklu máli skipta fyrir einstaklinga og samfélag, með sérstakri áherslu á þá hröðu þróun, sem orðið hefur á þessu sviði og hvernig fjölmörg ný lögfræðileg álita- og úrlausnarefni í fjölmiðlarétti - sem og siðfræðileg vandamál - hafa skapast í kjölfar tækninýjunga og breyttra þjóðfélagshátta. Þess er vænst, að nemendur hafi, að námskeiðinu loknu, öðlast haldgóða þekkingu á höfuðþáttum námsefnisins, sem nýtist í margvíslegum störfum, er lagaþekkingu þarf til, þeir séu hæfari en áður til að mynda sér gagnrýnar og rökstuddar skoðanir á einstökum efnisþáttum auk hæfni til að taka þátt í þjóðfélagsumræðu um þau lögfræðilegu og siðfræðilegu álitaefni, sem fjallað er um á námskeiðinu. Námskeiðið er að jafnaði kennt annað hvert ár.
Fjölmiðlar og menning á tímum hnattvæðingar (BLF204M)
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist helstu kenningum og rannsóknum um áhrif hnattvæðingar á flæði fjölmiðlaefnis og menningar. Fjallað er um alþjóðlega- svæðisbundna- og ríkjabundna markaði fyrir fjölmiðlaefni mismunandi fjölmiðla, áhrif hnattvæðingar á „þjóðlegra“ menningu og viðbrögð stjórnvalda við auknu flæði útlends fjölmiðlaefnis og erlendra menningarstrauma. Fjallað er einnig um þau tæknilegu, hagrænu og pólitísku öfl eru að baki auknu flæði fjölmiðlaefnis milli landa. Sjónum verður m.a. beint að tilraunum Evrópusambandsins til að byggja upp innri markað á sviði fjölmiðlunar og fjallað verður um stöðu íslenskrar menningar í kjölfar óhefts flæðis fjölmiðlaefnis þvert á landamæri.
Þáttagerð. Vinnsla fræðilegs efnis fyrir útvarp (í samvinnu við RÚV) (BLF201M)
Markmiðið með námskeiðinu er að gefa nemendum tækifæri til að koma rannsóknum sínum og annarra á framfæri við hlustendur Ríkisútvarpsins, jafnframt því að rýna í samfélag og menningu á fræðilegum forsendum. Nemendum gefst um leið tækifæri til að kynnast útvarpinu sem miðli, fá reynslu af þáttagerð og kynnast verklagi reynds fjölmiðlafólks.
Á meðal þess sem rætt verður um á námskeiðinu er: Ríkisútvarpið sem miðill, útvarp sem farvegur fræða, gerð fléttuþátta fyrir útvarp, viðtöl við fræðimenn, hvernig nýta megi eigin sérfræðiþekkingu við dagskrárgerð og krafturinn sem býr í hinu ósagða. Rætt verður um talmál og tónlist í safni Ríkisútvarpsins. Lögð verður áhersla á hvernig tækni hefur þróast varðandi varðveislu og afspilun og hvernig hægt er að flétta eldri upptökur inn í nýja dagskrá.
Auk þessa fræðast nemendur um handritsgerð, viðtöl og vinnu í hljóðstofu. Þættir nemenda verða á dagskrá Ríkisútvarpsins á komandi vetri.
Hafðu samband
Nemendaþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs
Fylgstu með Félagsvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.