Skip to main content

Blaða- og fréttamennska - Viðbótardiplóma

Blaða- og fréttamennska - Viðbótardiplóma

Félagsvísindasvið

Blaða- og fréttamennska

Viðbótardiplóma – 30 einingar

Diplóma í blaða- og fréttamennsku miðar að því að búa nemendur sem best undir störf í hröðum heimi nútímafjölmiðlunar og einnig til áframhaldandi náms.

Skipulag náms

X

Vinnubrögð I: Fjölmiðlalög og siðareglur (BLF108F)

Markmið þessa námskeiðs er að nemendur öðlist skilning og þjálfun í faglegum vinnubrögðum blaða- og fréttamanna. Fjallað verður um lög og reglur sem gilda um fjölmiðla og störf blaða- og fréttamanna,  tjáningarfrelsi og meiðyrðalög.

Fjallað verður um siðareglur fjölmiðla, bæði almennar siðareglur Blaðamannafélags Íslands og hvernig þeim er beitt inni á mismunandi fjölmiðlum, samskipti blaðamanna við eigendur fjölmiðla og auglýsendur. Einnig um meðferð heimilda og umgengni við heimildarmenn eða aðrar rætur upplýsinga.

X

Fréttamennska 1: Fréttamat, fréttaöflun og fréttaskrif (BLF110F)

Grundvallarnámskeið í blaðamennsku. Markmið þess er að nemendur öðlist skilning á störfum blaðamanna og færni í fréttaöflun og skrifum og framsetningu frétta fyrir  mismunandi miðla. Helstu hugtök og aðferðir við fréttaskrif eru kynnt; hvað er frétt, á hverju byggja fjölmiðlar fréttamat, hvernig er frétta aflað og hvernig þær eru uppbyggðar o.s.frv. Nemendur verða þjálfaðir í að skrifa markvissa fréttatexta og greinar á góðri íslensku og að nota orðbækur og önnur slík hjálpartæki. Jafnfram verður lögð áhersla á að kenna nemendum að nota samfélagsmiðla, bæði til þess að afla upplýsinga og miðla fréttum.

Námsmatið byggir alfarið á verkefnum sem unnin eru jafnt og þétt yfir önnina. Nemendur afla og skrifa fréttir sem birtar verða á fréttavef námsins og eftir atvikum í öðrum fjölmiðlum.  Helstu fjölmiðlar landsins verða heimsóttir og nemendum fara í stutta starfskynningu.


 

X

Verkefni í blaða- og fréttamennsku (BLF313F)

Nemandur geta annað hvort valið sér umfjöllunarefni til birtingar í fjölmiðli eða efni úr fjölmiðlum til að rannsaka og skrifa um fræðilega ritgerð. Umsjónarkennari námsbrautarinnar annast leiðsögn. 

X

Ljósvakamiðlar: Gerð útvarps- og sjónvarpsfrétta (BLF206F)

Markmið þessa námskeiðs er að þjálfa nemendur í störfum við hljóð- og myndmiðla. Fjallað verður hvað er líkt með þessum miðlum og hvað skilur þá að, kosti þeirra og galla. Nemendum verður kennt að skrifa og byggja upp fréttir fyrir ljósvakamiðla og að nýta eiginleika hljóð- og myndefnis til að segja fréttir. Einnig verður fjallað um notkun hljóð og myndefnis á vefmiðlun. Nemendur fá tilsögn í tæknivinnslu hljóð- og myndefnis og verða þjálfaðir í raddbeitingu, framsögn og framkomu.

X

Fréttamennska II: Fréttaskýringar, viðtöl pistlaskrif og framsetning texta (BLF212F)

Í námskeiðinu er haldið áfram að vinna með það sem nemendur lærðu í áfanganum BLF106F Fréttamennska l. Markmiðið er að þjálfa nemendur enn frekar í frétta- og greinaskrifum, bæði fyrir prentmiðla og rafræna miðla og áhersla lögð á að laga efni að þörfum mismunandi miðla. Fjallað verður um fréttaskrif og fréttaskýringar, pistla, mannlífsefni og viðtöl, uppsetningu texta, myndefni, framsetningu og útlit. 

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Bára Huld Beck blaðamaður Kjarnanum
Guðrún Hálfdánardóttir dagskrárgerðarmaður á Rás 1
Bára Huld Beck
Meistaranám í blaða- og fréttamennsku

Sú ákvörðun að fara í meistaranám í blaða- og fréttamennsku var ein sú besta sem ég hef tekið en námið opnaði algjörlega nýja starfsmöguleika fyrir mig. Frá fyrstu kennslustundinni vissi ég að þetta væri eitthvað sem ég vildi vinna við og nýttist fyrri menntun mín vel en ég hafði bakgrunn í heimspeki. Í blaða- og fréttamennskunáminu læra nemendur ákveðinn grunn sem nýtist vel þegar þeir fara út á atvinnumarkaðinn.  

Fyrstu árin sem blaðamaður vann ég sem verktaki og tók að mér ýmis áhugaverð og skemmtileg verkefni – en ég bý enn að þeirri reynslu. Eftir nokkur ár fékk ég fast starf á ritstjórn Kjarnans og hef heldur betur nýtt mér námið í starfinu þar. Ég hvet alltaf alla sem hafa áhuga á blaðamennsku að fara í námið enda fá nemendur einstakt tækifæri til þróast sem blaðamenn áður en farið er út í heim blaða- og fréttamennskunnar.

Guðrún Hálfdánardóttir
Meistaranám í blaða- og fréttamennsku

Eftir að hafa starfað við blaðamennsku árum saman hafði ég áhuga á að afla mér endurmenntunar og það lá beint við að fara í meistaranám í blaða- og fréttamennsku. Námið stóð vel undir væntingum þar sem ég lærði margt nýtt þar og bætti þekkingu mína á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Ég sóttist einkum eftir því að læra meira um alþjóðamál og fjölmiðlun sem fræðigrein á meðan starfstengdir áfangar skipta miklu máli fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í blaða- og féttamennsku. MA-námið er góður undirbúningur fyrir starf á fjölmiðlum og námið hentar líka vel þeim sem starfa nú þegar á fjölmiðlum og vilja bæta við þekkingu enda þróunin hröð síðustu áratugi. Tengsl við aðra í svipuðum sporum eru mikils virði og í náminu verður til vinátta sem lifir eftir útskrift, því námið byggir mikið á samvinnu alveg eins og það að vinna á fjölmiðli. 

Hafðu samband

Nemendaþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 nemFVS@hi.is

Opið virka daga frá 09:00 - 15:00 
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík

Bóka viðtal við nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs

Fylgstu með Félagsvísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Gimli, Háskóli Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.